Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 13:42:21 (1997)

1995-12-15 13:42:21# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[13:42]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt að viljann til samstarfs vanti hjá stjórnendum þessara sjúkrahúsa. Það hef ég aldrei nokkurn tíma heyrt, síður en svo. Ég veit að undanfarna tvo mánuði hefur innan stjórnarnefndar Ríkisspítala verið mikið rætt um að auka þurfi samstarfið á milli sjúkrahúsanna. Við erum með samstarfsnefnd sjúkrahúsanna í Reykjavík en hún nær ekki yfir Reykjanes. Ég var hins vegar að tala um að ef setja á eina stjórn yfir þessar sjúkrastofnanir hlýtur að þurfa lagabreytingu til. Það er rétt sem hv. þm. sagði, hlutverk Ríkisspítalanna er skilgreint samkvæmt lögum. Hér er um háskólasjúkahús að ræða. Hins vegar hefur stöðugur flatur niðurskurður og aðferðirnar sem hefur verið beitt í sparnaði, eins og Ríkisspítölunum hefur verið gert að spara á undanförnum árum, gert að verkum að Ríkisspítalarnir geta ekki lengur sinnt hlutverkinu sem þeir eiga að sinna samkvæmt lögum. Þá þarf að breyta lögunum ef hlutverkið á að breytast. Ég fór nákvæmlega yfir það áðan hvað sparnaðurinn hefur þýtt fyrir hverja deild, sem er ákvörðun sem tekin er af stjórnendum Ríkisspítala.