Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 15:29:02 (1921)

1995-12-14 15:29:02# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[15:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar að starfsfólkið í Austurstræti 14 hefði vakað yfir velferð nefndarmanna. Ég vildi óska að almættið mundi líka vaka yfir velferð a.m.k. framsóknarmannanna sem er að finna í meiri hluta fjárln. vegna þess að þeir munu þurfa á því að halda í framtíðinni. Það er nefnilega svo að í þessa ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar vantaði bara eitt. Það vantaði að gera grein fyrir því hvernig hann hyggðist og hvernig Framsfl. hyggðist uppfylla öll þau miklu loforð sem Framsfl. gaf kjósendum fyrir síðustu kosningar. Ég bendi á að við 1. umr. þess frv. sem hér liggur fyrir, var það upplýst af talsmönnum Alþýðusambands Íslands að yrði það óbreytt að veruleika mundi það leiða til þess að 1.200--1.500 manns töpuðu atvinnunni einungis af þess völdum. Þetta er flokkurinn sem ætlaði sér að útrýma atvinnuleysinu svo að heitið gæti fyrir aldamót.

[15:30]

En það er fullt af öðrum loforðum líka sem rétt er að rifja upp sem tengjast fjárlögunum og fjárlagatengdum frumvörpum. Það var Framsfl. sem ætlaði að sjá til þess að öll menningarstarfsemi yrði undanþegin virðisaukaskatti. Að Rithöfundasjóður yrði efldur. Að skattfrelsismörk yrðu hækkuð. Að persónuafsláttur hjóna og sambýlisfólks yrði millifæranlegur að fullu. Að persónuafsláttur unglinga milli 16 og 20 ára sem væru í námi yrði líka millifæranlegur, svo fremi sem fjölskyldutekjur væru undir ákveðnu lágmarki. Það var Framsfl. sem ætlaði að sjá til þess að hægt yrði að beita skattaívilnunum til að örva almenning til að leggja hlutafé í lítil og meðalstór fyrirtæki. Til að örva fjárfestingu. Það var Framsfl. sem ætlaði að leyfa fyrirtækjum og einstaklingum að draga tapað hlutafé frá tekjum áður en það kæmi til skattlagningar. Það var Framsfl. sem ætlaði að veita nýjum fyrirtækjum sérstakan afslátt af orkuverði fyrstu starfsárin til að efla þau. Hann ætlaði að sjá til þess að fyrirtækin fengju sérstakan afslátt af orkuverði vegna nýsköpunar í atvinnulífi.

Herra forseti. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Það var Framsfl. sem boðaði sáttmála milli kynslóðanna og svo kemur hv. þm. Jón Kristjánsson og segir: ,,Eitt af því sem við ætlum að gera er einmitt að afnema tenginguna á milli hækkunar á bótum til gamla fólksins við launaþróun í landinu.`` Hvenær, herra forseti, á að uppfylla þessi loforð?