2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 10:51:51 (1911)

1995-12-14 10:51:51# 120. lþ. 65.91 fundur 140#B 2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[10:51]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég hlýt að gera athugasemdir við störf þingsins þegar svona er komið og taka undir kröfu þeirra þingmanna sem óska eftir og biðja um og raunar krefjast þess að 2. umr. verði frestað. Hv. formaður fjárln. sagði að meginhluti fjárlaganna væri fyrirliggjandi. Það má kannski rétt vera. Það eru um það bil 60% en ekki nema 76 millj. af heilbrigðisgeiranum sem eru 40% af fjárlögum íslenska ríkisins. Þegar fulltrúar frá heilbrrn. eru ekki einu sinni tilbúnir til að koma til fjárln. til að skýra stöðuna, þá hlýtur að vera eðlileg krafa þingsins að fresta þessari umræðu.

Til okkar í fjárlaganefnd hefur komið fjöldi fulltrúa frá heilbrigðis- og sjúkrastofnunum, bæði hér í Reykjavík og alls staðar af landinu. Vandinn sem er bara uppsafnaður vandi, herra forseti, er upp á 700 millj. að lágmarki. Óskirnar til þess að standa við lágmarkskröfur eru að mati þeirra sem hafa verið í viðtölum við fjárln. upp á 2,5--3 milljarða. Við vitum ekkert hvar við stöndum. Við erum með fjárlögin í uppnámi. Það hlýtur að verða krafa okkar að fresta þessari umræðu, herra forseti.