Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:30:22 (1974)

1995-12-15 11:30:22# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:30]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að hér sé um einhvern blekkingarleik að ræða heldur hafi hv. þm. ekki áttað sig á þessu. Kemur það mér reyndar dálítið á óvart. Tölurnar eru til og þær voru birtar m.a. í reikningi fyrir 1993 og það er enginn vandi að lesa þær upp hérna. Það er gerð breyting 1989 og þá er rekstrarjöfnuðurinn, þ.e. talan sem er hallatala 64,4 milljarðar en 1990 verður hún hins vegar miklu lægri því þetta er allt fært upp árið 1989. En það er alveg ljóst að það er ekki hægt að bera saman reikningsjöfnuðinn og greiðslujöfnuðinn, ekki einu sinni frá 1990, vegna þess að það sem er áfallið og ógreitt mælist í ríkisreikningnum en kemur ekki fram í niðurstöðutölum þegar fjárlög eru gerð upp eins og ég hef látið koma fram. Það er aðalatriði málsins. Hins vegar er unnið að því nú að gera þær breytingar að hægt sé að lesa þetta með samsvarandi hætti á milli ára. Ég get hins vegar glatt hv. þm. með því að ég hef fengið nánari talnalegar upplýsingar og mér væri heiður að því og ánægja að fá að sýna hv. þm. þær ef það kynni að auka fróðleik hans í þessum efnum.