2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 10:49:08 (1910)

1995-12-14 10:49:08# 120. lþ. 65.91 fundur 140#B 2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[10:49]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. 15. þm. Reykv. sagði í upphafi umræðunnar að þetta haust sem við höfum sinnt störfum í þessari stofnun hefur verið nokkuð óvenjulegt og það er ekki síst að þakka núv. hæstv. forseta Alþingis og hvernig hann hefur tekið á málum og forsætisnefndin öll. Það hefur tekist gott samstarf um málin og bæði stjórn og stjórnarandstaða, þ.e. stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, hafa lagað sig að þessum veruleika með tíu undantekningum. Það eru ráðherrarnir. Þeir hafa ekki verið tilbúnir til að taka þátt í þessu. Þeir hafa ekki hagað sér með þeim hætti að það gæti orðið til þess að stuðla að góðri samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu um störf þingsins eins og nauðsynlegt er. Og það er auðvitað alveg útilokað að halda áfram umræðunum um fjárlögin í dag öðruvísi en fá nákvæmar upplýsingar um það hvenær tillögur ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum koma. Hvenær koma þær? Koma þær í dag? Koma þær á morgun? Hvenær koma þessar tillögur? Þetta er alveg óhjákvæmilegt að fá á hreint.

Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að það verði skoðað sem hv. síðasti ræðumaður nefndi að það er verið að knýja fram í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fjöldann allan af lagabreytingum sem snerta almenn efnahagsleg grundvallaratriði en ekki endilega fjárlagafrv. sjálft eins og á að afgreiða það núna. Ég held að menn þurfi þess vegna að skoða það mjög alvarlega með tilliti til þess litla tíma sem þingið á nú eftir til jóla að verulegur hluti af frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum verði látinn liggja þannig að eðlilegur tími gefist í fagnefndum þingsins til að skoða þá þætti miklu betur heldur en horfur eru á núna.

Þetta vil ég segja við hæstv. forseta og leggja um leið áherslu á að hlutir eins og árásir hæstv. fjmrh. á Ríkisspítalana undanfarna daga eru ekki til þess fallnir að greiða fyrir eðlilegri umræðu í þessari stofnun um heilbrigðismál á sama tíma og henni er neitað um tillögur þeirrar ríkisstjórnar sem efnir til stórfelldrar atlögu gegn stærstu heilbrigðisstofnun landsins eins og Ríkisspítölunum núna undanfarna daga undir forustu heilbrrh. Því er óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að þessi mál verði rædd nánar á vettvangi forustumanna þingflokkanna og forsætisnefndarinnar.