Tilkynning um dagskrá

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 14:03:32 (1917)

1995-12-14 14:03:32# 120. lþ. 65.92 fundur 141#B tilkynning um dagskrá#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[14:03]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti taka eftirfarandi fram:

Forseti hefur átt fundi með formönnum þingflokka, svo og með hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. Það er samkomulag um að 2. umr. fjárlaga fari nú fram samkvæmt dagskrá, en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla að lokinni 2. umr. verði kl. tvö á morgun. Forsenda fyrir þessu samkomulagi af hálfu stjórnarandstöðu eru skýringar sem hæstv. ráðherrar hafa gefið á stöðu mála varðandi sjúkrahúsin sérstaklega en lokatillögur varðandi þau eru nú til meðferðar hjá fjárln.

Forseti hefur einnig fallist á ákveðnar breytingar frá því sem áður var ætlað varðandi umræður um bandorminn svonefnda og það hafa verið ræddar hugsanlegar breytingar á því frv. í þessum hópi. Það hafa einnig verið rædd önnur mál sem berast nú frá nefndum og þarf að afgreiða fyrir þinghlé. Forseti metur þann samstarfsvilja sem aðilar hafa sýnt varðandi þingstörfin.

Gert verður hlé á fundi þingsins síðar í dag til þess að fjárln. fái tíma til þess að ræða þau mál sem þar eru enn óafgreidd. Þetta hlé verður þá væntanlega gert þegar talsmenn fjárln. og þingflokkanna hafa tjáð sig um frv. við þessa umræðu.