Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:21:16 (2029)

1995-12-15 17:21:16# 120. lþ. 66.9 fundur 205. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (breyting grunngjalda, áfengisinnflutningur o.fl.) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:21]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í annað skipti sem ég nota þetta tækifæri til þess að nýta heimild til andmæla til þess að koma á framfæri meðmælum. Ég get einfaldlega ekki staðist freistinguna að nota tækifærið til þess að lýsa mig sammála hv. 4. þm. Norðurl. e., í og með vegna þess að það gerist allt of sjaldan.

Hvað er það sem við erum svona sammála um? Við erum sammála um að hér hafi hann nefnt dæmi um geðþóttalega ákvörðun um allt of mikla gjaldtöku fyrir eðlilega þjónustu. Hún er reyndar svo háspennt að hún er líkleg til þess að drepa gullgæsina sem á að verpa eggjunum, þ.e. að koma í veg fyrir viðskiptin. Svona dæmi um ofurtollaaðferð núv. ríkisstjórnar til að koma í veg fyrir viðskiptin með landbúnaðarafurðir.

Það er afar athyglisvert, virðulegi forseti, að þessi viðvörunarorð skuli koma frá formannskandidat Alþb. og studd af formanni Alþfl. Síðan er því við að bæta að slík viðleitni í hv. efh.- og viðskn. er rauði þráðurinn í starfi nefndarinnar. Þar sitja ágætir menn og eiga það eiginlega sameiginlegt að vilja framkvæma lúsarleit í löggjöf og reglum til þess að reyna að hreinsa út úr löggjöfinni bírókratískar reglur sem eru raunverulega hindrun á eðlilegri starfsemi atvinnufyrirtækja, hvort heldur er í eftirlitsiðnaðinum, gjaldtöku af þessu tagi o.s.frv.

Nú er það svo að í því máli sem hér er á dagskrá var viðleitni nefndarinnar að lækka þessa gjaldtöku. E.t.v. hafa skrefin sem stigin hafa verið í þá átt verið of varfærnisleg, e.t.v. þarf að ganga lengra. En það er gott að hafa það að leiðarljósi í nefnd sem fjallar um svo mikið af löggjöf upprunna frá framkvæmdarvaldinu sem hefur sem meginmælikvarða á starfsemi sína að koma í veg fyrir oftöku gjalda sem eru hindrun í starfi fyrirtækja og atvinnulífi.