Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 15:31:40 (1922)

1995-12-14 15:31:40# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[15:31]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú ágætis sprettur hjá hv. 15. þm. Reykv. Hann hefur greinilega legið í góðum bókmenntum upp á síðkastið og lesið nokkur stefnuskráratriði framsóknarmanna fyrir kosningar. Hann gleymdi samt einu. Grundvallaratriðið í kosningastefnuskrá Framsfl. var að ná jafnvægi í ríkisfjármálum svo uppfylla mætti önnur markmið. Hv. 15. þm. Reykv. er fastur í þeirri hugsun að öll atvinnuuppbygging þurfi að koma frá hinu opinbera. Hann er algjörlega fastur í þeirri hugsun að atvinnulífið í landinu sé þess ekki umkomið að halda uppi fullri atvinnu. Þetta er miðstýringarhugsun sem hv. 15. þm. Reykv. er haldinn þótt hann sé í hægri sinnuðum krataflokki. Það verður að segjast alveg eins og er að það vantaði grundvallaratriðið í stefnuskrá okkar framsóknarmanna inn í þennan annars ágæta upplestur hv. 15. þm. Reykv. Þessi stefnuskráratriði verða einfaldlega ekki uppfyllt nema það takist að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum og reka ríkissjóð án þess að safna skuldum erlendis og hlaða upp vöxtum sem munu nema 18 milljörðum kr. í lok kjörtímabilsins ef ekkert verður að gert.