Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:46:42 (1932)

1995-12-14 17:46:42# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:46]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varaformaður fjárln. var að halda ræðu. Hann sagði að lokinni vinnu fjárln. og við 2. umr. fjárlaga þegar fjárln. og meiri hluti hennar kynnir sínar tillögur að hann varaði menn við að hlusta á talsmenn sjúkrahúsanna. Varaformaður fjárln. segir í ræðustól á Alþingi að hann vari menn við að hlusta á talsmenn sjúkrahúsanna. Ég vil spyrja varaformann fjárln.: Hvaða talsmenn sjúkrahúsanna eru það sem hann er að vara þingið við? Varaformaður fjárln. getur ekki komið í ræðustól og talað undir rós um þessi efni.

Það eru einkum tveir talsmenn sjúkrahúsanna sem að undanförnu hafa verið í fjölmiðlum að fjalla um fjárhagsvandann. Annar er stjórnarformaður Ríkisspítalanna og hinn er hæstv. heilbrrh. Það mætti kannski bæta landlækni í þennan hóp, sérstaklega eftir ummæli hans í útvarpinu í morgun, en hann er þó ekki samkvæmt embættisskyldu talsmaður sjúkrahúsanna. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm. Sturlu Böðvarsson, varaformann fjárln að því hvaða talsmenn sjúkrahúsanna hann átti við. Það er nauðsynlegt að hann upplýsi þingið nákvæmlega um það hverjir þetta eru fyrst hann er að vara það við þessum mönnum í sinni meginræðu um fjárlögin.