Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 10:32:00 (2048)

1995-12-16 10:32:00# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., Frsm. meiri hluta StG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[10:32]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tala fyrir nál. um frv. til laga um viðaukasamning milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza um álbræðslu við Straumsvík.

Iðnn. hefur fjallað allítarlega um þetta mál og rætt við ýmsa aðila. M.a. komu til nefndarinnar, Halldór J. Kristjánsson, skrifstofustjóri í iðnrn., Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhvrn., Helga Jónsdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Halldór Jónatansson, forstjóri Landsvirkjunar, Jóhann Már Maríusson, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Agnar Olsen, framkvæmdastjóri verkfræði- og framkvæmdasviðs Landsvirkjunar, Elías B. Elíasson, deildarstjóri þróunarmála hjá Landsvirkjun, Kristján Gunnarsson, yfirmaður fjárhags- og hagmála hjá Landsvirkjun, Stefán Pétursson deildarstjóri fjármála- og markaðsdeildar Landsvirkjunar, Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Baldur Guðlaugsson, lögmaður Landsvirkjunar, Yngvi Harðarson, hagfræðingur Landsvirkjunar, Gylfi Ingvarsson, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna Ísals, og Einar Guðmundsson og Rannveig Rist frá Ísal.

Þá hittum við frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar fulltrúa bæjarstjórnar, þá Ingvar Viktorsson, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Jóhann G. Bergþórsson, Valgerði Sigurðardóttur, Magnús Jón Árnason, Guðmund Benediktsson og Eyjólf Sæmundsson. Auk þess mætti Eyjólfur á annan fund iðnn. fyrir hönd Vinnueftirlits ríkisins. Þá kom Jón Erlingur Jónasson, varaformaður stjórnar Hollustuverndar ríkisins, og Ólafur Pétursson frá Hollustuvernd á fund nefndarinnar. Einnig bárust að ósk iðnn. umsagnir efh.- og viðskn. og umhvn. um skattalegar hliðar málsins og umhverfisþætti þess, auk gagna sem gestir lögðu fram.

Iðnn. fór einnig og heimsótti álverið í Straumsvík og ræddi þar við forsvarsmenn þess og kynnti sér starfsemi fyrirtækisins eins og tími vannst til. Einnig heimsótti iðnn. Landsvirkjun og átti þar mjög fróðlegan fund um orkumálin og þann orkusamning sem Landsvirkjun hafði gert um þetta mál. Fékk nefndin þar mjög greinargóð svör við öllum þeim spurningum sem við þurftum að fá svör við.

Auk þess sem að framan er talið fjallaði iðnaðarnefnd um málið á 119. þingi. Á fundi nefndarinnar 30. maí 1995 gerðu Halldór J. Kristjánsson og Geir A. Gunnlaugsson nefndinni grein fyrir stöðu álviðræðna og 19. júlí 1995 var haldinn sameiginlegur fundur iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra með iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd þar sem kynnt var mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda í álverinu í Straumsvík.

Með viðaukasamningi ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza, sem undirritaður var 16. nóvember 1995 og nú er borinn undir Alþingi til staðfestingar, er áætlað að auka framleiðslugetu álbræðslu Íslenska álfélagsins hf. (Ísals) í Straumsvík úr 100.000 árstonnum í alls 162.000 árstonn í árslok 1997. Til þess að unnt sé að ná því markmiði þarf að reisa nýjan kerskála til álvinnslu með 160 rafgreiningarkerum, auk annarra mannvirkja, svo sem þurrhreinsibúnaðar og viðbótar við álsteypuskála. Þá þarf einnig að bæta hafnaraðstöðu með byggingu nýs 100 m viðlegukants í Straumsvík. Hafnarfjarðarbær mun annast bygginguna sem á að vera lokið áður en rekstur hefst í fyrirhuguðum kerskála. Ísal greiðir kostnað af gerð hafnaraðstöðunnar en verður undanþegið greiðslu vörugjalda fyrir útflutning af áli um það sem nemur framleiðsluaukningu vegna stækkunar fram til 1. október 2014. Stækkun álbræðslunnar leiðir til þess að öll umframorka í raforkukerfi Landsvirkjunar, um 730 gwst. í árslok 1997, fullnýtist auk þess sem ráðast þarf í frekari framkvæmdir til orkuöflunar. Með samningnum um stækkun Ísals er leitast við að gera skattaumhverfi álversins sem líkast því sem önnur fyrirtæki á Íslandi búa við. Vegna viðaukasamningsins hefur fyrirtækið nú fengið útgefið starfsleyfi á grundvelli íslenskra laga en fram til þessa hafa ákvæði um mengunarvarnir og umhverfismál verið hluti af aðalsamningi.

Eftir nokkurra ára stöðnun í uppbyggingu stóriðju og litlar erlendar fjárfestingar er nauðsynlegt að kanna fyrst hvaða áhrif mætti ætla að viðaukasamningurinn hefði á þjóðarhag. Fjárfesting eykst væntanlega á næstu tveimur árum um 14 milljarða kr. vegna stækkunar álversins og hafnaraðstöðu en um 3 milljarða kr. vegna fjárfestingar í raforkumannvirkjum, eða um 10--11% frá því sem orðið hefði að óbreyttum horfum. Rúmlega þriðjungur þessarar eftirspurnar, um 4,5 milljarðar kr., fer væntanlega til innlendra aðila og væntir meiri hluti nefndarinnar þess að íslensk fyrirtæki geti boðið í sem flesta verkþætti. Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu árið 1996 hækkar um 1,5% og árið 1997 væntanlega um 1,8% og verður þá í heild 18,5%, en talið er æskilegt að hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu sé nálægt 20% til að standa undir væntanlegum hagvexti á næstu árum.

Hér er um að ræða stærstu fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi síðan álverið var upphaflega byggt.

Ársverk vegna framkvæmdanna verða á bilinu 800--900 og er áætlað að eftirspurn verði mest vorið 1997. Stækkun álversins mun auka byggingarstarfsemi um 3--4% árin 1996 og 1997 en þar hafa framleiðsluþættir verið vannýttir að undanförnu og er tímasetning framkvæmdanna því hagkvæm frá þjóðfélagslegu sjónarmiði að mati Þjóðhagsstofnunar. Um 90 varanleg störf munu skapast í Straumsvík vegna stækkunarinnar, 72 hjá Ísal og 18 við verktöku. Á undanförnum árum hefur Ísal leitast við að hagræða í rekstri sínum og hefur starfsmönnum fækkað verulega. Framleiðni í fyrirtækinu hefur aukist verulega og nemur álframleiðsla á þessu ári um 230 tonnum á hvern starfsmann. Byggðastofnun telur að fyrir hvert starf í álverinu skapist 2,6 störf utan þess, aðallega í þjónustu, verslun eða iðnaði, vegna margfeldisáhrifa og varanleg heildaraukning verði því um 324 ársverk, einungis vegna stækkunarinnar. Þegar stækkun álversins er lokið er gert ráð fyrir að heildarfjöldi starfsmanna í Straumsvík verði um 530 manns. Með hliðsjón af framangreindum margfeldisáhrifum má segja að eftir stækkun álversins hafi orðið til hér á landi um 1.900--2.000 störf vegna starfsemi Ísals, ef á heildina er litið.

Lauslegar áætlanir Þjóðhagsstofnunar benda til þess að hagvöxtur árið 1996 verði 0,7% meiri en ella, að viðskiptajöfnuður verði 1% lakari en ella, að verðbólga og kaupmáttur launa verði óbreytt og að atvinnuleysi verði 0,3% minna en ella. Þá má búast við að með stækkun álversins aukist útflutningur um 6,6--8 milljarða kr. á ári, eða sem nemur 3,7--4,4% af útflutningi vöru og þjónustu. Ekki er unnt að gera tæmandi talningu á áhrifum stækkunarinnar á þjóðarhag, en í nýrri endurskoðuðun þjóðhagsspár vegna lokaafgreiðslu fjárlaga, sem er væntanleg innan skamms, verður tekið tillit til stækkunarinnar. Meiri hluti iðnn. telur að með vísan til þess sem að framan er greint og út frá þjóðhagslegum ávinningi hnígi öll rök til þess að viðaukasamningur ríkisstjórnarinnar og Alusuisse- Lonza um álbræðslu við Straumsvík verði staðfestur.

Veigamikil forsenda fyrir viðaukasamningnum, sem nú er lagður fram til staðfestingar, er samningur Landsvirkjunar og Ísals um breytingar á orkusölusamningi til álversins. Var viðauki við samninginn undirritaður 16. nóvember 1995. Stjórn Landsvirkjunar telur þörf á að viðskiptaleynd hvíli yfir orkusölusamningum við einstaka stórnotendur og ályktaði að það gæti verið til þess fallið að veikja samningsstöðu Landsvirkjunar að því er varðar orkusölu til stóriðju að viðsemjendur fyrirtækisins hefðu aðgang að verðákvörðun áður gerðra orkusölusamninga. Því samþykkti stjórnin að viðskiptaleynd skyldi hvíla yfir orkuverðsákvæði viðaukasamningsins við Ísal. Iðnaðarráðherra féllst á framangreind sjónarmið Landsvirkjunar og því hefur ekki verið skýrt opinberlega frá orkuverðinu sjálfu. Á fundi með iðnaðarnefnd gerði Landsvirkjun grein fyrir öllum þáttum orkusölusamningsins, einnig orkuverðinu sem trúnaðarmáli. Hjá nokkrum nefndarmönnum í iðnaðarnefnd komu fram efasemdir um réttmæti þeirrar ákvörðunar að viðskiptaleynd hvíldi yfir orkuverði, en meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við þá málsmeðferð.

[10:45]

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerir sérstakan fyrirvara um þetta mál sem hún mun tala fyrir á eftir í ræðu sinni.

Fram kom í máli stjórnarformanns Landsvirkjunar að erlendis hvíli almennt viðskiptaleynd yfir orkusölusamningum í áliðnaði og að slíkt færðist í vöxt hvað varðar orkusölusamninga yfirleitt. Landsvirkjun ætti nú í könnunarviðræðum við aðra aðila um orkuverð en Ísal, eða að slíkar viðræður væru fyrirhugaðar, og því væri talið mikilvægt að meðal annars þeir aðilar gætu ekki fengið staðfestar upplýsingar frá fyrirtækinu um orkuverð í nýgerðum samningi við Ísal. Rétt er einnig að benda á að ályktun stjórnar Landsvirkjunar um viðskiptaleynd nær aðeins til orkusölusamningsins við Ísal en hefur ekki almennt gildi.

Iðnaðarnefnd hefur kynnt sér alla þætti samningsins um orkuverð milli Landsvirkjunar og Ísals sem Landsvirkjun telur mjög hagstæðan sér. Samkvæmt útreikningum Landsvirkjunar verður núvirtur hagnaður af viðaukanum við orkusölusamninginn um 8 milljarðar kr. miðað við grundvallarforsendur og um 80% líkur á því að arðsemi af nauðsynlegum fjárfestingum Landsvirkjunar vegna viðaukans verði 15% eða meira og nánast engar líkur á því að fjárfestingin skili minni arði en 5,5%. Meiri hluti iðnn. tekur undir það mat iðnaðarráðherra að samningurinn uppfylli skilyrði laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, þ.e. hann valdi ekki hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið. Þvert á móti gerir Landsvirkjun ráð fyrir að orkuverð til almenningsveitna muni lækka til lengri tíma litið fyrir áhrif samningsins.

Mikilvægt er að hafa í huga að raforkukerfi Landsvirkjunar hefur ekki verið fullnýtt og getur framleitt verulega orku sem í dag er skilgreind sem umframorka. Samkvæmt gildandi raforkusamningi skal Landsvirkjun sjá álverinu fyrir 1.413 gwst. á ári, þar af 106 gwst. sem afgangsorku, auk samnings um 223 gwst. af ótryggu rafmagni á ári til ársins 1997. Samkvæmt nýgerðum orkusölusamningi ber Landsvirkjun að sjá álverinu fyrir 2.583 gwst. á ári eigi síðar en 1. janúar 1998. Aukningin, 1.170 gwst. á ári, samanstendur annars vegar af viðbótarorkuþörf Ísals vegna stækkunarinnar, 947 gwst. á ári, og hins vegar hefur framangreindur samningur um ótryggt rafmagn verið felldur inn í samninginn. Einnig er umsamið að Ísal geti óskað eftir því að árlegt samningsbundið rafmagn verði aukið um allt að 88 gwst. í tveimur áföngum, árin 1999 og 2000. Talið er að um 730 gwst. af forgangsorku verði til reiðu í raforkukerfinu árið 1997 en til þess að útvega það sem á vantar og anna orkuþörf almenningsveitna fram til aldamóta þarf að ráðast í eftirtaldar virkjunarframkvæmdir: Stækkun Blöndulóns, fimmta áfanga Kvíslaveitu og 35 mw. aflaukningu í núverandi Búrfellsstöð auk þess sem settir verða upp raðþéttar í háspennulínur. Samkvæmt núgildandi orkusölusamningi ber Ísal að greiða að lágmarki fyrir 1.110 gwst. á ári enda þótt orkuneysla ársins kunni að hafa verið minni, en með nýgerðum samningi mun lágmarksmagnið hækka í 2.006 gwst. á ári. Nýti Ísal rétt sinn til að fá allt að 88 gwst. aukningu á árlegu samningsbundnu rafmagni eykst lágmarksmagnið um 0,765 gwst. fyrir hverja gwst. til viðbótar. Samningnum er ætlað að gilda til ársins 2014, en eftir það er gagnkvæm heimild til framlengingar um 10 ár til viðbótar og verða verðákvæði samningsins þá háð endurskoðun. Umsamið orkuverð til stækkunar álversins ræðst á hverjum tíma af verði áls á alþjóðamarkaði. Gert er ráð fyrir að í nokkur ár frá upphafi samningstímabilsins verði í gildi afsláttur á orkuverði til stækkunarinnar. Árið 2004 mun núgildandi orkuverð til tveggja eldri kerskálanna falla úr gildi, en frá þeim tíma gildir fyrir allt álverið það orkuverð sem nú hefur verið samið um.

Viðaukasamningurinn, sem hér er til umfjöllunar, gerir ráð fyrir töluverðum breytingum á þeim skattareglum sem gilt hafa um Ísal. Felast þær breytingar fyrst og fremst í því að gera skattaumhverfi álversins sem líkast því sem önnur fyrirtæki á Íslandi búa við. Þannig verður horfið frá stighækkandi skattþrepi, á bilinu 35 -- 55%, yfir í sama skattþrep og gildir um íslensk hlutafélög, þ.e. 33%. Álverið í Straumsvík hefur að meira eða minna leyti verið rekið með tapi á undanförnum árum. Reksturinn hefur því skilað litlum tekjuskattsgreiðslum í ríkissjóð umfram lágmarksframleiðslugjald. Þar sem álverð hefur hækkað mikið nú á allra síðustu árum og gert er ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á næsta ári má búast við verulegum tekjuskattsgreiðslum vegna áranna 1995 og 1996. Ólíklegt er að fyrirtækið greiði tekjuskatt á afskriftartíma meginhluta fjárfestingarinnar, þ.e. frá 1997 og næstu sjö ár þar á eftir. Hins vegar er gert ráð fyrir verulegri hækkun tekna af tekjuskatti miðað við 160.000 tonna framleiðslu eftir þann tíma. Samkvæmt núgildandi samningi er það fastagjald sem Ísal greiðir af framleiðslu sinni að lágmarki 20 Bandaríkjadalir á hvert útskipað tonn af áli og viðbótarframleiðslugjald ef hagnaður gefur tilefni til. Samkvæmt hinum nýja samningi lækkar lágmarksgjaldið í 10 Bandaríkjadali á hvert tonn og verður jafnframt aðeins frádráttarbært frá tekjum sem rekstrarkostnaður í stað þess að vera frádráttarbært frá tekjuskattsgreiðslum. Helsta breytingin frá núverandi fyrirkomulagi er því að lágmarksgjaldið lækkar í 10 Bandaríkjadali fyrir hvert útflutt tonn frá og með 1. janúar 1998 og í stað stighækkandi skattþreps kemur eitt 33% skattþrep sem tekur gildi frá og með 1. janúar 1995. Miðað við gefnar forsendur um álverð er gert ráð fyrir að hagnaður verði af rekstri Ísals á árunum 1995 til og með 1997 eða fram til þess tíma að stækkunin verður tekin í notkun.

Samningurinn gerir ekki ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær fái hlutdeild í tekjuskatti fyrirtækisins eftir 1. janúar 1998. Gert er ráð fyrir að hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldi á árunum 1995--1997 verði 28% í stað 18% nú og fastagjaldið hækki úr 250.000 Bandaríkjadölum í 500.000 Bandaríkjadali í samræmi við samkomulag milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs. Viðbótarhlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldi áranna 1995 og 1996 gæti því orðið á bilinu 40--80 millj. kr., en er þó alfarið háð afkomu Ísals. Frá 1. janúar 1998 er hins vegar gert ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær fái 6 Bandaríkjadali fyrir hvert tonn af útfluttu áli. Miðað við 160.000 tonna framleiðslu nemur þetta um 62 millj. kr. á ári. Þetta jafngildir fasteignagjaldi á lögðu með 0,80--0,85% stuðli eða sem svarar um 30% afslætti frá því fasteignagjaldi sem gildir í Hafnarfirði í dag.

Á fundi með bæjarstjórn Hafnarfjarðar komu fram upplýsingar um bréfaskipti Ísals og iðnaðarráðuneytisins annars vegar og bæjarins hins vegar um þróun byggðar í nágrenni álverksmiðjunnar frá nóvember og desember 1995. Meiri hlutinn lýsir ánægju með að frekari viðræður eigi sér nú stað á milli aðila um þessi mál.

Í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar til iðnaðarnefndar um skattaþátt viðaukasamningsins frá 4. desember 1995 segir: ,,Ljóst er að til lengri tíma litið mun hinn nýi viðaukasamningur þýða verulega auknar tekjuskattsgreiðslur Ísals í ríkissjóð vegna aukinnar framleiðslu og meiri hagkvæmni. Í raun mun fyrirtækið greiða sambærilega skatta í framtíðinni eins og ef það félli undir gildandi íslensk skattalög að frátalinni heimild til 10% arðsfrádráttar. Efnahags- og viðskiptanefnd gerir því ekki athugasemdir við afgreiðslu frumvarpsins.`` Á fund efnahags- og viðskiptanefndar komu Halldór J. Kristjánsson og Þorkell Helgason frá iðnaðarráðuneyti, Indriði H. Þorláksson frá fjármálaráðuneyti, Ólafur Kristinsson og Gunnar Sigurðsson frá Coopers \& Lybrand hf., Sveinn Hannesson og Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins og Jóhann Bergþórsson og Tryggvi Harðarson frá Hafnarfjarðarbæ. Meiri hlutinn tekur undir álit efnahags- og viðskiptanefndar á skattaþætti málsins.

Á liðnum árum hefur Ísal stöðugt bætt mengunarvarnabúnað sinn, nú síðast með rafstýrðum felliþekjum á rafgreiningarkerin sem takmarka opnunartíma keranna eins og unnt er og bæta þar með afköst þurrhreinsibúnaðar verksmiðjunnar. Hollustuvernd ríkisins telur árangurinn af þeim framkvæmdum umtalsverðan. Samkvæmt samningi við íslensk stjórnvöld frá árinu 1992 hafði Ísal heimild til 105.000 tonna ársframleiðslu áls en stækkun umfram það skyldi háð útgáfu starfsleyfis samkvæmt lögum og mati á umhverfisáhrifum. Ísal sótti um starfsleyfi til reksturs allt að 200.000 tonna álvers í Straumsvík og á grundvelli þeirrar umsóknar hefur nú verið gefið út starfsleyfi fyrir stækkun álversins í heild, að undangengnu lögbundnu mati á umhverfisáhrifum. Ef framleiðslugeta álversins verður aukin úr 170.000 tonnum í 200.000 tonn á ári ber að yfirfara og endurskoða það ákvæði leyfisins er fjallar um losun mengunarefna. Á fskj. I er að finna álit meiri hluta umhverfisnefndar til iðnaðarnefndar, en þar segir m.a.: ,,Það er því mikilvægur áfangi að nýútgefið starfsleyfi nær til allrar framleiðslu fyrirtækisins og fagnar nefndin því. Hér er um að ræða sérstakar aðstæður þar sem verið er að stækka álbræðslu sem þegar hefur starfað um árabil. Mikil vinna hefur verið lögð í gerð umhverfismats og starfsleyfis. Með starfsleyfinu, sem umhverfisráðherra hefur gefið út, er tryggt að allar þær kröfur, sem gerðar eru til umhverfisverndar í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, sbr. 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, séu uppfylltar. Gerir meiri hluti nefndarinnar því ekki athugasemdir við afgreiðslu frumvarpsins.`` Álit minni hluta umhverfisnefndar er meðfylgjandi á fskj. II. Meiri hluti iðnaðarnefndar tekur undir álit meiri hluta umhverfisnefndar á umhverfisþáttum málsins.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerir fyrirvara vegna umhverfisþáttar málsins og mun hún skýra það hér á eftir í máli sínu.

Meiri hluti nefndarinnar telur einnig æskilegt að umhverfisyfirvöld kanni í samvinnu við Ísal hvernig minnka megi hljóðmengun frá súrálsuppskipun í Straumsvík.

[11:00]

Nokkur umræða varð í iðnn. um alþjóðlegar skuldbindingar Ísals varðandi loftmengun. Stækkun álversins í Straumsvík brýtur ekki í bága við neinar slíkar skuldbindingar. Hins vegar kann það að vera sérstakt athugunarefni fyrir stjórnvöld hvernig beri almennt að takmarka útblástur koltvísýrings og brennisteinstvíoxíðs, með tilliti til alþjóðasamnings, án þess að það komi í veg fyrir að hinar hreinu orkulindir landsins verði nýttar til uppbyggingar atvinnu. Jafnframt telur meiri hluti nefndarinnar rétt að huga að frekari endurskoðun þeirra reglna sem gilda um mengunarvarnir með það fyrir augum að skilgreina eins og frekast er kostur mengunarmörk og önnur viðmið í umhverfismálum. Enn fremur er bent á að kanna má nánar samspil þeirra þátta sem teknir eru til athugunar við gerð mats á umhverfisáhrifum annars vegar og gerð starfsleyfis hins vegar, þannig að ekki sé verið að auglýsa og óska eftir athugasemdum hagsmunaaðila nema einu sinni um hvert efni.

Að lokum vill meiri hluti iðnn. taka fram að hann telur þörf á því að iðnrn. athugi sérstaklega hvernig auka megi úrvinnsluiðnað í tengslum við álverið og þá þjónustu sem þar er í boði.

Það er fagnaðarefni að í nýgerðum viðaukasamningi hefur Ísal nú heimildir til þess að reka hérlendis aðra starfsemi en beina álbræðslu, en stofnuð verði sérstök dótturfyrirtæki um slíka starfsemi sem lúta í hvívetna íslenskum skattalögum og verða háð ákvæðum laga um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri. Við Íslendingar verðum að kanna rækilega hvort ekki sé unnt að framleiða meira hérlendis af fullunnum vörum úr áli. Það er enginn efi í hugum okkar sem höfum kynnt okkur og fjallað um þessa starfsemi að þar leynast margvíslegir möguleikar. En svo er vissulega víðar í okkar ágæta landi að við mættum huga meira að úrvinnslu- og fullvinnsluþætti afurðanna.

Virðulegi forseti. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerir fyrirvara um einstaka þætti málsins og mun gera grein fyrir þeim á eftir eins og ég hef sagt. Einnig skilar hv. þm. Svavar Gestsson séráliti með þessu frv.

Undir nefndarálitið rita Stefán Guðmundsson, Pétur H. Blöndal, Árni R. Árnason, Guðjón Guðmundsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Hjálmar Árnason og Petrína Baldursdóttir. Jóhanna Sigurðardóttir skrifar undir með fyrirvara, eins og áður segir. Kristín Halldóttir sat einnig fundi iðnn., sem áheyrnarfulltrúi Kvennalistans.

Ég vil nota tækifærið og þakka meðnefndarmönnum mínum í iðnn. fyrir ágæt störf og vinnu við að ljúka þessu máli svo það kæmist til afgreiðslu fyrir jólaleyfi.

Ég vil í örfáum orðum, virðulegi forseti, víkja að því sem kemur fram í áliti minni hluta iðnn., hv. þm. Svavars Gestssonar, þar sem fjallað er um athugasemdir hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um umhverfisþátt þessa samnings, en í nefndaráliti minni hlutans segir m.a.:

,,Talsmenn Hollustuverndar ríkisins komu á fund iðnn. og svöruðu fyrirspurnum frá nefndarmönnum. Er skemmst frá því að segja að þeir staðfestu nær allar athugasemdir Hjörleifs.``

Það verður að koma fram, virðulegi forseti, að undir þetta sjónarmið er mér lífsins ómögulegt að taka. Ég held að hér hljóti að vera um mikið og alvarlegt misminni að ræða hjá hv. þm. og ég harma að jafnglöggur og góður þingmaður skuli hafa sett það á blað. Ólafur Pétursson, forstöðumaður Hollustuverndar ríkisins, kom á fund iðnn. og svaraði ágætlega þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar og snúa að langmestu leyti að athugasemdum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Um þetta geta allir nefndarmenn iðnn. vissulega borið vitni.

Í nefndaráliti minni hlutans segir einnig:

,,Að öllu samanlögðu er nauðsynlegt að endurvinna starfsleyfið og er það því ein aðalbrtt. okkar við frv. þetta. Með þessu er ekki varpað rýrð á starf þess fólks sem unnið hefur að málinu; því hafa hins vegar verið settar óeðlilegar pólitískar skorður að ekki sé fastar að orði kveðið.``

Mér finnst hv. þm. Svavar Gestsson vega ómaklega að þeim mörgu embættismönnum sem að málinu hafa unnið, vissulega um langan tíma. Um þessa fullyrðingu þarf ekki fleiri orð. Fskj. frv. leiða allt annað í ljós en hér er fullyrt. Með umhverfisþátt samningsins hefur verið farið nákvæmlega samkvæmt íslenskum lögum og því má bæta við að hér eru gerðar strangari kröfur hvað þessi mál varðar en almennt gerist í Evrópu.

Hv. þm. Svavar Gestsson víkur að því í minnihlutaáliti sínu og segir ljóst að álverinu hafi ekki tekist vel að koma sér fyrir í íslensku þjóðlífi. Það er áhyggjuefni ef álit hv. þm. er rétt. Ég dreg þó mjög í efa að svo sé nú. Að vísu er rétt að það er ekki ýkja langt síðan ótrúlega margir Íslendingar töldu að stóriðju skyldi varast. Þetta sjónarmið er á miklu undanhaldi og þó finnast vissulega enn efasemdarmenn á meðal okkar. Umhverfið er annað en fyrr. Nú höfum við þá þekkingu sem getur tryggt okkur að gengið sé örugglega frá samningum um stóriðjuver, bæði varðandi umhverfis- og viðskiptahlið slíkra samninga.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að umræðan sem hér fer fram geti orðið bæði ítarleg og umfram allt málefnaleg. Ég endurtek þakkir, virðulegi forseti, til meðnefndarmanna minna í iðnn. við afgreiðslu þessa máls.