Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 12:15:07 (1986)

1995-12-15 12:15:07# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[12:15]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Örstutt athugasemd. Það er alveg þveröfugt, þ.e. ef þessu afnotagjaldi er ekki komið á fyrir nýtingarréttinn mun hefðarrétturinn verða sá í krafti ókeypis útlutunar að nýtingarréttur og eignarréttur rennur saman. Það verður að dómapraxís þannig að ókeypis úthlutun verður eignfærð, hún verður afskrifuð, hún verður leigð, hún verður keypt, hún verður erfð, og þegar svo er komið er munurinn á afnotarétti og eignarrétti orðinn enginn í praxís. Það er algjörlega nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir þetta að það sé skýrt. Þetta er sameign, þetta eru fémæti sem er úthlutað. Fyrir nýtingarréttinn skulu menn greiða gjald sem staðfestir að aldrei er verið að afsala eignarrétti almennings á auðlindinni, aldrei, sem er grundvallaratriði sem við hljótum að vera sammála um.

Hvað það varðar að þetta leysi ekki allan vanda hljótum við bara einfaldlega að vera sammála um það. Veiðileyfagjaldið á ekki að leysa annan vanda en þann sem því er ætlað að leysa, nefnilega að menn greiði þjóðinni fyrir að hafa fengið afhent gríðarlega verðmæt fémæti. Hvort núverandi kvótakerfi nær sínum markmiðum, hagkvæmni o.s.frv.? Ég ætla ekki í andmælum að fara að ræða fiskifræði nema að taka það fram að ég ber svona hæfilega mikla virðingu fyrir þeim vísindum.