Tryggingagjald

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:33:34 (2033)

1995-12-15 17:33:34# 120. lþ. 66.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá 1. minni hluta efh.- og viðskn. Hann skipum við hv. þm. Ágúst Einarsson og ég.

Við leggjumst gegn þessu frv. Þetta frv. er hluti af stefnu hæstv. ríkisstjórnar eins og hún birtist gagnvart almenningi nú í þessum frumvörpum, um tryggingagjald, um tekju- og eignarskatt í fjárlagafrv. o.s.frv. Þar eru meira og minna samhangandi tillögur á ferð sem m.a. einkennast af því að margs konar tryggingar og öryggi sem fólk hefur búið við í þessu kerfi, til að mynda atvinnulausir og elli- og örorkulífeyrisþegar, er nú tekið í burtu. Þá er rétt að hafa í huga að ekki var gerð grein fyrir því á sínum tíma þegar aðilar vinnumarkaðarins gerðu almenna kjarasamninga á sl. vori að fjármögnun skattfrelsis lífeyrissjóðsiðgjalda yrði með þessum hætti sem hér er lagt til. Þannig er líka að þessu máli staðið að við fulltrúar minni hlutans treystum okkur ekki til að veita því brautargengi. Umsagnir allra aðila sem til efh.- og viðskn. komu voru neikvæðar í garð þessa frv., að vísu af nokkuð mismunandi ástæðum að segja má. Að sjálfsögðu eru talsmenn atvinnulífsins ekki hrifnir af neins konar álögum eða sköttum sem á þeirra starfsemi eru lagðir eins og skiljanlegt er. En það gildir einnig um forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar að þeir mæltu ekki með afgreiðslu þessa frv. og töldu það ekki vera í þeim anda sem ráð hafði verið fyrir gert að yrði varðandi framkvæmd eða efndir á yfirlýsingum stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga.

Það er svo, herra forseti, að afnám verðtryggingar eða viðmiðana af hvaða tagi sem er gengur eins og rauður þráður í gegnum efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar við afgreiðslu mála á haustþingi. Staðreyndin er sú að þessi aðferðafræði hefur í raun ekkert með afnám sjálfvirkni í ríkisrekstri að gera eins og hún er hér fram sett eða greinilega hugsuð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar heldur er hér fyrst og fremst á ferðinni, eins og dæmin sanna, aðferð hæstv. ríkisstjórnar til að koma aftan að launamönnum og skerða kjör þeirra og draga úr því öryggi sem þeir hafa búið við. Um það vitna m.a. áformin í fjárlagafrv. eins og það var fram lagt að nota þessa aðferð þegar á fyrsta ári til að skerða sérstaklega atvinnuleysisbætur og elli- og örorkulífeyri. Við erum í minni hlutanum algjörlega andvíg þessum áformum, þessari stefnu hæstv. ríkisstjórnar, og greiðum því atkvæði gegn frv. á þeim forsendum.

Auðvitað má einnig benda á að hæstv. ríkisstjórn er í verulegri mótsögn við sjálfa sig eins og hún stendur að málum. Annars vegar leggur hæstv. ríkisstjórn að sögn mikla áherslu á að ná hér hallalausum fjárlögum en hins vegar gefur svo ríkisstjórnin út víxla í sambandi við kjaramál sem kosta miklar fjárhæðir úr ríkissjóði. Og það væri nú sök sér ef ríkisstjórnin hæstv. væri svo ekki í þriðja lagi bundin í báða skó sökum þess að stjórnin vill ekki leggja á neina skatta. Hver getur þá útkoman orðið önnur en sú að þetta tvennt birtist sem mótsögn í stefnu hæstv. ríkisstjórnar, eitt rekur sig á annars horn. Það kemur að sjálfsögðu á daginn að þessi framganga ríkisstjórnarinnar kallar á kvalræði og vandamál við afgreiðslu ríkisfjármála.

Herra forseti. Ég vil síðan láta það koma fram að þótt ég leggist gegn þessu frv. og telji reyndar að tryggingagjaldið sem slíkt sé að mörgu leyti gallaður tekjustofn til þeirra verkefna sem það þó rennur og eru þörf og brýn þá er það auðvitað ekki að öllu leyti heppileg aðferð við að skattleggja atvinnulífið eða láta það taka eðlilegan og sanngjarnan þátt í rekstri samfélagsins sem því að sjálfsögðu ber að gera. Ég er þeirrar skoðunar að það sé heppilegra til að mynda að hafa tekjuskatt fyrirtækja þannig að hann skili meiri tekjum og það sé frekar reynt að skattleggja hagnað fyrirtækjanna eins og hann er eftir eðlilegar heimildir til að draga frá vegna fjárfestinga eða fyrninga o.s.frv. Þess vegna er andstaða mín við þetta frv. í reynd ekki byggð á því að ég sé andvígur því yfir höfuð að fyrirtækin eða atvinnulífið sé látið borga eðlilega í sameiginlega sjóði heldur vegna þess hvernig að þessu máli er staðið og hvernig kringumstæður þess eru og tengsl við efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar.

Þetta, herra forseti, er í megindráttum það sem ég hef að segja fyrir hönd okkar í minni hlutanum um málið. Ég vísa að öðru leyti í nál. okkar á þskj. 393.