Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:39:25 (1929)

1995-12-14 17:39:25# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:39]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 15. þm. Reykv. fór heldur frjálslega með það sem ég sagði þegar hann talar um að ég hafi talað um sóun. Það er fjarri öllu lagi að ég hafi talað um sóun í heilbrigðiskerfinu, það er hans hugarburður.

Mér er mjög vel ljóst að sjúkrahúsakerfið, heilbrigðiskerfið í landinu, þarf mikla fjármuni og það skiptir miklu máli að okkur takist, af þeim skattpeningum sem við höfum til ráðstöfunar, að útdeila sem mestu til sjúkrastofnana þannig að hægt sé að halda uppi fullkominni þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Það er útgangspunktur í þessu máli og ég held að við verðum að treysta því fólki sem fer með stjórn heilbrigðiskerfisins til þess að ráðstafa þessum fjármunum og deila þeim á milli. Það held ég að sé kannski erfiðasta viðfangsefnið. Við eigum að treysta stjórnendum þessara stofnana en engu að síður að eiga við þá orð og skiptast á skoðunum um það hvert fjármunirnir eru settir.

Varðandi það að einhver ágreiningur sé uppi milli mín og hæstv. heilbrrh. um það hvort það eigi að auka skattheimtu til þess að tryggja tekjur, tel ég að við séum ekki í neinum færum til þess að hækka skatta á þjóðina í dag. Við höfum náð tiltekinni sátt á vinnumarkaði og ég tel að það sé ekki tilefni til þess að brjóta þá sátt upp með því að hækka skatta. En við þurfum engu að síður að leita leiða til þess að skapa heilbrigðisstofnununum færi á að sinna þessari mikilvægu þjónustu og stytta biðlistana. Það er hægt að stytta biðlistana með því að forgangsraða innan heilbrigðiskerfisins, hv. 15. þm. Reykv.