Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 12:16:46 (1987)

1995-12-15 12:16:46# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[12:16]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Gengisskráningin er aðferð okkar við að ákveða samkeppnisskilyrði og rekstrarskilyrði fiskveiðanna í landinu. Það er grundvallaratriði sem menn þurfa að hafa í huga. Reyndar hefur það lengi verið þannig að ákvörðun gengis var eða gegndi svipuðu hlutverki og veiðileyfagjaldið virðist eiga að gegna að mati hv. þm. En hann setur dæmið rangt upp.

Annars vegar vil ég segja við hann: Það er rétt að það er siðlaust að láta þessa hluti ganga áfram, laukrétt, og það hefur alltaf verið okkar skoðun. Hins vegar er það svo að veiðileyfagjaldsupptakan er ekki eina lausnin á vandamálinu. Hann setur það upp þannig að annaðhvort muni siðleysið halda áfram eða lagt verður á veiðileyfagjald. Ég segi: Veiðileyfagjaldið dugir ekki til að stöðva siðleysið en ég segi líka: Núverandi kvótakerfi verður að breyta. Það er óþolandi eins og það er, m.a. hvernig menn umgangast náttúruauðlindir okkar. Auðvitað getum við rætt það í heildarsamhengi, m.a. út frá því hvort við eigum að vera með heildarauðlindaskatt á alla hluti þannig að þegar menn taka af auðlindum Íslendinga, hverjar sem þær eru, þá greiði menn peninga fyrir það. Það er hins vegar mál sem ég hygg að sé enn þá flóknara að ræða í andsvarstíma en jafnvel veiðileyfagjaldið og er þá langt til jafnað, hæstv. forseti.