Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:43:51 (1931)

1995-12-14 17:43:51# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:43]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem hv. 15. þm. Reykv. sagði um tillögur landlæknis vil ég í fyrsta lagi segja að fjárlaganefndarmenn hlusta með mikilli athygli þegar landlæknir mætir á fundi þeirra. Hann er sennilega sá embættismaður fyrir utan embættismenn fjmrn. sem oftast kemur til þess að eiga ágæta fundi með fjárln.

Við höfum heyrt þessar tillögur landlæknis og þær hafa vakið athygli okkar. Við teljum að það eigi að vinna á þeim nótum sem hann leggur til. En við erum ekki sérfræðingar. Það mætti e.t.v. beina því til heilbr.- og trn. að skoða þetta mál betur og gera tillögur. Hv. 15. þm. Reykv. er formaður þeirrar nefndar þingsins og hefur vakið athygli á þessu. Fjárln. hefur hins vegar ekki lokið vinnu sinni við heilbrigðisþáttinn þannig að ekki er öll nótt úti enn.

[17:45]

Ég vil benda á það að hv. fjárln. hefur tekið upp á hverju einasta ári síðasta kjörtímabil eða þau ár sem ég hef setið þar, einhverjar hugmyndir sem landlæknir hefur komið fram með. M.a. man ég eftir því að hann vakti athygli á því að það væri mikið framfaraspor ef næðist að tengja sjúkrahús þannig að litlar sjúkrastofnanir úti á landi gætu t.d. vegna röntgenrannsókna tengst með línu stóru sjúkrahúsunum öflugu sem gætu þá aðstoðað. Í þessu er einmitt verið að vinna núna og ég veit að sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum hefur með þessum hætti fengið beina þjónustu frá stærri stofnun.

Þetta er eitt dæmi og ég tel að það sé vissulega ástæða til þess að fara ofan í þetta sjúkrahótelamál ef það er eins og hv. þm. nefndi. Ég held hins vegar að það þurfi ekki endilega að koma einhver sérstök fjárveiting upp á nokkur hundruð þús. eða nokkrar milljónir til þessa verkefnis því að innan heilbrigðiskerfisins eru nú býsna stórar fjárhæðir að veltast og ef það eru svona miklir sparnaðarmöguleikar í þessu ættu auðvitað sjúkrastofnanirnar eða jafnvel heilbrrn. af sínum óskiptu liðum að taka þetta mál upp.