Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 23:56:02 (1953)

1995-12-14 23:56:02# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[23:56]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. þm. Ég vil í fyrsta lagi geta þess að kjarasamningar sem ríkið hefur gert gilda almennt til áramótanna 1996--1997. Nú við 2. umr. koma inn í frv. u.þ.b. 137 millj. kr. á launalið. Launaliðir hækka á milli ára um 3--4 milljarða. Þannig hefur ætíð verið haldið á þessum málum að menn hafa þurft að áætla launahækkanir og það er talið tiltölulega auðvelt núna.

Hv. þm. minntist á launastefnu ríkisins. Hún hefur verið metin af óháðum aðilum, þ.e. Þjóðhagsstofnun. Í mati Þjóðhagsstofnunar kemur í ljós að nokkur munur er á samningum sem gerðir voru annars vegar í febrúar og hins vegar síðar. Ríkið gerði yfirleitt samninga síðar, nema við kennara, og ég tel að þess vegna sé ekki ástæða til þess að ríkið hækki laun starfsmanna sinna með sama hætti og laun sumra aðila á almennum vinnumarkaði hafa verið hækkuð. Ég vil hins vegar segja það, virðulegi forseti, að ég kýs að eiga slíkar viðræður um kjaramál við formann BSRB annars staðar en í ræðustól á Alþingi.

Þá spurði hv. þm. um 150 millj. Því er til að svara að með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var horfið aftur til fyrra ráðs. 450 millj. fara inn í grunninn um áramót, sem jafngildir launahækkunum, en eingreiðslurnar verða á öðrum stað. Þær eru greiddar út eins og áður hafði verið gert ráð fyrir og fara ekki í grunninn. Það er eðlilegt að horfið sé frá því að draga greiðslur úr lífeyrissjóðum til ellilífeyrisþega frá skatti úr því að Alþýðusambandið hefur kosið að því sé flýtt að gera greiðslur í lífeyrissjóðina frádráttarbærar frá skatti.