Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 12:38:52 (2056)

1995-12-16 12:38:52# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[12:38]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða sem fallið hafa í umræðunni er rétt að taka fram að umhvn. hefur fjallað mjög ítarlega um málið á löngum tíma, bæði á sumarþingi og nú á haustþinginu og fengið á sinn fund alla þá sem koma að umhverfisþætti málsins. Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar er það aðalatriði hvað varðar umhverfisþátt að starfsleyfið, sem að mínu mati er mjög vel unnið, bæði hvað varðar mat á umhverfisáhrifum og undirbúning að útgáfu þess, er veitt á grundvelli íslenskra laga og uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru í mengunarvarnareglugerð.

Annað er að það kunna að vera skiptar skoðanir um hversu ítarlegar þessar reglur eru og hvort það þurfi að endurskoða þær en það getur ekki verið notað til að tefja afgreiðslu þessa máls. Þess vegna vísa ég því á bug að meiri hluti umhvn. hafi afgreitt málið á fljótfærnislegan hátt. Þvert á móti hefur verið farið mjög ítarlega yfir það.

Hvað varðar losun mengunarefna frá álverinu, þá lækkar í raun útblástur flúoríðs. Ársmeðaltal verður 1 kg á framleitt tonn af áli. Í því sambandi má benda á að frá 1968 hafa farið fram reglulegar mælingar á flúor á ákveðnum svæðum vegna starfsemi Ísals. Árin 1992--1994 hefur flúor í andrúmslofti mælst að meðaltali 0,1--0,2 míkrógrömm í rúmmetra. Þessu til viðbótar má nefna að mælt hefur verið flúor í gróðri og mælist það nú sambærilegt því sem það var áður en verksmiðjan tók til starfa.

Ég vil þá víkja nokkuð að ryklosuninni í örfáum orðum. Ryklosun er að ársmeðaltali 1,5 kg á tonn og brennisteinstvíoxíðlosun 21 kg á tonn af áli að hámarki. Aukning brennisteinslosunar er um 4 prósentustig þegar ekki er tekið tillit til háhitasvæða. Er það að mati sérfræðinga fyllilega ásættanlegt.

Hvað varðar vothreinsunarbúnað þá eru mjög skiptar skoðanir um gagnsemi hans og sumir sérfræðingar telja það beinlínis óæskilegt að beina brennisteininum öllum á takmarkað svæði á grunnsævi í stað þess að losa hann út í andrúmsloftið þar sem vindmælingar sýna að hann dreifist vel og yfirleitt að þremur fjórðu hlutum til hafs, þó á miklu stærra hafsvæði og með hverfandi áhrifum ef miðað er við vothreinsibúnað.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur tekið sérstaklega norsk álver sem dæmi þar sem gerð er krafa um vothreinsibúnað en reynsla hefur kennt okkur að taka ekki öllu sem gert er erlendis gagnrýnislaust heldur vega og meta hvern hlut út frá okkar eigin aðstæðum og mati. Niðurstaðan varðandi hávaðamengun er viðunandi og mælingar sýna að hávaðamengun er undir öllum viðmiðunarmörkum sem sett eru í mengunarvarnareglugerð. Íslenska álfélagið hefur sett sér stefnu í umhverfismálum og hefur lýst yfir eindregnum vilja fyrirtækisins til að ná sem bestum árangri í þeim málum. Fyrirtækið hefur að mati Hollustuverndar ríkisins náð umtalsverðum árangri á sviði mengunarvarna á undanförnum árum og því er ekki ástæða til þess að ætla að það muni gera annað en að halda áfram á sömu braut og leitast við að huga að umhverfinu eftir því sem það er á valdi þess. En ég tek þó undir þau orð sem hér hafa fallið að það er að sjálfsögðu okkar hlutverk, bæði þeirra sem hér eru og allra annarra að vera stöðugt á varðbergi gagnvart jafnstórtækum atvinnurekstri og hér er um að ræða.

Ég vil ítrekað vísa á bug gagnrýni minni hluta umhvn., það hefur ávallt verið vel tekið í óskir okkar um að fjalla um málið. Íslendingar eru að mínu mati umhverfissinnar og gera sér betur en margar aðrar þjóðir grein fyrir hversu lífsafkoma þjóðarinnar byggist á góðri umgengi við náttúru landsins og sjávar. Að sjálfsögðu er rétt að vera alltaf á varðbergi og endurskoða stöðugt afstöðu okkar og viðmið í mengunarvörnum. Það má fyllilega taka undir með þeim hv. þm. sem rætt hafa umhverfisþáttinn að umræðan er mjög mikilvæg og ég treysti því að hún verði höfð til hliðsjónar við umræðu þessa máls því að skoðanaskiptum um umhverfismál á Íslandi lýkur ekki með þessari umræðu á hv. Alþingi. Hér er hins vegar beinlínis til umfjöllunar starfsleyfi fyrir álverið í Straumsvík unnið af okkar hæfustu sérfræðingum. Að þeirra mati eru mengunarvarnir í Straumsvík fulnægjandi. Ég er sannfærður um að mat þessara manna er rétt og þrátt fyrir að um það kunni að vera skiptar skoðanir er algerlega óviðunandi að látið sé að því liggja að mál þetta hafi ekki verið unnið á hlutlægan og eðlilegan hátt af embættismönnum.

Í vinnu við þetta mál hefur umhyggja fyrir náttúru landsins verið höfð að leiðarljósi, hvort sem litið er til starfa embættismannanna eða þeirra sem hafa fjallað um það á Alþingi. Umhvn. hefur frá því að hún hóf fyrst störf með breytingu á þingsköpum 1991 látið sig mál þetta varða og lýsi ég mig reiðubúinn til þess að ræða almennt um mengunarvarnir og viðmiðunarmörk ef ósk um það berst til formanns umhvn. En ég áskil mér jafnframt þann rétt að mega styðja þá skoðun sem yfirgnæfandi hluti hæfustu manna á þessu sviði hefur.

[12:45]

Ég dreg þá saman þau atriði sem ég hef látið koma hér fram. Umhvn. var mjög vel undir það búin að fjalla um þá beiðni sem kom frá iðnn., þ.e. að veita umsögn um málið. Umhvn. var vel undir þetta búin vegna þess að hún hafði fjallað um þetta fyrst á fundi sem boðað var til af tveimur ráðuneytum og vegna þeirrar umræðu sem tekin var upp í nefndinni á síðsumri og hausti þar sem ítarlega var farið í gegnum alla þætti málsins. Þannig að þegar til umsagnarinnar kom, þó að okkur væri gefinn þar knappur tími, vorum við vel undirbúnir og bjuggum að því.

Ég vil líka láta koma fram að umræða í umhvn. um þetta mál hefur verið mjög málefnaleg bæði af hálfu stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum þessum aðilum þá vinnu, alúð og málefnalegu framsetningu sem hefur verið höfð á fundum umhvn. Við gerum okkur öll grein fyrir að hérna er um mikilsvert mál að ræða, mál sem nær langt út fyrir dægurþras stjórnmála hvers dags. Hér um framtíðarmál og stefnumörkun að ræða sem við hljótum að vanda okkur við. Þetta held ég að hafi verið haft í huga við öll okkar störf.

Við fengum til okkar marga gesti. Við fengum til okkar margvíslegar umsagnir. Við skoðuðum þetta allt frá upphafi til enda og það liggur til grundvallar því endanlega mati sem meiri hlutinn lét frá sér fara. Það er óhjákvæmilegt fyrir mig að fara nokkrum orðum um ummæli sem koma fram í áliti minni hluta umhvn. þar sem getið er um fund sem haldinn var 4. desember 1995, en þar var fjallað um umsögn nefndarinnar að beiðni iðnn. Þykir mér að þau ummæli sem þar koma fram, séu ekki í samræmi við þann anda og þau vinnubrögð sem við höfum tamið okkur í nefndinni. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Voru þau beðin um skrifleg svör og greinargerðir um nokkur atriði og var á það fallist. Þrátt fyrir að efnislegri athugun málsins væri ekki lokið í nefndinni bar formaður upp tillögu að umsögn sem hlaut stuðning stjórnarliða í nefndinni og afgreiddi meiri hlutinn málið þá samstundis frá nefndinni. Beiðni um að dokað yrði við og beðið greinargerða frá viðmælendum sem formaðurinn hafði boðað á fundinn hafnaði hann staðfastlega.`` Og síðan, með leyfi forseta, held ég áfram og klára þessa tilvitnun með þessum orðum: ,,Þessum óvenjulegu og óþinglegu vinnubrögðum mótmælti undirritaður og kvaðst mundu skila sérstakri umsögn um málið.``

Hv. þm. Svavar Gestsson gerði þetta að nokkru leyti að atriði í sínu máli áðan. Ég ætla þá að láta það koma fram að umhvn. hafði mjög knappan tíma til þess að fjalla um þetta mál. Það var haldinn sérstakur aukafundur um málið að beiðni hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á mánudegi vegna þess að sá sami hv. þm. var að fara til útlanda daginn eftir kl. 6 eða 7 að morgni og þetta var eini dagurinn til þess að halda þann fund. Við áttum hins vegar að skila nefndaráliti eða umsögn á miðvikudegi en þá var hv. þm. Hjörleifur Guttormsson í útlöndum og þrátt fyrir að milli okkar ríki gott samband, treysti ég því ekki að við gætum leyst það með fjarskiptum eða öðrum hætti meðan hann var í útlöndum. Þannig var sérstaklega unnið að því að þessi umræða að hans beiðni gæti komið fram þarna. Það var engin leið að svara þessu skriflega samdægurs, áður en hv. þm. færi til útlanda þannig að það var vitavonlaust að fjalla um þetta á þessum tíma. Því mótmæli ég þeim orðum sem komu þarna fram en vísa að öðru leyti til þess sem ég hef áður sagt um málið og málefnalegan undirbúning þess og þeirrar niðurstöðu sem umhvn. setti fram í sinni umsögn að vandlega yfirveguðu ráði.