Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:34:27 (1976)

1995-12-15 11:34:27# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:34]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. hefur komið nokkuð að útgerð og er væntanlega ekki að halda neinu fram að því er varðar staðreyndir öðru en því að tiltekinn frádráttur á tekjuskatti sem nemur eitthvað á annan milljarð króna að því er varðar sjómenn er niðurgreiðsla á launum. Á því leikur enginn vafi að ef ekki væri um að ræða þennan frádrátt frá skatti mundi hann lenda á útgerðaraðilum. Síðan spyr hv. þm.: Er formaður Alþfl. að leggja til að þessi frádráttur verði lagður niður? Ég slæ því alveg föstu að menn muni segja sem svo: Menn eiga að vera jafnir fyrir lögum. Menn eiga að vera jafnir fyrir skattalögum sér í lagi. Það eiga að gilda almennar samræmdar reglur um það að öllu jöfnu. Það þurfa að vera einhver sérstaklega veigamikil rök fyrir því að breyta frá því. Staðreyndin er sú að þessu verður nú samt sem áður ekki breytt t.d. með flutningi einnar tillögu á Alþingi. Til þess þarf að ná fram samstöðu. Þannig að ef spurningin er þessi: Er hv. þm. sá sem hér stendur að setja fram tillögu um að leggja þetta af hér og nú við afgreiðslu fjárlaga, þá er svarið nei. Ella mundi það vera í okkar tillögu. En það má spyrja á móti: Er það sjónarmið hv. þm., er það sjónarmið stjórnarflokkanna, er það sjónarmið meiri hlutans að við eigum að mismuna stéttum og starfshópum eða koma fram einhverjum sérstökum fjárhagslegum stuðningi í gegnum skattkerfið með þessum hætti? Er þetta þá besta aðferðin til þess? Eru einhver sérstök rök til þess?

Að því er varðar tölur hans um skatta á sjávarpláss þá er þetta blekkingariðja. Við flytjum hérna tillögu um sértekjur í ríkissjóð, afar lága upphæð. Hv. þm. veit það kannski betur en ég hversu háum fjárhæðum, mörgum milljörðum viðskipti með veiðiheimildir nema nú þegar. Þetta eru viðskipti með veiðiheimildir sem ríkið hefur úthlutað ókeypis. Þessi tillaga er einungis um lítið brot af þeim gríðarlegu viðskiptum sem þegar fara fram á veiðiheimildum, á sameign þjóðarinnar.