Tilkynning um dagskrá

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 14:05:53 (1918)

1995-12-14 14:05:53# 120. lþ. 65.92 fundur 141#B tilkynning um dagskrá#, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[14:05]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þá yfirlýsingu sem hann hefur gefið og fyrir þá viðleitni hans að reyna að stuðla að sem bestu samkomulagi um þinghaldið. Við höfum setið á fundum núna um nokkurt skeið og rætt við hæstv. ráðherra fjármála og heilbrigðismála.

Eins og hæstv. forseti gat um er niðurstaðan sú, og það er kannski aðalatriði málsins, að þær tillögur í heilbrigðismálum sem við auglýstum eftir í morgun verða væntanlega kynntar undir 2. umr. og áður en henni lýkur. Það er í raun og veru grundvallaratriði í þessu máli og ég hef litið þannig á og skildi umræðuna áðan þannig að það yrði hv. formaður fjárln. sem fjallaði um það mál eftir fund fjárln. sem hæstv. forseti gerði grein fyrir af sínum stóli áðan.

Í annan stað vil ég staðfesta það sem fram kom í máli hæstv. forseta að það yrði fjallað nánar um uppsetningu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og hvernig það yrði afgreitt núna fyrir hátíðarnar. Ég held að það sé líka rétt að bæta því við þannig að öllu sé til skila haldið að við ræddum um það að atkvæðagreiðsla um fjárlögin eftir 2. umr., ef allt fer fram sem horfir, gæti orðið upp úr hádeginu á morgun. Ég tel líka mikilvægt að nefna það í þessu samhengi, þótt ég tæki ekki eftir að forseti hafi gert það. En ég vil þá láta það koma fram af minni hálfu.

Ég vil einnig taka fram að það kom fram á fundum með hæstv. ráðherrum að það er ekki ætlunin að lögfesta róttækar breytingar á yfirstjórn sjúkrahúsanna á þéttbýlissvæðinu. Það er mjög mikilvægt atriði að það liggur núna fyrir að þinginu gefst betri tími til að fara yfir þau mál en horfur voru á um. Og ég endurtek þakkir mínar til hæstv. forseta fyrir hans viðleitni til að stuðla að góðri sátt um þinghaldið eins og áður.