Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 12:55:06 (2061)

1995-12-16 12:55:06# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[12:55]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við það sem fram kom í máli hv. formanns umhvn. Hann lagði mikla áherslu á að umhvn. hefði verið vel undir það búin að gefa álit á umhverfisþætti málsins til iðnn. á þeim stutta fundi sem haldinn var, þ.e. að tíminn hafi fyllilega nægt til þess vegna mikils undirbúnings og umfjöllunar áður. Ég gat því miður ekki verið á þessum umrædda, stutta fundi eins og fram hefur komið en ég vil minna hv. þm. á að um málið var aðeins fjallað á tveimur fundum umhvn. Hinn fyrri var haldinn seint í ágúst eða fyrst í september. Ég man ekki nákvæmlega dagsetningar. Þetta var á haustdögum. Fyrri fundurinn var haldinn að frumkvæði hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Það verður að segjast alveg eins og er að á þeim fundi kom fram talsverð óþolinmæði margra nefndarmanna í garð þeirra sem vildu um málið fjalla, að vísu ekki hv. formanns umhvn., ég vil taka það fram, og það kom fram gagnrýni á það að nefndin væri að fjalla um málið. Mörgum nefndarmanna fannst hreinlega óþarfi að umhvn. væri að skipta sér af vinnu við umhverfismat og undirbúning starfsleyfis og þyrfti hvorki að gefa sitt álit á því né koma að því með einum eða neinum hætti. Samt sem áður var haldinn einn fundur í viðbót með öllum þeim sem taldir eru upp í áliti eða umsögn meiri hluta umhvn. Það gæti virst að vel væri að málum staðið en þessi fundur var haldinn með öllum þessum aðilum í einu, öllum þessum fjölda í einu og þó að fundurinn væri á margan hátt gagnlegur og góður, vöknuðu eftir sem áður við þessa umfjöllun spurningar og því var fyllsta ástæða til að athuga þetta enn frekar. Ég reiknaði satt að segja með því að nefndin mundi gera það, það væri ekki bara undir áhuga einstaklinganna komið.

Ég tel, hv. þm., að þetta sé stærra mál en svo að þessi undirbúningur hafi nægt og er ekki sammála því að hér hafi verið um mikla og vandaða umfjöllun að ræða.