Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 18:51:32 (1937)

1995-12-14 18:51:32# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[18:51]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta er í sjálfu sér ekki mjög marktæk umræða því að brtt. þær sem meiri hluti fjárln. leggur til eru ekki umfangsmiklar, 187,2 millj. Þær brtt. ýmsar eru góðra gjalda verðar en auðvitað breyta þær ekki gölluðu frv. Það hefur komið fram áður að það vantar útfærslu á tæpum helmingi fjárlaganna og fyrr en það kemur skýrt fram er óhægt um að tala.

Tekjuhlið frv. er vitaskuld ekki hér til umræðu en þess má geta að það örlar ekki á þeirri stefnumótun í fjárlagafrv. að taka inn nýja skattstofna, tekjuskattstofna eins og fjármagnstekjuskatt, herða aðgerðir við skatteftirlit eða gera ráð fyrir með álagningu veiðileyfagjalds mörkuðum tekjustofni til útgjalda í sjávarútvegi.

Þjóðvaki lætur sér ekki koma til hugar að leggja fram tillögur við fjárlagafrv. nema það séu jafnframt gerðar tillögur um tekjuöflun á móti. Við lítum svo á að það sé minnsta mál í heimi að koma með útgjaldatillögur. Ef menn hugsa ekki fyrir tekjuöflun þar á móti er slík tillögugerð marklaus.

Það er ýmislegt við fjárlagafrv. og afgreiðslu meiri hluta nefndarinnar að athuga. Nefna má mál eins og gagnvart þolendum afbrota þar sem nýgerð lög eru skert og eru stjórnarandstöðuþingmenn allir, held ég, á sama máli um að sá þáttur verður að taka breytingum. Það má sömuleiðis nefna að ekki virðist vera séð fyrir nægjanlegum framlögum til reksturs innan heilbrigðiskerfisins og minni ég þar á geðdeildir, barnageðdeildir, unglingageðdeildir og þætti sem tengjast bæklunaraðgerðum. Það er til vansa fyrir okkar þjóðfélag hvernig staðið er að þeim málum og ekki örlar á útfærslu eða betrumbót af hálfu ríkisstjórnarinnar á þeim vettvangi.

Herra forseti. Fjmrh. er væntanlega nálægur?

(Forseti (RA): Það má kanna það.)

Það örlar heldur ekki á neinni nýsköpun í fjárlagafrumvarpinu. Má þá nefna þætti sem vitaskuld fela í sér góða fjárfestingu eins og það að efla kvikmyndagerð svo að eitt dæmi sé tekið. Það er hægt að grípa niður í nál. meiri hlutans þar sem koma fram umsagnir hinna ýmsu fagnefnda og þar vek ég alveg sérstaklega áherslu á minnihlutaáliti heilbr.- og trn. þar sem bent er á fjölmörg vandamál við sjúkrahús bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni, málefni sem tengjast glasafrjóvgun og geðhjúkrun. Öll eru þau mál enn þá óleyst. Eða eins og þar segir: ,,Það vantar heildarstefnumörkun á þessu sviði.`` Það má jafnframt benda á minnihlutaálit úr landbn. varðandi fjárlagafrumvarpið þar sem fram koma ýmis gagnrýniverð atriði sem ekki fá neinn hljómgrunn í meirihlutaáliti nefndarinnar.

Menntamál fá sorglega afgreiðslu fjárln., bæði hvað viðvíkur grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi. Átak í þeim efnum var á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka fyrir kosningar en efndir núv. ríkisstjórnarflokka eru ekki neinar í samræmi við fyrri loforð.

Afnám verðuppfærslu í skatta- og bótakerfi sem er þungamiðja fjárlagafrv. og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar nú á haustdögum er vitaskuld alvarleg atlaga gegn bæði eldra fólki og þeim sem minna má sín í þjóðfélaginu. Því miður einkennist fjárlagafrv. af þáttum sem tryggja ekki atvinnu og auka ekki atvinnu og því miður gæti sú efnahagsstefna leitt til meiri landflótta en við nú búum við.

Þau orð sem töluð voru við 1. umr. fjárlagafrv. er óþarft að endurtaka. Ég tel fjárlagafrv. endurspegla ranga efnahagsstefnu. Ríkisstjórnin og meiri hluti fjárln. hefur ekki gert þá betrumbót á frv. sem hefði verið nauðsynleg til að ná áttum í þeim efnum.

Fyrr í dag lýsti ég því yfir fyrir hönd þingflokks Þjóðvaka að þar sem svo mikið vantaði í fjárlagafrv. myndum við ekki leggja fram brtt. við 2. umr. heldur bíða og sjá hvað kæmi frá ríkisstjórninni varðandi það efni og leggja okkar tillögur fram við 3. umr. Það er það sem við munum gera. En ég vil gera stuttlega grein fyrir hvernig okkar tillögugerð verður háttað.

Við munum gera ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp á næsta ári og mun innheimtast á síðari hluta ársins. Þar gerum við ráð fyrir tekjum upp á 500 millj. Við gerum ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vaxi vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu m.a. vegna álvers og annarra slíkra þátta. Við áætlum þar tekjubót upp á 700 millj. kr. og er það mjög varlega farið. Það er vafalítið hægt að margfalda þá tölu með tveimur eða þremur til að fá út raunhæfari niðurstöðu en það er betra að vera varkár í slíkri áætlanagerð. Við gerum ráð fyrir að hægt verði að leggja á veiðileyfagjald á næsta ári og gerum ráð fyrir tekjum af því upp á 500 millj. kr. sem gætu þá runnið til útgjalda ríkissjóðs varðandi sjávarútveg. Ef ég man rétt þá eru útgjöld ríkissjóðs í þeim málaflokki u.þ.b. 3 milljarðar. Hvort um þessa hugmynd næst pólitísk samstaða er ekki gott að segja.

Við gerum ráð fyrir að með auknu skatteftirliti megi bæta tekjur fjárlagafrv. frá því sem nú er og gerum þar ráð fyrir tekjum upp á 200 millj. kr. En við höfum varðandi þennan málaflokk, hæstv. fjmrh., gagnrýnt það ótæpilega að ekki er nóg að gert, sérstaklega þegar haft er í huga að um 11--14 milljarðar eru taldir tapast vegna undandráttar frá skatti.

Við gerum ráð fyrir að leggja á hátekjuskatt sem ætti að skila u.þ.b. 50 millj. kr. Við hugsum okkur skattinn þannig að það sé lagður 10% skattur á laun sem nema yfir 700 þús. kr. á mánuði. Þetta er alvöru hátekjuskattur, ekki þessi 5% skattur sem oft er reyndar kallaður hátekjuskattur. Við gerum ekki neinar tillögur um breytingar á því fyrirkomulagi. Skatturinn skilar ekki mjög miklum fjárhæðum en hins vegar er þetta alls ekki ósanngjörn skattlagning miðað við slíkar tekjur sem hér um ræðir, þ.e. fjölskyldutekjur um 1.400 þús. kr. á mánuði. Það eru ekki margir einstaklingar sem það hafa en það er líka réttlátt að þeir leggi meira til samfélagsins.

Við gerum ráð fyrir útgjaldalækkun upp á einar 230 millj. Við gerum ráð fyrir því að hægt sé að draga úr útgjöldum hjá Byggðastofnun upp á 100 millj., í landbrn. upp á 100 millj. og við sjáum enga annmarka á því að hægt sé að lækka ferðakostnað og risnu, sem er umtalsverð hjá hinu opinbera, um 30 millj. Hér er farið varlega í hlutina og ekki verið með nein yfirboð. Þetta eru raunhæfar áætlanir sem væri hægt að ná ef menn vilja. Þessar tekjuaukningatillögur eru upp á 2 milljarða 180 millj. kr. Við gerum hins vegar ráð fyrir því að auka útgjöld okkar um 880 millj. kr. Tillögugerð Þjóðvaka sem mun koma fram við 3. umr. þýðir það að ríkissjóðshalli minnkar um 1.300 millj. eða um 34%, þ.e. um þriðjung miðað við áform ríkisstjórnarinnar. Eins og þingheimur veit var fjárlagafrv. lagt fram með 3 milljörðum 880 millj. kr. í halla þótt það taki vitaskuld breytingum þegar endanlegar tillögur meiri hlutans liggja fyrir.

[19:00]

Við gerum ráð fyrir útgjöldum upp á 880 millj. kr., sem við teljum nauðsynlegt að bæta við í frv. Við áætlum miskabætur til þeirra sem verða fyrir ofbeldi 40 millj. kr. og er miðað við að láta þau lög ná fram að ganga sem áður voru afgreidd. Við viljum auka framlög til barna- og unglingageðdeildar um 60 millj. kr. og teljum brýnt að gera betur í þessum málaflokki. Við gerum ráð fyrir að lækka fjármagnstekjuskatt eldri borgara um 150 millj. Við höfum margoft bent á ósanngirni þess að leggja fjármagnstekjuskatt einungis á í bótakerfinu og þá gagnvart eldra fólki. Við gerum ráð fyrir að taka hluta af því til baka samhliða því að lagður er almennt á fjármagnstekjuskattur. Við gerum ráð fyrir að auka framlög til bæklunaraðgerða um 80 millj. kr. og við teljum að það sé mjög brýnt mál enda eru biðlistar þess eðlis að þar þarf að gera betrumbót á.

Til atvinnumála kvenna gerum við ráð fyrir að veita sérstaklega hækkun sem nemur 50 millj. kr. Við gerum ráð fyrir að þróunaraðstoð verði aukin um 30 millj. kr. en við teljum mjög brýnt mál að Íslendingar marki sér skarpari vettvang þar.

Við gerum ráð fyrir 200 millj. kr. hækkun vaxtabóta til viðbótar því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þar erum við að skila nokkru af þeirri skerðingu sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Við leggjum til nýsköpunar- og rannsóknasjóð og til háskóla 70 millj. kr. en sá málaflokkur er mjög svo vanræktur af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Til Framkvæmdasjóðs fatlaðra gerum við ráð fyrir að veita 130 millj. kr. en hér er dregið úr þeirri skerðingu sem þessi mikilvægi sjóður hefur orðið fyrir. Hér er einungis um það að ræða að það fjármagn sem gert var ráð fyrir með erfðafjárskatti fái sinn farveg eins og áður var.

Við gerum tillögu um að fjármagn í Kvikmyndasjóð verði aukið um 50 millj. kr. Þetta lítum við hreinlega á sem góða fjárfestingu því ef sá iðnaður fær þá innspýtingu sem er nauðsynlegt af opinberri hálfu mun hann skila því margfalt til baka. Við eigum ekki að spara okkur til blóðs í þeim efnum.

Við gerum ráð fyrir að auka framlög til forvarna í vímuefnamálum um 20 millj. Þar hugsum við fyrst og fremst til forvarnasjóðs í áfengismálum sem settur var á laggirnar á sl. vorþingi og teljum nauðsynlegt að bæta þar við fjármagni.

Ýmsar af þessum tillögum koma einnig fram hjá öðrum stjórnarandstöðuflokkum en í mismiklum mæli. Nokkrar hafa sérstöðu og hafa ekki sést áður, bæði á tekjuhlið og útgjaldahlið. Meginmálið varðandi tillögugerðina er að hér er gert ráð fyrir að ríkissjóðshallinn minnki um 1.300 millj. og ég veit að hæstv. fjmrh. fagnar sérhverri tillögu sem minnkar halla hans. Honum er að vísu ekki eytt með þessum tillögum enda viljum við ekki gera tillögur út í loftið varðandi þetta efni. Þessar tillögur eru varlega gerðar en taka hins vegar á þeim málaflokkum sem skipta verulegu máli og marka ákveðna stefnu varðandi ríkisfjármál. Við lítum svo á ef þessar tillögur yrðu samþykktar væru sniðnir verstu gallarnir af núv. fjárlagafrv. Meira förum við ekki fram á.

Ég vænti þess að þessar hugmyndir fái afgreiðslu og umræðu á hinu háa Alþingi og sú hugmyndafræði sem þar liggur að baki því að brýnt er að reyna að koma fjárlögum og fjármagnsstjórn hins opinbera á næsta ári í annan og betri farveg en þetta fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.