Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 10:34:02 (1959)

1995-12-15 10:34:02# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[10:34]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Mér datt í hug í gær þegar ég heyrði raddir virðulegra stjórnarandstæðinga gamalt orðtak sem segir að hversu hátt sem öldur tilfinninganna rísi, brotni þær á staðreyndum. Það er staðreynd að ríkissjóður er ekki ótakmarkaður. Sjóðir ríkisins eru rýrir, um það verður ekki deilt. Við getum deilt um ástæður, en það tekur því ekki að deila um það hvers vegna sjóðirnir eru rýrir. Þetta er spurningin um hvernig við förum með peningana.

Það er einnig staðreynd að vextir af lánum ríkissjóðs eru þriðji hæsti útgjaldaliður í málaflokki, eða tæplega 14 milljarðar. Þetta er hærri upphæð en við verjum til stofnframkvæmda, t.d. til byggingar vega, hafna, flugvalla, skóla, sjúkrahúsa eða heilsugæslustöðva. Það er staðreynd að velferðarkerfið verður ekki fjármagnað með lántöku til lengdar. Það leiðir til hruns þess og í slíku er engin framtíð. Það er einnig staðreynd að það er sjálfvirk útgjaldaþensla í ríkisfjármálum. Þá útgjaldaþenslu verður að stöðva og við gerum tilraun til þess í fjárlagafrv. Það er einnig staðreynd að ef við eyðum um efni fram, missum við fjárhagslegt sjálfstæði okkar.

Er það ekki skylda okkar þingmanna að sporna við þessari þróun til að vernda framtíð Íslands, unga fólkinu, sem hefur ekki möguleika á að verja sig? Með fjárlagafrv. erum við að reyna að tryggja stoðir velferðarþjóðfélagsins. Ég tel að við náum t.d. ekki lengra í sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Við höfum gengið þann veg á enda miðað við núverandi skipulag.

Við höfum einnig gengið mjög langt í sparnaði í mjög mörgum ráðuneytum. Það hafa allir stjórnmálaflokkar lýst þeim vilja sínum að ná niður fjárlagahallanum. Menn greinir hins vegar á um leiðir. Leiðir stjórnarandstæðinganna eru einfaldar en þær eru jafnframt ótraustar. Það á að halda áfram að eyða um efni fram, en þeir svara því ekki hvernig á að afla teknanna. Þar eru engar nýjar leiðir, þar eru engar nýjar lausnir og þar eru engin ný úrræði, eins og reyndar var boðað að fram skyldi koma í 2. umr.

Fyrir nýja þingmenn eru störf á Alþingi framandleg en þau eru jafnframt spennandi og skemmtileg. Hvers vegna talar enginn um allsherjaruppstokkun á stjórnkerfi landsins? Við Íslendingar erum einungis um 260 þúsund. Við höfum til þess að gera gott samgöngukerfi, en samgöngukerfið er undirstaða endurskipulagningar, sameiningu hreppa og stjórnkerfis. Við höfum byggt upp varanlega vegi umhverfis landið. Við höfum byggt jarðgöng í gegnum fjöll, við höfum byggt hafnir og hafnalög eru beinlínis eyðsluhvetjandi og ég, sem fyrrv. sveitarstjórnarmaður, veit að það er auðvitað hvetjandi fyrir sveitarstjórnir landsins að byggja hafnir vítt og breitt, sem eru auðvitað lífæðar hvers byggðarlags. En ríkissjóður greiðir stærstan hluta af þessum framkvæmdum. (Gripið fram í: Er hv. þm. á móti því?) Nei, að sjálfsögðu ekki. Í sjávarplássum eru hafnir auðvitað lífæðar en við gætum hugsanlega komist af með færri hafnir, eins og við höfum t.d. gert á Suðurlandi.

Stjórnkerfi okkar hefur ekki þróast í takt við breyttar aðstæður hvað tækni og samgöngur í landinu varðar. Þetta á við flesta þætti bæði í dreifbýli og þéttbýli. Þetta á við um hreppaskipan, þetta á við um samliggjandi bæjarfélög og þetta á við um kauptún. Þetta á við um prestaköllin í landinu, þetta á við um sýsluskipan, sýslumenn og embættiskerfið í landinu. En þingmenn þora einhverra hluta vegna ekki að takast á við þessi mál. Það er m.a. vegna þess að þetta snertir kjördæmin okkar og um leið og það snertir þau kemur búrahugsunarhátturinn upp í okkur, við viljum gjarnan halda í okkar. Og þar er ég engin undantekning.

Það er líka gjarnan talað um að þeir þingmenn séu duglegastir sem eru duglegastir við að pota fyrir sitt kjördæmi. Ísland er hátækniþjóðfélag. Við erum afar tölvuvædd. Við erum í raun og veru tækja- og tæknióð. Við höfum nýjar tölvur, við höfum Internet, við höfum mótöld. Símkerfi okkar er orðið mjög fullkomið með ljósleiðurum, samnetum og öllu tilheyrandi. Við höfum skjalasíma og hvað þetta heitir nú allt saman. Við getum skipst á upplýsingum á örskotsstundu.

Alþjóðasamskipti Alþingis kosta 50 millj. kr. Ég er alveg klár á því að þarna gætum við sparað. Það er auðvitað nauðsynlegt að taka þátt í alþjóðasamskiptum en við getum notað þá tækni sem við búum við mikið betur en við gerum. Þessar 50 millj. eru einungis helmingurinn af því sem menntmrn. notar í alþjóðasamskiptum. Svona getum við haldið áfram að telja. Það er í raun og veru sama hvert við lítum. Stjórnkerfið vinnur ekki í takt við bættar samgöngur eða bættan samskiptabúnað. Ég tel að hér höfum við verk að vinna til sparnaðar. Það er í raun og veru nær að taka á þessum málum heldur en hinum fjölmörgu, viðkvæmu málaflokkum.

Ég vil í lok ræðu minnar þakka stjórnarandstæðingum sem hafa verið með okkur í fjárln. fyrir mjög málefnalega vinnu. Ísland er gott og gjöfult land. Möguleikar okkar eru nær ótakmarkaðir. Við erum, þegar á heildina er litið, ríkt þjóðfélag. Endurskoðuð þjóðhagsspá fyrir árið 1996 lofar góðu. Þar er gert ráð fyrir að þjóðarútgjöld, þ.e. einkaneysla í landinu, aukist úr 4,9% í 5,6. Það er um 15 milljarða aukning árið 1995. Þar er einnig gert ráð fyrir hagvexti upp á 3,2%.

Ég tel að við Íslendingar stöndum okkur vel á mjög mörgum sviðum. En kerfið okkar, hvar sem á það er litið, er allt of dýrt og allt of gamaldags. Í því liggur stór hluti af fjárhagsvanda ríkissjóðs.