2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 10:53:38 (1912)

1995-12-14 10:53:38# 120. lþ. 65.91 fundur 140#B 2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[10:53]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir athugasemdir stjórnarandstöðuþingmanna varðandi vinnubrögð á hv. Alþingi. Það er ósvinna sem hér á að fara fram ef 2. umr. um fjárlög á að hefjast og það vantar útfærslu ríkisstjórnarinnar er varðar tæpan helming af útgjöldum ríkisins. Þetta gerir okkur stjórnarandstöðuþingmönnum ókleift að vinna og við höfum unnið af heilindum í þingnefndum varðandi þennan málaflokk. Þingflokkur Þjóðvaka hefur undirbúið ítarlega tillögugerð varðandi fjárlagafrv. Við munum vegna þeirra atburða sem hér eru að gerast, að fjárlagafrv. er ekki burðugra en raun ber vitni þegar það kemur til 2. umr., ekki leggja fram okkar tillögur við 2. umr. Við munum gera það við 3. umr. til að mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér virðast vera í uppsiglingu.