Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 10:43:48 (1960)

1995-12-15 10:43:48# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[10:43]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom mér á óvart hversu þungt var í hv. þm. þegar hann hóf ræðu sína. Ég stóð í þeirri meiningu að hann væri nýkominn af fundi fjárln. í morgun þar sem birt voru drög að nýrri spá Þjóðhagsstofnunar. Samkvæmt þeim fréttum sem ég hef er mun bjartara fram undan en menn höfðu haldið. Ég vona því að hann geti litið bjartari augum á framtíðina en fram kom í ræðu hans, þótt vissulega sé margt sem við þurfum að hafa áhyggjur af.

Þingmaðurinn spurði: Hvers vegna talar enginn um allsherjaruppstokkun? Ég held að hann hefi ekki hlustað nógu vel í þessari umræðu né öðrum. T.d. hefur sú sem hér stendur margsinnis bent á ýmsa möguleika í þeim efnum, bæði varðandi það að leggja niður ríkisstofnanir og það atriði að sameina atvinnumálaráðuneytin. Ég held að það gæti haft mikla þýðingu í okkar stjórnkerfi. Ég er svo sannarlega tilbúin til þess að fara með honum í allsherjaruppstokkun á kerfinu. En ef hann er maður breytinga og uppstokkunar, hvað er hann þá að gera í ríkisstjórn með Sjálfstfl. sem vill engu breyta?