Vatnalög

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 14:26:23 (2013)

1995-12-15 14:26:23# 120. lþ. 66.3 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[14:26]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir ræðu ráðherra liggur málið nokkuð ljóst fyrir. Heimildin mun vera þannig að hún nær til sumra sem eru tekjulágir en ekki allra. Þ.e. þeirra sem eru tekjulágir og jafnframt eru ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar. Það er auðvitað pólitísk afstaða. Ég hef látið það koma fram að ég vil ganga lengra. Ég vil að heimildin verði altækari, miðist við efnahag í ríkari mæli en frv. gerir ráð fyrir. Ég er hins vegar ekki ósammála því að gera þessa breytingu frá þeim lögum sem nú er. En ágreiningurinn liggur í því milli mín og hæstv. ráðherra og fleiri þingmanna hér að ég vil ganga lengra.

Ráðherrann spurði: Hvar eiga tekjumörkin að liggja og taldi að þar sem erfitt væri að svara þeirri spurningu væri ekki fært að taka upp almennari athugun málsins en gert er ráð fyrir í frv. Nú vill svo til að frv. gerir ráð fyrir því að einhver meti tekjurnar sem eiga að vera mörkin til þess að heimildinni verði beitt. Og ég spyr ráðherran: Hvar liggja mörkin í þessu frv.?