Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:50:45 (1934)

1995-12-14 17:50:45# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:50]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson, leiðtogi Sjálfstfl. í fjárln., sá ekki ástæðu til þess að vara þingheim við talsmönnum menntastofnana. Hann sá ekki ástæðu til þess að vara þingmenn við talsmönnum landbúnaðarins. Hann sá ekki ástæðu til þess að vara þingmenn við talsmönnum húsnæðiskerfisins. Hann sá aðeins ástæðu til þess að vara þingmenn við talsmönnum sjúkrahúsanna. Þegar hann er síðan spurður að því hvaða talsmenn sjúkrahúsanna það eru sem hv. þm. varar þingheim við, þorir hv. þm. Sturla Böðvarsson, leiðtogi Sjálfstfl. í fjárln., ekki að standa við orð sín. Hann þorir ekki að tilgreina í ræðustól hverjir það eru sem hafa rætt þannig um vanda sjúkrahúsanna að hann sjái ástæðu til þess að vara þingheim við slíkum málflutningi og málflytjendum. Það er fullkomlega óábyrgt hjá leiðtoga Sjálfstfl. í fjárln., höfuðtalsmanni Sjálfstfl. við fjárlagagerðina auk fjmrh. að flytja slíkar ásakanir um óábyrgan málflutning talsmanna sjúkrahúsa án þess að vera reiðubúinn að tilgreina nákvæmlega hvað hann á við.

Það eru ekki mjög margir sem eru talsmenn sjúkrahúsanna í þessu landi. Það eru yfirlæknar á tilteknum deildum Ríkisspítalanna og í Borgarspítalanum. Það eru forstöðumenn Ríkisspítalanna, Borgarspítalans og héraðssjúkrahúsanna úti um land og það er stjórnarformaður Ríkisspítalanna og hæstv. heilbrrh. Þetta er ekki mjög stór hópur manna, hv. þm. Hverjir eru það í þessum hópi sem að dómi leiðtoga Sjálfstfl. við fjárlagagerðina hafa haft uppi svo óábyrgan málflutning að hv. þm. sjái ástæðu við 2. umr. fjárlaga að vara þingheim og þjóðina við slíkum málflytjendum?