Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 10:52:36 (1967)

1995-12-15 10:52:36# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[10:52]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Stundum hefur Alþingi verið líkt við leikhús en nú hef ég það sterklega á tilfinningunni að ég sé staddur í fjarstæðuleikhúsi. Hingað kemur hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason og maður skyldi ætla, ef maður vissi ekki betur, að hann væri alls ekki framsóknarmaður. Hann flytur hér ræðu um nauðsyn þess að stöðva skuldasöfnun, um að stunda sparnað, aðhaldssemi og ráðdeild í ríkisrekstri. Man hv. þm. ekkert eftir því að í tíð fyrri ríkisstjórnar á seinasta kjörtímabili þegar verið var að reyna að taka á slíkum málum með því að stöðva sjálfvirka útgjaldaþenslu í félagslegu kerfi eða í heilbrigðismálum þá fór flokkur hans hamförum gegn slíkum tillögum. Hann kenndi eingöngu mannvonsku, skilningsleysi og illsku um og talaði aldrei um nauðsyn sparnaðar eða ráðdeildar. Veit hv. þm. ekkert um sögu síns flokks? Veit hann ekki að meginuppistaðan í stefnu og gjörðum Framsfl. áratugum saman hefur einmitt verið þetta kjördæma- og hagsmunapot sem hv. þm. var að fordæma. Þ.e. kröfur um útgjöld, meira að segja nú nýlega staðfest í búvörusamningi upp á 12 milljarða til aldamóta. Ætlar hv. þm. að halda því fram að þetta sé fjárfesting í framtíðinni? Eða þeir 48 milljarðar sem mokað var í tóma hít og skilaði engum árangri í útflutningsbætur á undanförnum árum að undirlagi hans flokks? Veit hv. þm. ekki að það sem hans flokkur stendur fyrir er þveröfugt við það sem hv. þm. var að tala um? Er það í lagi að menn komi fram eins og umskiptingar hér í ræðustóli Alþingis og tali þvert gegn því sem er kjarninn í tilveru flokks hv. þm.