Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:38:55 (1978)

1995-12-15 11:38:55# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:38]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það ber enga nauðsyn til þess að leggja fram sérstakt frv. til að kveða á um sértekjur til Fiskistofu af þessu tagi. Fyrir því eru ótal fordæmi. Hv. þm. ætti að gefnu tilefni að beina sínum spurningum sérstaklega til flokksbróður síns, hæstv. fjmrh. vegna þess að hann er helsti talsmaður þessarar aðferðar og hefur flutt innblásnar og sannfærandi ræður um það þetta sé rétt að gera, þetta skilji hann og þetta sé raunverulega í samræmi við grundvallarsjónarmið sjálfstæðismanna um að framfylgja grundvallarreglunni um kostun. Þ.e. að fyrir þá þjónustu sem ríkið lætur í té skuli koma eitthvað. Þegar um er að ræða þjónustugjöld á almenning hefur ekki skort á stuðning sjálfstæðismanna við þau. Þeir hafa farið með ræðuna sem er að vísu ekkert óskynsamleg um að það þurfi að koma inn kostnaðarhugtaki, það þurfi að koma inn kostnaðaraðgát. Menn þurfa að fá að vita um það hvaða verðmætum er verið að úthluta sem ævinlega eru vanmetin ef þau eru ókeypis. Þannig að hv. þm. ætti nú bara að snúa sér beint til hæstv. fjmrh. og spyrja hvort þetta sé ekki stefna þeirra sjálfstæðismanna og raunar hvernig hæstv. fjmrh. ætlar sér að koma þessu máli fram því yfirlýst er að hann er ekki bara stuðningsmaður heldur forgöngumaður fyrir því að þetta komi fram. Enda hef ég ekki heyrt neitt frá honum enn þá. En það á eftir að heyrast.