Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 20:37:29 (1939)

1995-12-14 20:37:29# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[20:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta þingsins fyrir að ganga eftir því við ríkisstjórnina að knýja fram þessi svör. Ég vil einnig þakka hv. formanni fjárln. fyrir það að knýja á um að orðið verði við tilmælum þingsins frá því fyrr í dag. Hins vegar eru þau svör sem hér hafa verið gefin bæði mjög óljós um margt og harla rýr. Það er talað um 150 millj. kr. framlag til Ríkisspítala til að mæta vanda sem er upp á 1 milljarð. Okkur er sagt að uppsafnaður vandi Ríkisspítalanna nemi 400 millj. kr. og til þess að viðhalda óbreyttu þjónustustigi á næsta ári þyrftu að koma 580 millj. til viðbótar. Síðan er það harla villandi sem hefur verið að heyrast í fréttum í ljósvakafjölmiðlunum núna í kvöld um 200 millj. kr. viðbótarfjárframlag því um er að ræða skerðingu upp á 2% sem síðan er sett í pott og við vitum ekki hvernig á svo að ráðstafa úr honum.

En mín spurning er þessi: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að mæta þeim halla og þeim vanda sem Ríkisspítalarnir búa við og fyrirséð er að þeir muni búa við? Verður það gert með því að skerða þjónustuna? Eða verður það gert með auknum þjónustugjöldum? Það er nauðsynlegt að þingið fái svör við þessu þegar í stað.