Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 10:57:25 (1969)

1995-12-15 10:57:25# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[10:57]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Við viljum lifa af landsins gæðum. Við viljum að bændur lifi. Það er nú það, hv. þm. Stefna Framsfl. í málefnum landbúnaðar er af því taginu, þrátt fyrir fjárausturinn og þrátt fyrir alla þykjustuumhyggjuna, að þegar bændur landsins koma saman tala þeir um fátt annað en að þeir séu að drepast undan þessu kerfi. Ágreiningurinn er ekki um það að halda uppi bjargálna bændum og lífvænlegum landbúnaði heldur sá að Framsfl. og framsóknarkerfið er búið að koma sjálfbjarga landbúnaði fyrir kattarnef með ofskipulagi og ofverndun, með því að binda framtak bænda í dróma og gera þá raunverulega að ánauðugum mönnum í fátæktargildru. Það er um það sem málið snýst. Að öðru leyti er ekki meira að segja um seinni ræðu hv. þm. en að hún var öll önnur heldur en sú hinn fyrri. Þá var gasprinu hætt um sparnað og ráðdeild og allt í einu farið að fara með gömlu framsóknarrulluna og þá þekkjum við aftur í hvaða flokki hv. þm. er.