Vatnalög

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 19:16:16 (2044)

1995-12-15 19:16:16# 120. lþ. 67.3 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur


[19:16]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Mál þetta var til 2. umr. fyrr í dag og eins og þingheimur eflaust man enn, þá fjallar það um að setja í vatnalög heimild til sveitarstjórna til þess að lækka eða fella niður álagt holræsagjald á efnalitla örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega.

Eins og umræðan og atkvæðagreiðslan við 2. umr. leiddi í ljós er þingheimur sammála því að verða við þessari málaleitan en ég vil árétta þau sjónarmið sem ég setti fram í því að ég tel að þingið eigi að veita rýmri heimildir til sveitarstjórna til að ívilna fátæku fólki en um hefur verið beðið.

Því hef ég leyft mér á þskj. 397 að leggja til að breyta efnismálsgrein 1. gr. frv. á þann veg að heimild sveitarstjórna nái til þess að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum greiðendum er gert að greiða. Verði þessi tillaga samþykkt felur hún þá í sér heimild sem er nú í frv. auk þess sem sveitarstjórnum verður þá heimilt að lækka eða fella niður umrætt gjald hjá fólki sem er sannarlega efnalítið eða fátækt þótt það sé ekki ellilífeyrisþegar og þótt það sé ekki örorkulífeyrisþegar. Þar má nefna sem dæmi sjúklinga eða fólk á miðjum aldri sem af einhverjum ástæðum er efnalítið og því full ástæða til að veita því sömu ívilnun og hinum hópnum.

Ég tel, virðulegi forseti, ekki ástæðu til þess að Alþingi afmarki eða takmarki heimildir sveitarstjórna til ívilnandi aðgerða til handa fátæku fólki við ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega einvörðungu, heldur hafi heimildina rýmri eins og eðlilegt er samkvæmt eðli málsins.