Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 14:13:18 (1920)

1995-12-14 14:13:18# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[14:13]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Horfur í þjóðarbúskapnum eru nú betri en þær hafa verið um árabil. Þar fléttast saman góð skilyrði heima fyrir og hagstæð framvinda á alþjóðavettvangi. Spár um þróun efnahagsmála eru flestar á þá lund að hagvöxtur í heiminum verði viðunandi á næstu árum. Þannig spáir OECD að hagvöxtur í aðildarríkjunum verði að meðaltali 2,5% á árinu 1996 og 2,8% 1997. Að auki er útlit fyrir að verðbólgu verði haldið í skefjum, að hún verði að jafnaði um 2% og vextir virðast fremur hneigjast til lækkunar.

Þessar forsendur um þróun efnahagsmála á alþjóðavettvangi eru hagstæðar fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Í því sambandi nægir að nefna að almenn eftirspurn í iðnríkjunum eykst, þar á meðal eftir íslenskum vörum, og meiri líkur verða á meiri stórframkvæmdum á sviði orkufreks iðnaðar. Ef framhald verður á vaxtalækkunum erlendis hefur það áhrif á vexti hér á landi í sömu átt.

Flest kennileiti í íslenskum þjóðarbúskap benda til að efnahagsstarfsemin sé á traustum batavegi. Frá því að þjóðhagsáætlun var lögð fram á Alþingi í byrjun október sl. hefur ýmislegt gerst sem bætir hagvaxtarhorfur. Þar má m.a. nefna ákvörðun um stækkun álversins í Straumsvík og viðbætur við kjarasamninga og tengdar ráðstafanir.

[14:15]

Í þjóðhagsáætlun var spáð 2% hagvexti á árinu 1996 og að jafnaði 2,5% hagvexti á ári næstu árin þar á eftir. Þessar tölur eru í lægri kantinum miðað við horfur í iðnríkjunum. Með stækkun álversins og aukinni eftirspurn innan lands verður hagvöxtur hér á landi hins vegar líklega nokkru meiri en í iðnríkjunum á árinu 1996 og með frekari framkvæmdum á þessu sviði gæti hagvöxtur hér á landi á næstu árum orðið allmiklu meiri en í iðnríkjunum. Í þessu felst jafnframt að atvinnuhorfur eru betri en reiknað var með í þjóðhagsáætlun. Tölur liggja ekki enn fyrir í þessu efni, en fjárln. á von á greinargerð frá Þjóðhagsstofnun um horfurnar á næsta ári sem liggja munu fyrir að venju við 3. umr. málsins.

Þjóðhagsleg skilyrði hafa því farið batnandi að undanförnu og forsendur virðast vera fyrir því að þau verði áfram góð. Vandi fylgir hins vegar vegsemd hverri. Með batnandi skilyrðum vex hættan á því að þensla myndist. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að svo fari því þensla stefndi efnahagsstarfseminni í ógöngur sem óhjákvæmilega leiddi okkur til lakari lífskjara en nú eru í augsýn. Þess vegna er nauðsynlegt að sporna við þensluhættunni með þéttu taumhaldi í ríkisfjármálum. Það er skilvirkasta aðferðin í þessu skyni því önnur tæki til að hafa hemil á eftirspurn eru vextir og gengi og beiting slíkra tækja í ríkum mæli við svona aðstæður gæti haft slæm áhrif á mikilvægar vaxtargreinar í þjóðarbúskapnum. Það er nú einu sinni svo að stilla verður þessi þrjú tæki saman, ríkisfjármál, vexti og gengi, því eftirgjöf á einum stað kallar á mótvægi á öðrum. Enginn vafi er á því eins og nú horfir í þjóðarbúskapnum að vænlegast er að gera sem mest á sviði ríkisfjármála til að tryggja viðunandi jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það er öruggasta leiðin til að ná sem mestum árangri við þau skilyrði sem blasa við nú.

Þegar fjárlög íslenska ríkisins eru ákveðin og fjármunum deilt út til einstakra verkefna er verið að ákveða umfang ríkisrekstrarins fyrir næsta ár. Þær ákvarðanir sem teknar eru eiga að endurspegla vilja löggjafans um það efni.

Eigi fjárlögin að vera virkt stjórntæki, er mikil nauðsyn á því að verkefnin séu vel skilgreind. Sé svo ekki er mikil hætta á að þær áætlanir sem heimildir fjárlaga byggja á, séu á sandi byggðar. Því miður hefur oft verið svo og fjárlög hverju sinni hafa ekki verið það stjórntæki um opinberan rekstur sem til stóð.

Fjárln. hefur í störfum sínum leitast við að meta einstaka þætti fjárlagafrv. og þau erindi sem henni berast. Þau erindi eru undantekningarlítið óskir um hækkun framlaga eða ný verkefni og aukið umfang. Nefndin hefur reynt að meta þessar óskir eftir bestu getu og mun ég síðar í ræðu minni gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa í meðförum hennar.

Það er sígilt viðfangsefni í stjórnmálum að setja afskiptum ríkisvaldsins ramma og ákveða hlut opinbers rekstrar og opinberrar þjónustu í efnahagslífinu. Endurmat fer nú fram í þessu efni í öllum nágrannalöndum okkar. Það umrót sem orðið hefur í Evrópu á níunda og tíunda áratug þessarar aldar hefur ýtt undir og sett þetta endurmat í sérstakt ljós. Tími hinna algjöru ríkisafskipta er liðinn og þær þjóðir Austur-Evrópu sem bjuggu við slíkt fyrirkomulag eru að feta sig til annarra stjórnarhátta.

Sú aðlögun er mjög erfið fyrir fólkið í þessum löndum og veldur víða upplausn og öryggisleysi.

Stjórnmálastefnur mótast í ríkum mæli af afstöðunni til ríkisvaldsins. Margir telja að besta leiðin til farsælla lifnaðarhátta liggi í gegnum sem mest ríkisafskipti og þau tryggi öryggi og velferð. Aðrir telja að ríkið eigi að hafa sem minnst afskipti af málefnum fólksins og markaðurinn eigi lausnir við nær öllum málum. Við Íslendingar búum við þriðju leiðina. Við álítum eðlilegt að ríkisvaldið myndi öryggisnet í samfélaginu, sinni velferð fólksins í landinu, heilbrigðisþjónustu, menntun og ýmiss konar félagslegri þjónustu. Auk þess hefur ríkisvaldið stórt hlutverk í þjónustu við almenning í öryggismálum og má þar nefna rekstur útvarps og sjónvarps, rekstur Pósts og síma, öryggisþjónustu á sviði almannavarna, landhelgisgæslu og löggæslu svo eitthvað sé nefnt. Ríkið hefur lagt fjármagn til þjónustu við atvinnuvegina í nokkrum mæli hér á landi. Það hefur einnig verið fyrirferðarmikið í bankarekstri landsmanna.

Það endurmat sem nú fer fram um opinberan rekstur hlýtur að ná til okkar Íslendinga eins og annarra þjóða. Ég hygg að ekki sé um það deilt að farsælast er að sá sem ber fjárhagslega ábyrgð á stofnunum sé eins nálægur og áþreifanlegur fyrir þá sem þar vinna og unnt er. Þess vegna verður fjárhagsleg ábyrgð stjórnenda að vera vel skilgreind. Ríkissjóður er fjarlægur og ópersónulegur þótt bakgrunnur hans sé ofur einfaldur. Tekjur hans eru skattar og skyldur fólksins og gjaldþol hans er það sem innkomnar tekjur hrökkva fyrir. Vandamálið sem við Íslendingar höfum átt við að stríða mörg undanfarin ár er að greitt hefur verið meira út úr ríkissjóði en tekjur hafa innheimst fyrir. Einhverjir kunna að snúa dæminu við og segja sem svo að ekki hafi verið innheimtar tekjur fyrir þeim útgjöldum sem talið hefur verið nauðsynlegt að greiða. Afstaðan til skattheimtunnar er sígilt ágreiningsefni í stjórnmálum hér á landi sem annars staðar.

Það ber brýna nauðsyn til þess að skilgreina vel þá þjónustu sem ríkisvaldinu er falið að sinna. Það á að þjóna almannahagsmunum, vera öryggiskerfi fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Ríkið á hins vegar ekki að stunda atvinnurekstur nema það sé álitið nauðsynlegt vegna sömu hagsmuna.

Ég hygg að það sé nokkuð breið pólitísk samstaða um það í þjóðfélaginu að beita beri valdinu til að leggja á skatta af hófsemi og ekki sé mikið svigrúm í þeim efnum. Skattlagning verður að vera innan skynsamlegra marka þannig að réttlætiskennd almennings sé ekki ofboðið. Það hefur hins vegar verið ákveðið að taka upp fjármagnstekjuskatt á þeim forsendum að það sé réttlætismál að fjármagnstekjur séu skattlagðar eins og atvinnutekjur. Þá ber að herða enn róðurinn í því að ná inn álögðum gjöldum til ríkissjóðs og berjast gegn neðanjarðarhagkerfi og skattsvikum. Þetta eiga að vera forgangsverkefni í tekjuöflun ríkissjóðs.

Meiri hluti fjárln. hefur tekið ábyrgð á stjórnarstefnunni með stuðningi sínum við ríkisstjórnina og fer með ákveðnar forsendur í veganesti til vinnu við fjárlagafrv. Þær forsendur byggjast á útgjaldarömmum ráðuneyta sem aftur byggjast á þeirri ákvörðun stjórnvalda að ná ríkissjóðshallanum niður á tveimur árum án almennra skattahækkana. Þetta er verkefni sem leggur miklar skyldur á herðar stjórnarliðum og þrengir svigrúm fjárln. til að sinna þeim mörgu og þörfu verkefnum sem kynnt hafa verið fyrir nefndinni.

Veigamesta stefnubreytingin sem frv. felur í sér er sú að afnema sjálfvirkni í útgjöldum á sem flestum sviðum. Þetta er gert til þess að fjárveitingavaldið á hverjum tíma hafi á sínu færi að stýra útgjöldum og forgangsraða verkefnum. Þessi ákvörðun tekur til viðkvæmra þátta svo sem heilbrigðis- og tryggingakerfisins þar sem er innbyggð útgjaldaaukning sem m.a. má rekja til breyttrar aldursskiptingar þjóðarinnar, hátækni í lækningum og nýjungum í lyfjameðferð sem kosta afarmikla fjármuni.

Á þessu hausti hefur verið veruleg ólga á vinnumarkaði og hafa forustumenn launþega haldið því fram að jafnlaunastefnan hafi brugðist. Nokkur stór verkalýðsfélög hafa sagt upp kjarasamningum og hefur þeim uppsögnum nú verið vísað til félagsdóms.

Á vettvangi stjórnvalda hafa þessi mál verið til meðferðar og haldnir hafa verið fundir með fulltrúum ASÍ, BSRB og vinnuveitanda. Til þess að leitast við að tryggja frið á vinnumarkaði og skapa traustari skilyrði fyrir sátt í þjóðfélaginu um kjaramálin ákvað ríkisstjórnin eftirfarandi aðgerðir:

1. Atvinnuleysistryggingabætur hækki 1. janúar næstkomandi um 150 milljónir króna.

2. Bætur almannatrygginga hækki 1. janúar um 450 milljónir króna.

3. Viðbótarfrádráttur lífeyrisiðgjalds launþega frá tekjuskatti frá og með 1. júlí 1997 komi til framkvæmda 1996. Þetta þýðir 400 milljón króna viðbótarútgjöld.

Ríkisstjórnin gaf yfirlýsingar um þetta efni þann 30. nóvember sl. og þar segir að hún muni leitast við að þessar aðgerðir raski ekki þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hafi sett sér í ríkisfjármálum. Þær þýða að slakað er út einum milljarði króna af þeim sparnaðaráformum sem frv. gerði ráð fyrir. Það gefur auga leið að þessar ráðstafanir urðu til þess að finna þurfti nýjar leiðir til niðurskurðar og svigrúmið til að mæta erindum um útgjaldaaukningu varð enn þrengra en áður. Þetta leiddi m.a. til niðurskurðar á fjárfestingu í framhaldsskólum og menningarbyggingum um 100 millj. kr. og í vegagerð um 350 millj. sem nánar verður gerð grein fyrir í skýringum við brtt. við frv. síðar í ræðu minni.

Miklu veldur um afkomu ríkissjóðs hvernig staða atvinnuveganna í landinu er og það er í raun undirstaðan. Segja má að íslenskur útflutnings- og samkeppnisiðnaður búi nú við góð skilyrði. Hækkun launa í sjávarútvegi umfram áætlaða hækkun afurðaverðs á sama tíma veikir reyndar stöðu atvinnugreinarinnar, en raungengi er í sögulegu lágmarki og samkeppnisskilyrði útflutnings- og samkeppnisiðnaðar eru því góð. Lágt raungengi hefur skapað sóknarfæri fyrir óhefðbundnar útflutningsgreinar á erlenda markaði. Spáð er að útflutningsframleiðsla af þessu tagi aukist um 9,5% í ár. Það eru viss þáttaskil nú að spá um vöxt útflutningsframleiðslu um 1,2% sem á þessu ári byggist nær eingöngu á vexti þeirra útflutningsgreina, þar sem byggt er á háþróaðri tækni, hugviti og þekkingu. Útflutningur á íslenskri verkkunnáttu er orðinn að veruleika og farinn að skipta máli í íslensku atvinnulífi. Framsækin fyrirtæki í sjávarútvegi hafa verið þar í fararbroddi

Forsendur fjárlagafrv. byggja á því að afli á fjarlægum miðum verði svipaður og á síðasta ári. Sömuleiðis bolfiskafli á heimamiðum. Reiknað er með 965 þús. tonna loðnuafla, en aflaheimildir hafa nýlega verið auknar í loðnu upp í 1.100.000 tonn. Síldarafli í forsendum fjárlaga er 170 þús. tonn. Stækkun álvers var ekki reiknuð inn í forsendur fjárlaga í haust eins og áður hefur fram komið.

Við þessi skilyrði er tækifæri til að ná árangri í ríkisfjármálum og frá sjónarmiði efnahagsmála er eðlilegt að ríkið stilli útgjöldum í hóf þegar betur horfir í atvinnuvegunum. Langvarandi hallarekstur ríkis og sveitarfélaga leiðir til aukinnar samkeppni um fjármagn, en íslenskur fjármagnsmarkaður er smár og þjóðhagslegur sparnaður minni en í samkeppnislöndunum. Það er besta aðgerðin fyrir einstaklinga og atvinnufyrirtækin í landinu að stýra málum þannig að vextir lækki. Jafnvægi í ríkisfjármálum er áhrifamikil leið að því markmiði. Náist það markmið að fjárlög verði hallalaus 1997 og afkoman verði orðin jákvæð 1999, er það talið þýða raunvaxtalækkun allt að 1,5% og aukinn hagvöxt um allt að 1%. Nú, þegar horfur eru góðar, er tækifæri til þess að ná þessum markmiðum. Ef það næst ekki þegar ytri aðstæður eru jákvæðar er borin von að það gerist þegar verr árar. Til þess að ná árangri þarf tvennt: Að koma í veg fyrir að útgjöld fari úr böndum og stöðva hinn kerfislæga halla og innheimta þær tekjur sem ríkið á rétt á samkvæmt ákvörðunum löggjafans um skattheimtu og berjast gegn skattsvikum.

Bætt aðstaða og sóknarfæri atvinnufyrirtækjanna í landinu eru traustasta undirstaðan undir atvinnusköpuninni. Markmiðið um að skapa ný störf og halda uppi lífskjörum í landinu næst ekki nema að grundvöllur þeirra sé traustur.

[14:30]

Þegar farið var yfir forsendur ríkisfjármála á síðastliðnu vori var leitast við að gera áætlun um þróun þeirra mála næstu árin. Almennt talað er það mikil nauðsyn að leggja fram svo sem kostur er áætlanir um þróunina fyrir lengri tíma. Í fjármálaráðuneytinu, Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka, svo nefndar séu þrjár lykilstofnanir, liggja fyrir æ meiri upplýsingar til grundvallar slíkri vinnu, svo og þeim stofnunum sem útdeila opinberu fé.

Eins og fram kemur í athugasemdum fjárlagafrumvarpsins hefur mikill halli á fjárlögum verið í brennidepli efnahagsumræðunnar á alþjóðavettvangi undanfarin ár, ekki síst sá halli sem rekja má til áhrifa gildandi laga og reglugerða, en er óháður almennri efnahagsþróun. Þarna kemur að hinum stóru spurningum um velferðarkerfið, hvernig það verði varðveitt til frambúðar. Sú stefnumarkandi ákvörðun hefur verið tekin nú að með frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er til meðferðar í efh.- og viðskn. þessa dagana, eru ákvæði um að fjárframlög til ýmissa verkefna sem hafa verið háð mörkuðum tekjustofnum séu framvegis ákveðið framlag á fjárlögum. Undanfarin ár hefur þessu markmiði verið náð með skerðingarákvæðum sem samþykkt hafa verið til árs í senn. Sömuleiðis hefur verið tekin sú ákvörðun að upphæð bóta frá ríkinu sé ákveðin í fjárlögum hverju sinni, en ekki tengd almennum launahækkunum.

Þessar breytingar leggja fjárveitingavaldinu miklar skyldur á herðar og kallar á endurmat vinnubragða og endurskoðun á bótakerfinu í heild. Þótt alltaf hafi verið svo að fjárveitingavaldið sé í höndum Alþingis, hafa upphæðir bóta í þjóðfélaginu verið tengdar samningum á almennum vinnumarkaði. Þegar Alþingi tekur nú til sín þetta vald að fullu er brýn nauðsyn á því að fram fari umræða um skipulag og markmið bótakerfisins og hvernig bætur megi tryggja þeim lífsgrundvöll sem þurfa á þeim að halda.

Þegar litið er til lengri tíma og þróun ríkisfjármála skoðuð blasir við að ef ekkert væri að gert og ekki spyrnt við fótum, þá aukast ríkisútgjöld hröðum skrefum næstu árin með tilheyrandi skuldasöfnun opinberra aðila. Ljóst er að eftir fjögur ár væru þær skuldir komnar yfir hættumörk og gætu rýrt lánstraust þjóðarinnar. Vaxtagreiðslur yrðu um 18 milljarðar króna eða viðlíka upphæð og menntakerfið kostar í dag. Vextir eru nú þegar orðnir um 13 milljarðar króna, eða álíka upphæð og allur stofnkostnaður í opinberum framkvæmdum og hjá ríkisstofnunum.

Það er alveg ljóst að ef slík þróun fær að halda áfram án þess að nokkuð sé að gert, mun ekki takast að varðveita velferðarkerfið til frambúðar. Lífskjör munu versna, skuldaklyfjar eru lagðar á herðar næstu kynslóða. Hætt er við að í slíku umróti mundi það velferðarþjóðfélag sem samstaða er um að hafa hér á landi bresta.

Þótt skiptar skoðanir séu um hve mikið og hvernig notendur eiga að greiða fyrir þjónustu í mennta- og heilbrigðiskerfinu hér á landi, má rekja um 70 milljarða af 125 milljarða króna útgjöldum ríkissjóðs til þessara þátta og um 9 milljarða króna til útgjalda í félagsmálaráðuneyti. Ekki verður hjá því komist þegar leitað er leiða til lækkunar útgjalda að líta á þessa þætti.

Þótt áfanga séð náð í afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1996 með afgreiðslu málsins við 2. umr. er sú þriðja eftir. Auk umfjöllunar um tekjuhlið, heimildir á 6. grein og B-hluta stofnanir bíða 3. umr. ákvarðanir um útgjaldaramma sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Þau erindi sem bárust til fjárlaganefndar voru um verulegan útgjaldaauka og var óhjákvæmilegt að fara ofan í saumana á þeim. Einkum er vandi Ríkisspítala og annarra sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu mikill. Unnið er að tillögugerð í þessum málum eins og fram hefur komið hér fyrr í dag undir umræðum um störf þingsins.

Vegna mikillar útgjaldaþarfar í rekstri heilbrigðisstofnana var sú ákvörðun tekin að stöðva allar framkvæmdir við byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva nema þar sem verksamningar voru í gangi og borga skuldir vegna þegar unninna verka. Þrátt fyrir þetta er lagt til að heildarframlag til þessara mála hækki um 48,8 milljónir króna frá frumvarpinu og er gerð nánari grein fyrir því máli í skýringum við brtt. við frv. Endurráðstafað er 20 milljónum króna af óhöfnum fjárveitingum til hjúkrunarheimilis á Fáskrúðsfirði og byggingar D-álmu í Keflavík og hefur verið unnið að því að endursemja um þau mál bæði.

Herra forseti. Störf fjárln. við afgreiðslu frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 26. september sl. og átti viðtal við fulltrúa sveitarfélaga í landinu sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Samstarf fjárlaganefndarmanna og sveitarstjórnarmanna hefur nú sem áður verið gott og sú yfirsýn, sem fundir nefndarinnar með sveitarstjórnarmönnum gefa, er mikilvæg fyrir nefndina við afgreiðslu fjárlaga. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárln. vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrv. sem fjalla um málefnasvið þeirra. Nefndin óskaði með bréfi, dags. 14. október sl., eftir áliti fastanefnda þingsins um frv. til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað áliti og fylgja þau nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Þetta er fimmta árið sem þessi skipan er höfð á um samskipti fastanefnda þingsins við fjárln. um afgreiðslu fjárlagafrv. Formenn fastanefnda og talsmenn fyrir minnihlutaálitum komu til viðræðu við fjárln. og lögðu fram álit nefndanna.

Nefndinni hafa borist fjölmargar ábendingar og erindi er varða afgreiðslu vegáætlunar og flugmálaáætlunar. Þau erindi verða send samgn. til umfjöllunar.

Eftir að frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram á Alþingi eru fjölmargir aðilar, félög, samtök og stofnanir, sem telja sig eiga erindi við fjárln. og kallar þá nefndin fyrir sig forsvarsmenn ýmissa stofnana til viðræðna um starfsemi þeirra og fjárframlög.

Frá því nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 36 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Auk þess hafa undirnefndir unnið að afgreiðslu einstakra málaflokka.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu allra fjárfestingarliða. Brtt. þær, sem eru til umfjöllunar við 2. umr., nema samtals 187,2 millj. kr. til hækkunar á 4. gr. frumvarpsins.

Hér á eftir fylgja skýringar á brtt. meiri hluta nefndarinnar.

1. brtt. fjallar um embætti forseta Íslands. Forseti Íslands hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í embætti á komandi ári. Af þeim ástæðum þarf að hækka framlag til embættis forseta Íslands um 2,4 millj. kr. vegna biðlauna forsetans. En skv. 4. gr. laga nr. 10/1990, um laun forseta Íslands, ber að greiða forseta biðlaun.

2. brtt. fjallar um Alþingi. Framlag til Alþingis hækkar um 16,8 millj. kr. vegna rekstrar og er gerð grein fyrir hvernig sú hækkun skiptist í nefndarálitinu.

Umboðsmaður Alþingis. Lagt er til að heimila umboðsmanni Alþingis að ráða einn lögfræðing til viðbótar vegna vaxandi álags á embættið. Að auki er gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna námsleyfa og fleiri þátta en alls er lagt til að fjárveiting til embættisins hækki um 4,9 millj. kr.

Þessar þrjár brtt. varða æðstu stjórn ríkisins.

Þá kemur að forsrn. Þar eru í fyrsta lagi Ýmis verkefni, Hrafnseyri. Meiri hluti fjárln. leggur til að fjárveiting til Hrafnseyrarnefndar verði hækkuð um 1,5 millj. kr. Framlagið er ætlað sem styrkur til byggingar torfbæjar á Hrafnseyri við Arnarfjörð sem er talin sömu gerðar og bærinn sem Jón Sigurðsson fæddist í 17. júní árið 1811.

Undir menntmrn. eru nokkarar brtt. Sú fyrsta fjallar um Kennaraháskóla Íslands. Lagt er til að fjárveiting til kennslu hjá Kennaraháskóla Íslands hækki um 2 millj. kr. vegna fjarnáms í sérkennslufræðum.

Haustið 1991 hóf hópur fólks fjarnám í sérkennslufræðum við skólann. Auglýst hafði verið 60 eininga nám sem skiptist í tvo 30 eininga áfanga. Skömmu fyrir lok fyrri hluta námsins 1993 urðu þær breytingar að Kennaraháskólinn hóf að bjóða nám til meistaragráðu, m.a. í sérkennslufræðum og féll þá fjarnámið niður. Mikil ásókn hefur verið í nám til meistaragráðu í sérkennslufræðum og hafa inntökuskilyrði mótast af því námi sem nemendur hafa að baki. Þannig hafa þeir nemendur sem höfðu einungis lokið fyrsta áfanga í fjarnáminu ekki komist að. Fjárveitingin sem hér er lögð til er ætluð til að gera þessum nemendum kleift að ljúka sínu námi í sérkennslufræðum í fjarnámi.

Háskóla- og rannsóknastarfsemi, Nýsköpunarsjóður. Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna verði hækkað um 5 millj. kr. en sjóði þessum var komið á fót af menntmrh. árið 1993. Markmið sjóðsins er að auka nýsköpun á sviði fræða og vísinda og í því skyni eru ráðnir á vegum sjóðsins námsmenn á háskólastigi til að vinna að afmörkuðum verkefnum undir stjórn umsjónamanns. Sjóðurinn hefur sannað sig á undanförnum árum og til eru fjölmörg dæmi um árangursríkt samstarf sjóðsins við fyrirtæki, ekki síst smáfyrirtæki.

Þá er komið að almennum framhaldsskólum, viðhald og stofnkostnaður. Eins og áður kom fram í ræðu minni er lagður til niðurskurður á stofnkostnaði en í menntmrn. var gert ráð fyrir að lækka stofnkostnað um 100 millj. kr. Af þeirri fjárhæð eru 15 millj. kr. teknar af þessum lið og er því til ráðstöfunar til viðhalds og byggingarframkvæmda alls 711 millj. kr. Sundurliðun er að venju sýnd í breytingartillöguskjali meiri hlutans.

Vélskóli Íslands og Iðnskólinn í Reykjavík. Lagt er til að veita 3 millj. í viðbótarfjármagn til hvors skóla í tækjakaupafé. En tækjakaup og endurnýjun tækja vega þungt hjá verkmenntaskólunum. Fjárveiting til tækja- og búnaðarkaupa hefur verið færð sem eignakaup í rekstri í fjárlagafrv. en hér er gert ráð fyrir að þetta verði fært sem sérliður á fjárlagalið skólanna.

Lánasjóður íslenskra námsmanna. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands athugun á fjárhagsstöðu sjóðsins og að meta hversu hátt hlutfall af veittum lánum framlag þurfti að vera af hálfu ríkisins til að varðveita eiginfjárstöðu lánasjóðsins. Niðurstaða Hagfræðistofnunar er sú að fjárframlag ríkisins þurfi að vera 52% af veittum lánum og hefur Ríkisendurskoðun sannreynt þá útreikninga. Framlag í fjárlagafrv. miðast við 51% af veittum lánum. Lagt er til að framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði hækkað um 50 millj. kr. vegna þessa og vegna leiðréttinga á verðlagsútreikningum. Þetta leiðir til breytinga á sjóðnum í B-hluta en að venju eru brtt. við B-hluta fluttar við 3. umr.

[14:45]

Þjóðminjasafn Íslands. Lagt er til að framlag til almenns rekstrar safnsins verði hækkað um 5 millj. kr. vegna tölvumála. Brýnt er að endurskipuleggja á næsta ári tölvukerfi Þjóðminjasafns sem er ófullnægjandi fyrir rannsóknastofnun. Krefst það bæði endurnýjunar á tölvukosti, svo og tengibúnaðar sem ekki er fyrir hendi nú. Örvagreining í tölvumálum er að hefjast og er unnin af sérfræðingum Háskóla Íslands. Einnig er lögð til 1,5 millj. kr. hækkun til byggða og minjasafna sem er sérstaklega ætlað nýjum verkefnum í minjasöfnum og til launa minjavarða.

Þjóðskjalasafn Íslands. Lagt er til að framlag til héraðsskjalasafna hækki um 1 millj. kr., verði 4 millj. kr. Söfnum af þessum toga hefur verið komið á fót víða um land og myndarlega staðið að uppbyggingu þeirra. Héraðsskjalasöfn gegna mikilvægu hlutverki í varðveislu skjala og fjárln. telur ástæðu til að efla þau enn frekar.

Blindrabókasafn Íslands. Fjárþörf safnsins hefur aukist verulega á undanförnum árum, m.a. vegna aukinnar námsmannaþjónustu. Eignakaup eru einnig mjög nauðsynleg í blindrabókasöfnum því að starfsemi þeirra er afar tæknivædd. Þar er byggt á hljóðtækni og almennri tölvutækni og er þróunin hröð á þessum sviðum. Meiri hluti fjárln. gerir nú tillögu um að hækka fjárveitingu til safnsins um 2 millj. kr. Þar af er 1 millj. kr. ætluð til almenns rekstrar safnsins og 1 millj. kr. til eignakaupa.

Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Eins og áður var sagt er gert ráð fyrir að lækka stofnkostnað menntmrn. um 100 millj. kr. og eru 85 millj. kr. teknar af þessum lið. Með þeirri breytingu verður heildarfjárveiting 330 millj. kr. og er það sama fjárhæð og veitt var til framkvæmda sem falla undir þennan lið í fjárlögum þessa árs. Sundurliðun er sýnd í breytingartillöguskjali meiri hlutans.

Þá er komið að Sinfóníuhljómsveit Íslands, en fyrirhugað er að hljómsveitin fari til Bandaríkjanna í lok febrúar á næsta ári og leiki þar á ýmsum stöðum, m.a. í Carnegie Hall í New York og er það mikill áfangi í sögu hljómsveitarinnar. Kostnaður við ferðina er áætlaður um 22 millj. kr. og á móti gera forsvarsmenn hljómsveitarinnar ráð fyrir að afla um 14 millj. kr. tekna. Hljómsveitin hefur óskað eftir styrk um 3 millj. kr. vegna þessarar ferðar og leggur meiri hluti fjárln. til að orðið verði við þeirri bón.

Húsafriðunarsjóður. Framlag til húsafriðunarsjóðs í fjárlagafrv. er 10,5 millj. kr. og er óbreytt frá fjárlögum 1995 og reyndar einnig frá fjárlögum ársins 1994. Að auki hefur kostnaður við húsafriðunarnefnd verið greiddur úr húsafriðunarsjóði undanfarin ár og hefur því hlutfallslega minna verið til úthlutunarstyrkja. Styrkur úr húsafriðunarsjóði er stuðningur við þá sem taka að sér varðveislu og viðhald gamalla húsa en eigendur leggja fram mun meira fé en sem nemur styrkjunum. Áhugi á varðveislu gamalla húsa hefur aukist verulega, bæði meðal almennings og sveitarstjórna og leggur meiri hluti fjárln. til að framlag til sjóðsins verði hækkað um 5 millj. kr.

Listskreytingasjóður. Lagt er til að framlag til sjóðsins verði hækkað um 4 millj. kr. og verði 8 millj. kr. Í greinargerð með frv. til fjárlaga 1995 var greint frá því að til stæði að endurskoða lögin um sjóðinn. Nefnd sem var falið að endurskoða lögin hefur skilað áliti, en verið er að fara yfir tillögur nefndarinnar í ljósi umsagna sem borist hafa. Meðan ekki liggur fyrir niðurstaða um málefni sjóðsins er það álit meiri hluta fjárln. að það beri að hækka framlag til sjóðsins svo hann geti fremur staðið við skuldbindingar sínar.

Þá er komið að brtt. um æskulýðsmál, Æskulýðsráð ríkisins. Lagt er til að framlag til Æskulýðsráðs ríkisins verði hækkað um 0,5 millj. kr. til að standa undir hluta kostnaðar við alhliða upplýsingahandbók fyrir ungt fólk. Í bókinni verða margs konar hagnýtar upplýsingar sem ætlaðar eru ungu fólki, þar sem m.a. verði fjallað um land og þjóð, ferðamál, nám og skóla, atvinnumál og réttindi og skyldur. Gert er ráð fyrir að dreifa bókinni til allra nemenda í 10. bekk grunnskóla og til nemenda í tveimur árgöngum í framhaldsskóla.

Ýmis íþróttamál. Undir þennan lið falla fjórar breytingartillögur og skýra þær sig sjálfar. Þó vil ég taka fram varðandi Skáksamband Íslands að veittur var sérstakur byggingarstyrkur að fjárhæð 5 millj. kr. til sambandsins og var hann greiddur í þremur hlutum. Með framlagi nú er gert ráð fyrir að stuðningi ríkissjóðs við uppbyggingu á húsnæði sambandsins að Faxafeni 12 sé lokið.

Þá er komið að utanrrn. og hér er brtt. um fjárlagaliðinn sem ber nafnið Ýmis verkefni``. Lagðar eru til nokkrar breytingar í utanrrn. en um er að ræða millifærslur sem eru gerðar að ósk ráðuneytisins. Heildarbreyting á fjárframlagi til ráðuneytisins er engin. Í ljós hefur komið að í fjárlagafrv. er framlag vegna aðstoðar Íslands á svæðum Palestínumanna í Ísrael hærra en loforð íslenskra stjórnvalda kváðu á um. Því er lagt til að lækka þá fjárveitingu um 5,4 millj. kr. og hækka aðra liði á móti. Í fyrsta lagi er framlag til tækja og búnaðarkaupa á aðalskrifstofu ráðuneytisins hækkað um 1,4 millj. kr. Í öðru lagi hækkar fjárveiting vegna samskipta við Vestur-Íslendinga um 1,5 millj. kr. Að lokum er tekinn inn nýr liður sem er hjálparstarf fyrir konur í þróunarlöndum, UNIFEM. Framlag til þessa verkefnis er 2,5 millj. kr.

Þá kemur að landbrn., Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Lagt er til að framlag til RALA hækki um 1,5 millj. kr. til Stóra-Ármóts vegna skuldbindinga um stofnkostnað.

Þá eru tillögur sem varða embætti yfirdýralæknis og liðinn Greiðslur vegna riðuveiki. Meiri hluti fjárln. leggur til að veittar verði 3,2 millj. kr. til yfirdýralæknis til að rannsaka útbreiðslu salmónellu í sauðfé, en á móti verði greiðslur vegna riðuveiki lækkaðar um sömu fjárhæð. Salmónellusýklar fundust í sviðahausum fyrst árið 1989 og svo nokkrum sinnum eftir það. Öll þessi tilfelli hafa verið staðfest eftir að grunur kom upp um að neysla sviða eða sviðasultu væri völd að matareitrun í fólki. Að öðru leyti hefur ekki verið gerð skipulögð könnun á útbreiðslu salmónellu í sauðfé, en talið er afar brýnt að fram fari skimun á útbreiðslunni m.a. vegna þess að þetta er afurð sem er upprunnin úr hinu hreina lífríki Íslands en ekki af búfé sem er fóðrað á fóðurbæti. Án slíkrar rannsóknar er ekki hægt að koma með raunhæfa tillögu um hvernig hægt verði að koma í veg fyrir að sauðfé og annað búfé sem gengur frjálst um landið á beit mengist af salmónellusýklum. Gert er ráð fyrir að fjárveitingin fari til að taka sýni úr um það bil 2% af öllu vetrarfóðruðu fé og sambærileg sýnataka úr lömbum þegar þau komu í sláturhús næsta haust. Að því loknu verður könnuð aðstaða á þeim sauðfjárbúum þar sem salmónella verður staðfest. Auk þessa mun yfirdýralæknir leggja fram áætlun um hert heilbrigðiseftirlit í sláturhúsum með tilliti til þessara nýju aðstæðna.

Þá er tillaga um Bændaskólann á Hvanneyri. Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka framlag til tækja og búnaðar skólans um 2 millj. kr. og er hækkunin ætluð til uppsetningar á lyftu í heimavistarhúsnæði skólans. Búnaður þessi er nauðsynlegur til að auka nýtingu húsnæðisins og til að bæta aðgengi fatlaðra.

Garðyrkjuskóli ríkisins. Tilraunagróðurhús við garðyrkjuskólann mun gerbreyta allri aðstöðu vegna tilraunakennslu og er af hálfu skólans og garðyrkjustéttarinnar lögð mjög mikil áhersla á byggingu þess. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 4 millj. kr. fjárveitingu til þessa, en meiri hlutinn leggur til að fjárveitingin verði hækkuð í 8 millj. kr. til að verklok hússins dragist ekki um of.

Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu. Þann 15. október sl. var undirritaður samningur um breytingu á búvörusamningi frá árinu 1991. Þessi samningur sem gildir til ársins 2000 hefur að geyma stuðning við greiðslur úr ríkissjóði til að aðlaga búvöruframleiðsluna að breyttum aðstæðum á samningstímanum, samtals að fjárhæð 986 millj. kr. Samningurinn gerir ráð fyrir að á árinu 1996 greiði ríkissjóður 188 millj. kr. af þeirri fjárhæð. Þar af fari 125 millj. kr. til uppkaupa á fullvirðisrétti og 63 millj. kr. til afsetningar birgða. Auk þess gerir samningurinn ráð fyrir að beingreiðslur til bænda á árinu 1996 verði 1.480 millj. eða 60 millj. kr. hærri en er í fjárlagafrv. 1996. Á móti þessum hækkunum lækka niðurgreiðslur á ull og gærum um 20 millj. kr. og vaxta- og geymslukostnaður um 11 millj. kr. Meiri hluti fjárln. leggur því til að greiðslur til sauðfjárframleiðslu hækki samtals um 217 millj. kr. og verða þær 2.727 millj. kr.

Þá er komið að sjútvrn., liðnum Ýmis verkefni. Tillaga meiri hluta fjárln. varðandi þennan lið er tvíþætt. Annars vegar er lagt til að framlag til sjóvinnukennslu verði hækkað um 3,5 millj. kr. en fyrirhugað er að leigja bát af Karel Karelssyni með allri áhöfn svo að starf það sem hann hefur hafið með unglinga geti komist í viðunandi horf. Jafnframt er gert ráð fyrir að báturinn verði notaður til ferða með börn í sjóvinnukennslunni en slíkar ferðir hafa ekki verið farnar eftir að Mímir fórst við Hornafjörð fyrir nokkrum árum. Hins vegar er lagður til 2 millj. kr. styrkur til tæknideildar Fiskifélagsins vegna rekstrar og tækjakaupa.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Ýmis verkefni: Mannréttindaskrifstofa Íslands. Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í mars á sl. ári og hefur verið rekin fyrir stofnframlag aðildarfélaganna. Skrifstofan hefur einnig fengið styrk úr ríkissjóði en hér er lagt til 3 millj. kr. framlag til skrifstofunnar sem verði fært á sérlið.

Í öðru lagi dómsmál, ýmis kostnaður. Lögfræðiþjónusta, neyðarmóttöku. Lagt er til að framlag til lögfræðiþjónustu neyðarmóttöku vegna nauðgana, sem er á Borgarspítala, hækki um 1 millj. kr. og verði 3,3 millj. kr. Þetta er mat neyðarmóttökunnar á árlegri fjárþörf eftir 16 mánaða reynslutíma en kostnaðurinn er alfarið vegna starfa lögmanna. Meiri hluti fjárln. fyrirhugar að flytja brtt. við 3. umr. fjáraukalaga þannig að framlag á þessu ári verður sambærilegt við þá heildarfjárveitingu sem hér er lögð til.

Þá kemur að Almannavörnum ríkisins, en lögð er til hækkun fjárveitinga til almannavarna vegna flutnings stofnunarinnar frá Laugavegi 118 að Seljavegi 32. Að mati stofnunarinnar mun beinn kostnaður við flutninginn nema um 6,2 millj. kr., m.a. vegna þess að kaupa þarf hlut Geislavarna í tækjum sem nú eru í sameign þessara stofnana. Meiri hluti fjárln. leggur því til að framlag til stofnunarinnar hækki um 3,5 millj. kr. vegna þessa.

[15:00]

Næsta tillaga fjallar um embætti sýslumannsins á Ísafirði. Lagt er til að sértekjur sýslumannsins á Ísafirði eða embættis hans vegna löggæslu verði lækkaðar um 2,6 millj. kr. þar sem embættið getur ekki lengur innheimt sértekjur vegna vakta á almennum dansleikjum. Á móti verði ýmis rekstrarkostnaður sýslumanna lækkaður um sömu fjárhæð. Þessi tilfærsla er gerð að ósk dómsmrn.

Þá er næsta brtt. sem varðar húsnæði og búnað sýslumanna, en það er sýslumannsembættið í Norður-Múlasýslu sem hún fjallar um. Í frv. til fjárlaga eru 15 millj. kr. ætlaðar til húsnæðis sýslumannsins í Norður-Múlasýslu og kemur fram í greinargerð með frv. að fjárveitingin er ætluð til að ljúka við byggingu lögreglustöðvar á Vopnafirði á næsta ári. Meiri hluti fjárln. leggur til að fjárveiting til embættis sýslumannsins á Seyðisfirði eða sýslumannsins í Norður-Múlasýslu verði hækkuð um 2 millj. kr. til að sinna viðhaldi á skrifstofuhúsnæði þess að Bjólfsgötu 7. Hús þetta er byggt rétt eftir aldamót og hefur bæði sögulegt og listrænt gildi.

Til embættis biskups Íslands er lögð til 4,8 millj. kr. hækkun og er tillagan af þrennum toga. Fyrsta tillagan varðar kirkjumiðstöð Austurlands, en fjárveiting til hennar var lækkuð verulega í fjárlagafrv. miðað við fjárlög þessa árs. Hækkunartillaga meiri hluta fjárln. miðar að því að fjárveiting til kirkjumiðstöðvarinnar taki mið af þeirri starfsemi sem þar fer fram.

Í öðru lagi er tekinn inn nýr liður sem varðar starfsemi á Löngumýri í Skagafirði, en þar er starfrækt félags- og fræðslumiðstöð innan þjóðkirkjunnar. Lagt er til að framlag verði 1,5 millj. kr.

Í þriðja lagi er hækkað framlag til að bæta við stöðu aðtsoðarprests. Í erindi biskups var óskað eftir fleiri en einni stöðu, en tillaga fjárln. miðar að því að biskup ráðstafi aðstoðarprestsstöðunni eftir því sem hann telur brýnast að bæta úr.

Þá er komið að félmrn. og breytingartillögum sem um málefni þess fjalla. Þar eru í fyrsta lagi málefni fatlaðra á Reykjanesi. Lagt er til að málefni fatlaðra á Reykjanesi hækki um 1 millj. kr.vegna vistheimilisins að Einibergi 29 í Hafnarfirði. Þar búa mikið fatlaðir vistmenn sem þarfnast mikillar umönnunar. Undanfarin ár hefur heimilinu verið lokað fjórðu hverja helgi og hefur þetta fyrirkomulag reynst aðstandendum erfitt og í raun ófullnægjandi miðað við aðstæður. Með framlaginu er talið að þjónustan verði viðunandi.

Málefni fatlaðra á Vesturlandi. Meiri hluti fjárln. leggur til 6 millj. kr. hækkun til málefna fatlaðra á Vesturlandi. Hækkunin skiptist þannig að 1 millj. kr. er ætluð til að kosta stöðu þroskaþjálfa í Dalasýslu, 2 millj. kr. til skammtímavistunar á Snæfellsnesi og 3 millj. kr. til skammtímavistunar á Akranesi. Fram hefur komið að framlög til málefna fatlaðra á Vesturlandi eru lág miðað við aðra landshluta og þarna er leitast við að bæta úr brýnustu þörfinni, en fötluðum hefur fjölgað mikið á þessu svæði.

Bjargráðasjóður. Meiri hluti fjárln. leggur til að veittar verði 30 millj. kr. framlag til Bjargráðasjóðs. Fyrir liggur að á árinu hefur orðið mikið tjón á túnum og mannvirkjum af völdum snjóþunga og aurskriða sem ekki er hægt að tryggja fyrir. Þá hafa orðið miklar kalskemmdir í túnum. Bjargráðasjóður hefur bótaskyldu vegna umræddra tjóna en fyrir er séð að hann getur ekki staðið undir bótagreiðslum til tjónþola nema til sjóðsins komi framlag úr ríkissjóði. Bjargráðasjóður er í B-hluta fjárlaga en að venju verða brtt. við B-hluta fjárlaga fluttar við 3. umr.

Vinnumál. Lagt er til að ýmis framlög sem varða vinnumál verði lækkuð um 10 millj. kr. til að mæta þörf fyrir hækkunum á fjárveitingum til málefna fatlaðra.

Félagsmál og ýmis starfsemi. Eins og fram kemur í nefndaráliti er 4 millj. kr. hækkun á þessum lið ætluð til málefna fatlaðra. Sumardvöl nemenda Öskjuhlíðarskóla var fram til ársins 1993 greidd af menntmrn. en fjárveitingin var felld niður í fjárlögum ársins 1994. Foreldra- og kennarafélagið hefur frá árinu 1994 leitað til félmrn. um styrk til þessarar starfsemi og hefur ráðuneytið í tvígang veitt slíka styrki. Það telur sig hins vegar ekki getað mætt þessu núna innan síns fjárlagaramma. Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag verði hækkað um 4 millj. kr., m.a. vegna sumardvalar Öskjuhlíðarskólanemenda.

Heilbr.- og trn. Sjúkrahús og læknisbústaðir og Framkvæmdasjóður aldraðra. Lagt er til að heildarframlag til byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbúðstaða verði 76 millj. kr. og hækki um 48,8 millj. kr. frá því sem er í fjárlagafrv. Gert er ráð fyrir því að fjármagna hækunina með því að lækka framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra um 20 millj. kr. og kemur sú tillaga fram á sérstöku þingskjali. Að auki verður lögð til breyting við 3. umr. fjáraukalaga um lækkun á fjárframlögum til þriggja framkvæmda á þessu ári, en þær eru heilsugæslustöð í Reykjavík, Sjúkrahús Suðurnesja og Hjúkrunarheimilið á Fáskrúðsfirði. Verður hver framkvæmd lækkuð um 10 millj. kr. eða samtals um 30 millj. kr.

Fjmrn. Þar eru fyrst launa- og verðlagsmál en liður þessi hækkar um 100 millj. kr. vegna launabóta sem eru uppreiknaðir kjarasamningar og launabætur sem falla til á næsta ári. Þá eru ýmsar endurgreiðsur. Það er lagt til að framlag til ýmissa endurgreiðslna verði hækkað um 5 millj. kr. og er fjárveitingin sérstaklega ætluð til endurgreiðslna vegna kaupa á björgunartækjum.

Þá er komið að samgrn. Þar eru ýmis verkefni undir liðnum Ýmis verkefni, en tillögur sem varða þennan lið í fjárlögum eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að framlag til vetrarsamgangna og vöruflutninga hækki um 2 millj. kr. og er sundurliðun þessarar fjárhæðar sýnd í brtt. meiri hluta fjárln. Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til 2 millj. kr. hækkun á framlagi til Landsbjargar en þeirri fjárhæð er ætlað að renna óskiptri til kaupa á björgunarbátnum Þór. Að lokum er lagt til að taka inn nýjan lið, heilsárshótel á landsbyggðinni. Fyrr á þessu ári skipaði samgrh. nefnd til að gera tillögur um ráðstöfun á 20 millj kr. sem Alþingi ákvað að veita til hótela á landsbyggðinni sem eru opin allt árið. Meginhlutinn, eða 16 millj. kr., fer samkvæmt tillögu nefndarinnar til markaðsátaks hjá þeim hótelum sem helst uppfylla þau skilyrði að mati nefndarinnar að kallast heilsárshótel á landsbyggðinni. Það sem þá er eftir fer til samtaka hótela sem standa sameiginlega að markaðsátaki. Meiri hluti fjárln. leggur hins vegar til að veittar verði 15 millj. kr. til heilsárshótela á næsta ári og fjárveitingin verði notuð til markaðsaðgerða samkvæmt tillögum framangreindrar nefndar.

Þá er komið að Vegagerðinni. Lagt er til að fjárveiting til Vegagerðarinnar lækki alls um 250 millj. kr. Framlag til framkvæmdaátaks vegna atvinnumála er lækkað um 350 millj. kr. og verður 650 millj. á árinu 1996. Ástæða þessarar lækkunar er af tvennum toga. Annars vegar til að mæta hækkunum á elli- og örorkulífeyri ásamt tekjutryggingu og atvinnuleysisbótum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til launanefndar aðila vinnumarkaðarins í lok nóvember sl. Hins vegar er mikilvægt að draga enn frekar úr fjárfestingu ríkisins á sama tíma og fyrirsjáanlegt er að fjárfesting annarra aðila eykst verulega. Á móti þessari lækkun kemur um 100 millj. kr. hækkun til annarra framkvæmda Vegagerðarinnar, en talið er að markaðar tekjur til vegamála verði hærri sem þessu nemur en gert verður ráð fyrir í frv. til fjárlaga. Jafnframt er lögð til nokkur breyting á framsetningu í fjárlögum og er þessi breyting gerð að ósk Vegagerðarinnar.

Vita- og hafnamálastofnun. Með tillögum meiri hluta fjárln. verður ekki breyting á heildarfjárveitingu til Vita- og hafnamálastofnunar, en nokkuð er um millifærslur milli liða sem eru sýndar í breytingartillögum og nefndaráliti. Undir liðinn 6.70, hafnarmannvirki, falla framlög ríkissjóðs til nýframkvæmda í höfnum í eigu sveitarfélaga og eru þar 567 millj. kr. til skiptanna.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Vita- og hafnamálastofnunar er gert ráð fyrir að skuld ríkissjóðs við hafnarsjóði landsins vegna framkvæmda sem þegar er lokið muni nema um 735 millj. kr. um áramótin 1995--1996. Tillaga um skiptingu fjárveitingar til hafnarmannvirkja gengur út frá að fjórðungur skulda verði gerður upp og um 420 millj. kr. fari í styrki til nýrra verkefna. Í október sl. sendi Vita- og hafnamálastofnun út til umsagnar hjá sveitarfélögunum drög að hafnaáætlun fyrir árin 1996--1999 og hér er gert ráð fyrir að framlög til nýframkvæmda verði í samræmi við þau drög árið 1996. Í hafnalögum, nr. 23/1994, segir að við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í einstökum verkefnum skuli tekið tillit til fjárhagslegrar getu viðkomandi hafnarsjóðs til að standa undir naðsynlegum hafnarframkvæmdum. Jafnframt segir að greiðsluþátttaka skuli ákveðin um leið og verk eru tekin inn í hafnaáætlun og nánari reglur skuli settar í reglugerð um það hvernig skerðing á hámarki framlaga vegna fjárhagslegrar stöðu hafnarsjóða skuli framkvæmd.

Nú standa mál svo að Alþingi hefur ekki enn samþykkt hafnaáætlun áranna fyrir 1996--1999 og reglugerðin hefur ekki verið birt. Væntanlega verður hafnaáætlunin tekin til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi á fyrstu mánuðum næsta árs og væntanlega verður einnig gengið frá reglugerðinni á allra næstu vikum þar sem Hafnasamband sveitarfélaga og hafnaráð hafa nú lokið umfjöllun um hana. Meiri hluti fjárln. hefur þann fyrirvara að hér sé ekki um endanlega ákvörðun um skerðingu á greiðsluþátttöku ríkissjóðs að ræða, heldur verði þessum þætti málsins ekki lokið fyrr en með samþykkt hafnaáætlunar á Alþingi eftir áramótin.

Í liðnum 6.80, sjóvarnargarðar, er 51 millj. kr. til skiptanna til landbrots- og flóðavarna. Við skiptingu á liðnum er stuðst við yfirlitsskýrslu Vita- og hafnamálastofnunar frá því í ágúst 1995 um sjóvarnir á Íslandi. Í skýrslunni eru verkefni í meginatriðum flokkuð í þrjá flokka eftir mikilvægi.

[15:15]

Til flokks A teljast verkefni þar sem mikil verðmæti og öryggismál eru í húfi. Nokkur áhætta og töluverð verðmæti fylgja verkefnum í flokki B, en minnst er áhættan og verðmætin sem fylgja verkefnum í flokki C. Í tillöguskiptingu er gert ráð fyrir að ljúka megi að mestu verkefnum í A-flokki á árinu 1996 og verulegum hluta verkefna í B-flokki. Enn eru þó allmörg verkefni eftir í B-flokki, svo sem í Bessastaðahreppi, á Seltjarnarnesi, Akranesi, Suðureyri, Húsavík, Þórshöfn og Stokkseyri og verða þau að bíða a.m.k. til ársins 1997, en meiri hluti fjárln. lýsir sig því fylgjandi að fara að tillögum skýrslunnar í fjárveitingum á næstu árum.

Þá er komið að Ferðamálaráði, en hækkunartillaga á þessum fjárlagalið er í þremur liðum. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 3 millj. kr. fjárveitingu til rannsókna á sviði ferðamála og markaðssetningar í Bandaríkjunum og Kanada, en vaxandi áhugi er á samskiptum við Kanada í kjölfar beinnar flugleiðar til Halifax.

Í annan stað er lagt til að framlag til Ferðamálasamtaka landshluta hækki um 1 millj. kr. og verður þá heildarfjárveiting 6 millj. kr. Samtök þessi sinna m.a. upplýsingagjöf fyrir ferðamenn, ráðgjöf til hagsmunaaðila, útgáfu- og kynningarmálum og ýmsum skipulagsmálum í ferðaþjónustu um land allt. Fyrirhugað er að koma á fót vinnuhópum um einstök mál sem tengjast íslenskri ferðaþjónustu eins og upplýsingamiðlun, umhverfismál tengd ferðamannaþjónustu og lengingu ferðamannatímans.

Við 3. umr. fjárlaga fyrir ári síðan var tekinn inn nýr liður en það var fjárveiting til fjölsóttra ferðamannastaða. Nú lagt til að hækka framlag til þessa liðar um 5 millj. kr. Fjöldi ferðamanna hefur aukist og ýmsir fagrir og sérkennilegir staðir sem draga að sér ferðamenn eru í hættu vegna aukinnar umferðar. Því er brýnt að átak verði gert í varðveislu þessara staða og aðstaða bætt þar.

Gerð er tillaga um að hækka framlag til Iðntæknistofnunar vegna rannsókna- og fræðslumiðstöðvar í hveralíffræði en verkefni þetta er í samvinnu Hveragerðisbæjar og Iðntæknistofnunar. Veitt var fé til þessa verkefnis í fjárlögum þessa árs og var fjárveitingin þá færð undir menntmrn.

Þá er komið að umhvrn. Það er í fyrsta lagi aðalskrifstofan. Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárln. er ástæða hækkunar til aðalskrifstofu umhvrn. margþætt. Þar kemur til aukinn húsnæðiskostnaður, starfsmaður vegna snjóflóðavarna og ráðning bílstjóra. Þá er lögð til sérstök fjárveiting vegna Hollustuverndar ríkisins. Verkefni stofnunarinnar hafa aukist á síðustu árum, m.a. í tengslum við EES-samninginn vegna eftirlits með matvælum og eiturefnum svo og vegna mengunarvarna. Af þeim sökum skipaði umhvrh. samstarfsnefnd til að skoða rekstrargrundvöll Hollustuverndar ríkisins en aðilar að nefndinni eru fjárln. Alþingis, umhvrn., fjmrn. og Hollustuvernd ríkisins. Nefndin hefur skilað áliti og leggur m.a. til að rekstur stofnunarinnar verði skoðaður nánar. Þar þarf m.a. að líta á stjórnskipulag stofnunarinnar, sértekjuöflun hennar og erlend samskipti. Nefndin leggur til að veittar verði 1,5 millj. kr. til að standa undir kostnaði við þá úttekt. Hún er á ábyrgð umhvrn. í samráði við stjórn stofnunarinnar og er fjárveitingin vistuð á aðalskrifstofu ráðuneytisins. Að úttektinni lokinni mun samstarfsnefndin gera frekari tillögur m.a. um fjárhagsgrunn stofnunarinnar.

Þá er næst Náttúrufræðistofnun Íslands. Lagt er til að framlag til ýmissa umhverfisverkefna verði lækkað um 2,3 millj. kr. og sú fjárhæð fari til Náttúrufræðistofnunar og er þessi millifærsla gerð að ósk umhvrn. Að auki er lagt til að framlag til Náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum verði fært undir þennan lið en safnið hefur fengið styrk undanfarin ár af safnlið menntmrn.

Þá er komið að Veðurstofu Íslands en fluttar eru tvær brtt. er varða Veðurstofuna. Ríkisstjórnin hefur nýlega lagt fram á Alþingi frv. til laga um breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Verði frv. óbreytt að lögum mun starfsumfang Veðurstofu Íslands aukast þar sem stofnunin þarf að leggja meiri áherslu á að afla sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða. Í frv. til fjárlaga 1996 eru útgjöld hennar aukin um 15 millj. kr. vegna þessa málaflokks en hér er lagt til að stofnunin fái 13 millj. kr. til viðbótar vegna sérstaks átaks sem gera þarf í endurskoðun á forsendum hættumats vegna snjóflóða og snjóflóðaspáa.

Síðari tillagan felur í sér hækkun á sértekjum stofnunarinnar. Framlag til veðurþjónustu fyrir millilandaflug hækkar um 1 millj. kr. vegna endurmats launabóta sem ég mun gera nánar grein fyrir á eftir. Þar sem í gildi er samningur við Alþjóðaflugmálastofnunina um að greiða 95% af útgjöldum vegna þessarar veðurþjónustu er lagt til að sértekjur hækki um 0,9 millj. kr.

Þá er næst að telja brtt. vegna launabóta. Fjmrn. hefur endurmetið áhrif kjarasamninga á laun frá því að þau voru talin við gerð fjárlagafrv. 1996. Frá þeim tíma hefur verið samið við nokkur stéttarfélög. Þar má nefna félög kennara á háskólastigi, Félag ísl. náttúrufræðinga og Félag bókasafnsfræðinga. Auk þess bætist við hækkun launa vegna úrskurðar Kjaradóms. Samtals hækka laun einstakra stofnana um 158,4 millj. kr. en á móti þeirri hækkun lækkar framlag til launa- og verðlagsliðar fjmrn. um 100 millj. kr. eins og ég kom að fyrr í skýringum mínum. Á þann lið eru færðar 140 millj. kr. og standa því eftir 40 millj. kr.

Að lokum vil ég minnast á nokkur atriði sem ekki eru fluttar sérstakar brtt. um. Það eru í fyrsta lagi skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Í frv. til fjárlaga er framlag til skólabúða á Reykjum lækkað um 3 millj. kr. Í greinargerð frv. segir að skólabúðir séu ekki lögboðið verkefni samkvæmt grunnskólalögum og gert sé ráð fyrir að ríkið hætti rekstrinum haustið 1996, enda miðað við að breytt verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga vegna grunnskóla taki þá gildi. Meiri hluti fjárln. treystir því að málið verði skoðað af þeirri nefnd sem fer með yfirfærslu grunnskólans. Meiri hlutinn telur starf skólabúðanna mikilvægt og leggur áherslu á að starfsemin breytist ekki vegna yfirfærslunnar.

Þá er komið að iðju og iðnaði. Iðnrn. hefur skýrt frá því hvernig það hyggst verja tveimur safnliðum sínum á næsta ári. Hér er um að ræða fjárveitingalið nr. 299, Iðja og iðnaður, viðfangsefni 1.40, smáiðnaður í dreifbýli, og viðfangsefni 1.50, nýsköpun og markaðsmál. Fyrri liðurinn nemur 10,5 millj. kr. og sá seinni 6,3 millj. kr. Ráðuneytið ráðgerir að efna til samstarfs við tvo sjóði, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð um sameiginlegt átak til að efla smáiðnað og stuðla að hvers kyns nýsköpun undir verkefnisheitinu Átak til atvinnusköpunar. Markmið átaksins er að samræma verkefni ráðuneytisins og sjóðanna á umræddu sviði. Gangi þessi áætlun eftir verður gerður samningur við Iðntæknistofnun um framlag verkefnisins undir sameiginlegri verkefnisstjórn ráðuneytisins og sjóðanna. Í þeim samningi verður einnig kveðið á um að Iðntæknistofnun nýti hluta af aðstöðu sinni og ráðstöfunarfé í sama skyni. Framlag ráðuneytisins verður fé það sem tilgreint er í fyrrgreindum fjárveitingaliðum. Skipan þessi er hugsuð sem sérstakt átak á næsta ári og með hliðsjón af því að markmið umrædds átaks er það sama og liggur að baki téðum fjárveitingaliðum svo og þess að hér er um einhvers konar tilraun að ræða þykir ekki ástæða til að leggja til breytingu á framsetningu fjárveitingaliðanna í fjárlögum.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárln. leggur fram við 2. umr. fjárlagafrv. Fyrir hönd fjárln. vil ég þakka starfsmanni okkar Sigurði Rúnari Sigurjónssyni fyrir gott starf fyrir nefndina. Einnig ber að þakka Halldóri Árnasyni og Ásdísi Sigurjónsdóttur starfsmönnum fjmrn. sem hafa verið okkur til aðstoðar, sérlega gott samstarf. Þá hefur nefndin notið liðveislu starfsfólks Ríkisendurskoðunar og ýmissa ráðuneyta sem þurft hefur að leita til vegna vinnu við frv.

Starfsfólk Alþingis og ekki síst það starfsfólk sem hefur staðið okkur næst og starfar í Austurstræti 14 á alveg sérstakar þakkir skildar. Það hefur vakað yfir okkur fjárlaganefndarmönnum og leyst okkar vanda, smáan og stóran. Samnefndarmönnum mínum þakka ég sérstaklega gott samstarf og þolinmæði í störfum, en allir hafa lagt sig fram um að störf nefndarinnar mættu ganga sem greiðast og minni hluti fjárln. hefur unnið vel og málefnalega að málum í nefndarstarfinu sem vissulega er oft snúið og mikið að vöxtum.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir brtt. meiri hluta fjárln. og mæla fyrir málinu við 2. umr. og áliti meiri hlutans. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari afgreiðslu vísað til 3. umr. og brtt. verði samþykktar eftir 2. umr. eins og meiri hluti fjárln. leggur til.