Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 12:18:23 (1988)

1995-12-15 12:18:23# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[12:18]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég segi eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði áðan að það er eiginlega ekki andsvar sem ég ætla að koma á framfæri, miklu heldur þakkir til hv. þm. fyrir mjög málefnalega ræðu. Hjá honum kom fram, sem hefur komið fram áður og er mjög mikilvægt, að samstaða er um að hallarekstri á ríkissjóði skuli hætt. Þetta er spurning um aðferðir, um leiðir, og er mikið vandaverk. Því hef ég nú þegar áttað mig á.

T.d. heilbrigðis- og tryggingakerfið sem kostar óskaplega mikla peninga. Talað er um að ekki eigi að skattleggja þá sem eru veikir. Hvað þýðir það? Auðvitað er margt sem kostar peninga í heilbrigðiskerfinu. Erum við þá að tala um að allt eigi að vera ókeypis? Það eigi að vera ókeypis að fara til sérfræðings, vitjanir séu ókeypis, lyf séu ókeypis, (Gripið fram í: Við borgum skatta.) þjónusta tannlækna sé ókeypis o.s.frv.? Eins og þetta er núna er flestallt sem lýtur að heilbrigðiskerfinu farið að kosta peninga nema að liggja á sjúkrahúsi. Þess vegna var það að ég vildi skoða möguleikann sem settur var fram í fjárlagafrv. að setja á einhvers konar samræmingargjöld innan sjúkrahúsanna, að líka kostaði eitthvað að liggja sem venjulegur sjúklingur á sjúkrahúsi. Síðan fékk þetta gjald nafnið innritunargjöld og búið er að ákveða að það verði ekki tekið upp að sinni að minnsta kosti. En mér finnst þetta vera grundvallarspurning sem við þurfum að velta fyrir okkur og hafa einhver svör við. Er eðlilegt að það sem er dýrast í heilbrigðiskerfinu, að liggja inni á sjúkrahúsi, eigi endilega að vera alveg ókeypis? Dýrast nema með undantekningartilfellunum, svokölluðum ferliverkum, sem er svo aftur spurning hvort hafa lagastoð.