Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 16:32:32 (2070)

1995-12-16 16:32:32# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[16:32]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það hafa eðlilega orðið miklar umræður um þetta mál sem er nú á dagskrá þingsins og það sem ég ætla að leggja inn í þá umræðu snýr fyrst og fremst að umhverfisþætti málsins. Þetta mál er á starfssviði hæstv. iðnrh. og hann mun svara fyrir aðrar spurningar varðandi það, en ég ætla fyrst og fremst að snúa mér að því að fara nokkrum orðum um umhverfisþáttinn og þá spurningar og athugasemdir einkum þriggja hv. þm. sem hér hafa talað í umræðunni.

Hv. 12. þm. Reykn., Kristín Halldórsdóttir, lét þau orð falla almennt um málið og þá þann þátt þess, þ.e. vinnubrögð við útgáfu starfsleyfisins varðandi umhverfis- og mengunarþáttinn væru ekki nægjanlega vönduð. Það má segja að það hafi einnig komið fram hjá hinum hv. þm. báðum, sem ég ætla að tala við, hv. 8. þm. Reykv., Svavari Gestssyni, og hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifi Guttormssyni. Ræður þeirra og athugasemdir hafa hvað þetta mál varðar snúist um það að vinnubrögð hafa ekki verið nægilega vönduð og starfsleyfið sé ekki þess eðlis að þeir geti talið það fyllilega ásættanlegt. Ég vil almennt segja í upphafi máls míns að ég er ósammála þessum fullyrðingum. Það hefur reyndar komið fram áður, það kom fram eðlilega við 1. umr. málsins þar sem farið var yfir þennan þátt og athugasemdir sem þá höfðu verið gerðar og voru gerðar í þeirri umræðu. Það kom fram við útgáfu sjálfs starfsleyfisins. Það er auðvitað ákvörðun ráðherrans þegar hann gefur það út að hann telur málið þá í ásættanlegum búningi. Það hefur líka komið fram í úrskurði sem ráðuneytið hefur gefið og umhvrh. skrifað undir svo að það eru svo sem ekki ný tíðindi. Það er viðhorf mitt að hér sé um að ræða starfsleyfi sem fullnægi þeim ákvæðum sem við höfum sett okkur varðandi mengunarvarnir í mengunarvarnareglugerð og í þeim samningum sem við höfum skuldbundið okkur til að uppfylla eða sinna.

Í nefndaráliti frá minni hluta iðnn., sem hv. 8. þm. Reykv. skrifaði undir, er auðvitað kveðið mjög fast að orði hvað þetta varðar og athugasemdir gerðar við það hvernig staðið hafi verið að umhverfisþættinum. Þó er sérstaklega ein setning í þessu nefndaráliti sem ég geri alvarlega athugasemd við og það er þar sem hv. þm. fjallar um nauðsyn þess að endurvinna starfsleyfið og sé með því ekki að varpa rýrð á starf þess fólks sem hefur unnið að málinu eða komið að því en svo segir, með leyfi forseta:

,,Því hafa hins vegar verið settar óeðlilegar pólitískar skorður að ekki sé fastar að orðið kveðið.`` Ég geri athugasemd við þessa setningu. Ég tel að hér sé um að ræða fullyrðingu sem getur a.m.k. falið í sér aðdróttanir að stjórnvöldum og þá trúlega að ráðherra að hann hafi beitt starfsmenn þá sem vinna faglega að gerð starfsleyfisins einhverjum pólitískum þrýstingi og sett þeim óeðlilegar pólitískar skorður. Því mótmæli ég.

Það sem e.t.v. hefur verið gert af hálfu stjórnvalda og beint til opinberra embættismanna sem hafa unnið að þessu máli er að hraða málsmeðferð. Það kom ekki síst fram í máli hv. síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Austurl., að hann teldi að málsmeðferðinni hefði þurft að gefa betri tíma. Ég vil láta það koma fram sem gæti þá verið ábendingar og vilji stjórnvalda að hraða málinu. Það er skoðun mín að það hafi ekki haft nein þau áhrif á málsmeðferðina eða niðurstöðu Hollustuverndarinnar og síðan útgáfu starfsleyfisins að það hafi haft nein þau áhrif sem gerir málið að einhverju leyti óásættanlegt eða það sé ekki nógu vel unnið af þeim ástæðum.

Ég vil koma þá næst að því varðandi brtt. hv. 8. þm. Reykv. á þskj. 382 og þá einkum a-liðnum sem er sá sem skiptir mengunarvarnirnar einhverju máli. Ég get ekki heldur fallist á þá tillögu sem þar er lögð fram. Til þess að árétta þau atriði sem ég er að velta fyrir mér í því sambandi þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal ríkisstjórnin láta fara fram úttekt óháðra sérfræðinga á umhverfiskröfum þeim sem gera verður til álversins í Straumsvík með hliðsjón af íslenskum reglum og alþjóðlegum samningum. Úttektinni skal lokið fyrir 1. mars 1966 og verður starfsleyfi álversins þá endurmetið og það endurútgefið í samræmi við niðurstöður úttektarinnar.``

Það eru þrjú atriði í þessari tillögu sem ég vil sérstaklega velta upp. Það er í fyrsta lagi ,,úttekt óháðra sérfræðinga``. Það er í öðru lagi ,,með hliðsjón af íslenskum reglum og alþjóðlegum samningum`` og það er í þriðja lagi að endurmeta og endurútgefa starfsleyfið. Í fyrsta lagi tel ég að þeir sérfræðingar sem hafa unnið þetta af hálfu stjórnvalda séu þeir sem eru best fallnir til þess og færir og þeir sérfræðingar sem við hljótum eðlilega að fela slíkt verk, þ.e. Hollustuvernd ríkisins, mengunarvarnadeildin og starfsmenn hennar.

Í öðru lagi það sem ég nefndi með íslenskar reglur og alþjóðlega samninga þá hef ég áður sagt það og segi það enn að við teljum að hér sé fullnægt öllum þeim kröfum sem þar eru settar fram og er að finna í mengunarvarnareglugerð okkar og í þeim samningum sem við höfum undirgengist.

Í þriðja lagi að endurmeta eða endurútgefa starfsleyfið. Þá er auðvitað verið að lýsa algerri vantrú á þá aðila sem hafa komið að málinu fram að þessu og gefa það út í samræmi við niðurstöður þessarar úttektar, þ.e. þá er sagt að Hollustuverndin og þeir sem að málinu hafa unnið, umhvrn. og síðan umhvrh. hafi ekki verið færir um að gera það sem þeir hafa fram að þessu gert. Þessu verð ég að mótmæla.

Í starfsleyfinu sem hér hefur verið til umræðu koma fram þær kröfur sem yrðu gerðar með tilliti til umhverfisins hvað mengunarvarnir varðar. Þær kröfur sem þar eru settar fram eru í samræmi við íslensk lög og reglur, einkum mengunarvarnareglugerðina ásamt síðari breytingum, nr. 48/1944. Jafnframt var við gerð starfsleyfisins tekið mið af þeim reglum sem gilda um þessa starfsemi í nágrannalöndum okkar og í alþjóðasamningum um umhverfismál og mengunarvarnir. Til að mynda má reyndar einnig nefna það að í mengunarvarnareglugerð eru ákvæði sem koma fram í EES-samningnum og varða mengunarvarnir. Sérfræðingar Hollustuverndar ríkisins unnu að þessari gerð starfsleyfisins í ljósi þessara aðstæðna og þessara staðreynda og með þau skilyrði sem hér eru sett og sem eru hér talin upp að leiðarljósi.

Síðan má líka nefna að í starfsleyfinu eru í raun nokkuð mörg ákvæði sem varða endurskoðun og mig langar að nefna hér nokkur. Það segir m.a.:

,,Sérstakar reglur gilda um endurskoðun eða endurútgáfu starfsleyfa. Til að mynda er kveðið á um það í 2. mgr. 56. gr. mengunarvarnareglugerðarinnar að eigi megi breyta eða auka við atvinnurekstur ef það geti leitt til aukinnar og/eða annarrar mengunar nema að fengnu nýju starfsleyfi.``

Í starfsleyfinu er þetta nánar skilgreint, þ.e. þessi ákvæði mengunarvarnareglugerðarinnar. Komi fram skaðleg áhrif á umhverfi verksmiðjunnar eða hætta sem ekki var áður ljós, skal samkvæmt grein 1.3 í starfsleyfinu endurskoða kröfur starfsleyfisins ef nauðsyn er til. Ef ákvæði krafna í starfsleyfinu eru ekki lengur talin vera í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum eins og þau eru tilgreind í aðalsamningi við svipaðar aðstæður skal endurskoða starfsleyfi. Við stækkun álversins úr 170 þús. tonn í 200 þús. tonn skal yfirfara og endurskoða þá grein starfsleyfisins sem fjallar um útblástursmörk ef Ísal eða Hollustuvernd fara fram á það þannig að það er hægt að taka málið þar upp líka. Í starfsleyfinu eru mörk þynningarsvæðis vegna loftmengunar sett fram til bráðabirgða í samræmi við niðurstöður dreifingarspár fyrir heildarflúoríð. Þessi mörk skal endurskoða að loknum mengunarmælingum og dreifiútreikningum sem skulu fara fram á öðru ári eftir að framleiðsla er hafin í þeim áfanga sem hefur 170 þús. tonna framleiðslugetu.

Í starfsleyfinu er sett fram áætlun um mælingar sem Ísal skal fylgja til eftirlits með mengun. Þessa áætlun og mæliaðferðir skal endurskoða í fyrsta skipti þegar eitt ár er liðið frá því að starfsleyfið tekur gildi og síðan á tveggja ára fresti eftir það ef Ísal eða Hollustuvernd ríkisins óska þess. Af því að ég er að vitna til samningsins var það eitt af því sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi. Það var varðandi hávaðamengun og þá þætti. Í síðustu málsgrein í lið 3.1 í stafsleyfinu segir, með leyfi forseta:

,,Ísal skal í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins gera yfirlit yfir þær hávaðauppsprettur sem geta haft áhrif út fyrir lóðamörk. Reikna skal dreifingu hávaða frá þessum uppsprettum. Ef breytingar verða á rekstri skal endurmeta dreifingu hávaða frá álverinu.``

Það kann að vera að einhverjum hv. þm. finnist ekki sterkt að kveðið en það er þó alla vega um þetta mál fjallað og gerð grein fyrir því að með þessu verði fylgst og ákvæði um að ef breytingar verða á rekstrinum skuli endurmeta þennan þátt.

Hv. 8. þm. Reykv. spurði líka um ágreining milli Náttúruverndarráðs og Hollustuverndar ríkisins og vitnaði til bréfs Náttúruverndarráðs um málið frá 21. ágúst sl. Ég tel reyndar að þar sé ekki um djúpstæðan ágreining að ræða sem þurfi sérstaklega að taka á af hálfu umhvrh. eins og hv. þm. var þó að velta fyrir sér og spurði reyndar hvernig ráðherrann ætlaði að sætta sjónarmið þarna á milli. Það er einkum eitt atriði sem eru að vísu skiptar skoðanir um og það er að Náttúruverndarráð segir í bréfi sínu eða telur að nota eigi þann búnað sem gefur besta hreinsun á kerreyk og bendir á að með vothreinsibúnaði megi ná meiri hreinsun, t.d. af brennisteinsdíoxíði en sem svarar 21 kg/tonn áls eða allt niður í 2--5 kg/tonn áls eins og segir í bréfinu ef ég vitna til þess.

Þetta er auðvitað mál sem við erum margsinnis búin að fjalla um, m.a. í þinginu við 1. umr. og síðan hafa auðvitað nefndir, bæði hv. umhvn. og iðnn. fjallað um málið. Það er niðurstaða í starfsleyfinu að gera ekki kröfu til vothreinsibúnaðarins og ég þarf ekkert að orðlengja um það. Hv. þm. þekkja afstöðu mína og rökin fyrir því að gera það. En það er vitað að hægt er að ná betri hreinsun með vothreinsibúnaði. Því hefur að sjálfsögðu aldrei verið mótmælt.

Ég sé ekki annað í þessu bréfi Náttúruverndarráðs sem getur beinlínis fjallað um ágreining. Það er bent á nokkur þau atriði. Stundum er því miður ekki verið að bera saman alveg sambærilega hluti. Ég nefni t.d. tölu varðandi hávaða þar sem talað er um annars vegar íslenskar kröfur og hins vegar norskar kröfur. Mér hefur verið bent á það hvað varðar íslensku kröfurnar að verið er að tala um mælingu á iðnaðarsvæði og talað um 70 dB, sem þýðir liklega desibel, og í norsku kröfunum er talað um 40--50 dB, en þar er hins vegar að fjalla um íbúðarsvæðið. Hér er því miður ekki alveg um sambærilega hluti að ræða.

Ég nefni þetta bara sem dæmi úr þessu bréfi án þess að ég ætli að fara að öðru leyti ítarlegar yfir það. En ég hef sem sagt ekki miklar áhyggjur af því að þarna sé um að ræða einhvern óleysanlegan ágreining milli tveggja stofnana sem heyra undir umhvrn.

Síðan spurði hv. 8. þm. Reykv. og reyndar einnig 4. þm. Austurl. töluvert um rammasamninginn um loftslagsbreytingarnar og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem honum tengist og ég mun fara nokkrum orðum um það mál, hæstv. forseti. Vissulega er rétt að ríkisstjórnin hefur sett sér ákveðna framkvæmdaáætlun í þessu sambandi og á hún nokkurn aðdraganda, reyndar frá því fyrir svokallaða Ríó-ráðstefnu. Það má segja að það hafi verið allt frá ársbyrjun 1991 að hæstv. þáv. umhvrh. skipar nefnd sem kölluð hefur verið koltvíoxíðsnefndin en síðan er auðvitað fyrst og fremst fjallað um þessi mál í kringum Ríó-ráðstefnuna og eftir hana. Nefnd þessi skilaði áfangaskýrslu í maí 1992 en í kjölfar Ríó-ráðstefnunnar skipaði þáv. hæstv. umhvrh. sjö starfshópa á árinu 1993 til þess að fjalla um hin ýmsu umhverfismál tengd þessari ráðstefnu og umræðuna eftir ráðstefnuna og var markmið þeirra að vinna að stefnumótun í umhverfisvernd og sjálfbærri þróun í eftirtöldum greinum. Það voru sjö hópar og þeir fjölluðu í fyrsta lagi um iðnað og orkumál, í öðru lagi um sjávarútveg, þriðja lagi um samgöngur, í fjórða lagi um skipulagsmál, í fimmta lagi um sorphirðu og meðferð spilliefna, í sjötta lagi um landbúnað og í sjöunda lagi um menntun og fræðslu.

Allir þessir starfshópar hafa nú skilað umhvrn. skýrslum sínum. Þetta hefur verið mikil vinna og margir komið að þessu og það nú er unnið á vegum umhvrn. að heildstæðri umhverfisáætlun til ársins 2000 undir forustu ráðuneytistjórans í umhvrn. og með þátttöku formanna allra þessara starfshópa þannig að nú er í gangi ítarleg vinna og stefnumörkun á þessu sviði.

[16:45]

Ég hef reyndar ekki setið lengi í umhvrn., eins og hv. þm. vita, en þar er í gangi mikil vinna og við gerum ráð fyrir því að síðar á þessum vetri verði hún komin í þann búning að hægt sé að tala um a.m.k. drög að þessari áætlun. Við stefndum reyndar að því að halda síðar í vetur svokallað umhverfisþing þar sem farið yrði yfir þessi mál og gerð grein fyrir stefnumótuninni. Ég hef ekki treyst mér til að dagsetja það enn þá en vona enn að fyrri hluta næsta árs sé hægt að halda slíka samkomu og kynna stefnumótunina.

Það segir kannski ekki allt um það hvernig ríkisstjórnin hyggst taka á eða hvaða aðferðum hún hyggst reyna að beita til þess að standa við rammasamninginn um loftslagsbreytingar. Auðvitað má minna á að hann sem slíkur hefur vissulega ekki lagaígildi en hann er stefnumótun og stefnumörkun sem stjórnvöld hafa undirgengist að reyna að standa við. Það segir m.a. í framkvæmdaáætluninni að markmiðið í stefnu ríkisstjórnarinnar til þess að sporna gegn gróðurhúsaáhrifum er að útstreymi koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda verði ekki meira um aldamótin en það var árið 1990, í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna, eins og margsinnis hefur komið fram. Það segir líka í áætluninni og reyndar held ég að hv. 4. þm. Austurl. hafi minnt á það eða hvort það kemur fram í bréfi hans eða nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

,,Það er álit ríkisstjórnarinnar að skuldbindingar um takmörkun útstreymis gróðurhúsalofttegunda eigi ekki að koma í veg fyrir að reist verði ný stóriðjufyrirtæki í landinu, ef þau vilja nýta sér hinar hreinu orkulindir landsins, jafnvel þótt fyrirtækin noti kol eða koks sem hráefni og auki útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna þess.`` Það er því skýr fyrirvari í framkvæmdaáætluninni hvað þennan þátt mála varðar. Ég tel rétt að halda honum til haga í þessari umræðu, enda veit ég að það hefur verið gert víðar, eins og ég nefndi áðan, þótt ég muni ekki í augnablikinu hvar vitnað er til þessa ákvæðis hennar.

Í framkvæmdaáætluninni er lögð megináhersla á fjórar leiðir eða fjóra þætti sem verði að nýta til þess að ná þessum markmiðum. Það eru hvetjandi aðgerðir, fræðsla, hagstjórnartækin og að lokum má hugsa sér þvingandi aðgerðir. Með hvetjandi aðgerðum er auðvitað fyrst og fremst átt við það að ríkisstjórnin og stofnanir hennar, í samvinnu við aðra aðila geri grein fyrir þessum markmiðum og hvetji alla sem málið varðar, eins og sveitarfélög, fyrirtæki, einkaaðila og áhugafélög, til samstarfs við að reyna að ná þeim. Þá er talið að fræðsla sé mikilvægur hluti framkvæmdaáætlunarinnar, eins og gefur að skilja, að virkja almenning sem er mjög mikilvægt. Auðvitað kemur þar fræðsla og áróður fyrst og fremst að gagni, síðan eru það hagstjórnartækin og þá e.t.v. þvingandi aðgerðir.

Varðandi hagstjórnartækin verður að minna á að mestur hluti útstreymis koldíoxíðs á Íslandi er rakinn til samgangna og fiskveiða. Þar eigum við við nokkurn vanda að glíma. Fiskveiðarnar eru okkur eðlilega, ekki þarf að rekja það fyrir hv. þingheimi, mikilvægar sem undirstaða efnahagslífsins og með stækkandi fiskiskipaflota og öflugri tækjum er hætt við því að meiri orka sé notuð. Þó er hugsanlegt líka og nauðsynlegt að gæta þess að nýr vélbúnaður, ný skip og tækni sé þess eðlis að dregið sé úr útblæstri og mengun eins og lífsins mögulegt er. Án þess að ég ætli að fara að gera fiskveiðistefnu að aðalmáli eða draga hana inn í umræðu um það mikilvæga mál sem er á dagskrá má samt segja að fiskveiðistjórnunarkerfið sem við notum sé þess eðlis að reynt er að draga sem mest úr óþarfa siglingum. Útgerðin og sjávarútvegurinn reyna, miðað við stjórnunarkerfið í fiskveiðunum, að ná aflanum sem leyfilegt er að veiða með sem minnstum tilkostnaði og þar með orkusparnaði. Hans er gætt sérstaklega.

Þetta er kannski erfiðasta viðfangsefnið í sambandi við markmiðin hvernig við getum haft áhrif á þennan stóra þátt efnahagslífsins og reynt að fá hann til þess að vinna með okkur í því að draga úr útstreymi koldíoxíðs. Í framkvæmdaáætluninni er fjallað um ýmsa aðra þætti, t.d. samgöngur, bæði innanlandssamgöngur og almennar samgöngur. Ég nefndi sérstaklega fiskveiðarnar en í áætluninni er auk þess getið um iðnað, sorphirðu og úrgangsmál, svo að eitthvað sé nefnt en ég eyði ekki tíma í að lesa upp eða fara mörgum orðum um þessi mál. Umfjöllun um þau finna menn í gögnum málsins, sem lögð hafa verið fram. Þó langar mig að nefna sérstaklega framkvæmdaáætlun í landgræðslu og skógrækt af því að hv. 4. þm. Austurl. sagði að ekki færi mikið fyrir því hjá núverandi stjórnvöldum hvernig ætti að ná markmiðum með þessu úrræði, þ.e. að græða upp Ísland, eins og hann orðaði það, sem ég vona að við séum sammála um að sé mikilvægt markmið. Auðvitað er ekki um að ræða að fjármunir til þessara verkefna séu stórauknir, t.d. í fjárlögum eða fjárlagafrv. nú, en ég vil þó minna á að þessi áhersla kemur t.d. fram í nýgerðum búvörusamningi. Þar er þessi þáttur tilgreindur sérstaklega og viðleitni í þá átt að hvetja bændur landsins til þess að breyta til og snúa sér meira að verkefnum á þessu sviði.

Varðandi landgræðsluáætlun, sem nefnd er í framkvæmdaáætluninni, er unnið að henni á vegum Landgræðslu ríkisins. Ég hef nýlega skoðað þá vinnu og rætt við forstjóra Landgræðslunnar um hana. Það er sem sagt vel á vegi að útbúa slíka áætlun, sem er afar mikilvæg undirstaða að frekari vinnu á þessu sviði. Í sambandi við skógræktina má líka minna á að mikil vakning er um allt land hjá almenningi, bændastéttinni og áhuga- og hagsmunafélögum. Trjáplöntun hefur stóraukist á undanförnum árum.

Þetta tók ég út sérstaklega og nefni bæði vegna þess að mér fannst hv. 4. þm. Austurl. gera heldur lítið úr því og hins að þetta heyrir undir annað svið sem ég fjalla um, þ.e. landbúnaðarmálin, og kem því að þessum þætti sérstaklega. Um aðra þætti sem ég nefndi áður þarf auðvitað að vera gott samstarf milli ráðuneyta umhverfismála annars vegar og t.d. sjútvrn., samgrn. og annarra ráðuneyta sem koma að þessum málum hins vegar.

Síðan og ekki síst vil ég geta eins varðandi hina hagrænu stjórnun. Umhvrn. hefur nú þegar tekið upp viðræður við fjmrn. um það með hvaða hætti sé hægt að beita skattamálum í þágu umhverfismála til þess að styðja og styrkja þau sjónarmið sem þar koma fram. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði m.a. um það hvort t.d. hefði verið rætt um að breyta eða hækka verð á orkugjöfum, bensíni og olíu. Reyndar er umræðan ekki komin á það stig, en hún er hafin og felst í því að umhverfissjónarmiða sé gætt í skattlagningu. Ég held að afar mikilvægt sé að koma þeirri hugsun inn í skattakerfið. Það er það sem ég á við og umhvrn. og fjmrn. hafa þegar hafið umræður um.

Þá má nefna, svona í framhjáhlaupi, að lagt hefur verið fyrir þingið, ég held að því hafi verið dreift í gær eða fyrradag, frv. til laga um svokallað spilliefnagjald, á þskj. 392. Þó að það varði ekki sérstaklega framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um loftslagsbreytingar kemur þar fram sú stefna að bæði stjórnvöld og atvinnulífið séu tilbúin að taka á sig gjaldtöku eða innheimtu til þess að standa undir kostnaði á sviði umhverfismála. Það var þess vegna sem ég vildi nefna þetta í þessu samhengi. Það frv. var unnið í góðu og nánu samráði við aðila úr atvinnulífinu. T.d. má nefna þar Landssamband ísl. útvegsmanna sem kom að því máli og Vinnuveitendasambandið. Ég hygg því að þau sjónarmið og þau viðhorf séu ríkjandi og vaxandi að bæði atvinnulífið og almenningur skuli taka tillit til þessara þátta.

[17:00]

Ég held að ég hafi, virðulegur forseti, farið nokkuð yfir þá þætti sem hv. 8. þm. Reykv. nefndi sérstaklega eða beindi til mín. Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um þætti sem komu fram í ræðu hv. 4. þm. Austurl. Hann hóf umræðu sína um umhverfismálin með því að hann teldi þann þáttinn algerlega óviðunandi og ótækan, ef ég skrifaði rétt eftir honum tvö eða þrjú orð um lýsingu hans á þessu máli almennt. Ég ítreka fyrri skoðanir mínar á því og er ljóst að þótt við deilum kannski stundum skoðunum hvor með öðrum, þá gerum við það ekki að þessu sinni varðandi þau efnisatriði sem hér er fjallað um. Ég tel að hér hafi verið framfylgt þeim skilyrðum og kröfum öllum sem ástæða er til að gera.

Það kom fram í 2. umr. um fjárlagafrv. fyrir nokkrum dögum að við erum nokkuð sammála um að betur þarf að búa að Hollustuvernd ríkisins hvað varðar fjárveitingar og þar með líka möguleikum hennar til þess sinna öllum sínum mikilvægu störfum. Sú málsmeðferð er í ákveðnum farvegi og verður ekki nánar um það fjallað hér. Hins vegar er það pólitíska málsmeðferðin og svo efnislega umræðan um umhverfismálin sem okkur greinir kannski meira á um heldur en þennan fyrsta þátt ef ég má skipta ræðu hans í þá þrjá þætti, þ.e. tala í fyrsta lagi um atvinnu- og hollustuvernd, í öðru lagi um pólitísku meðferðina og í þriðja lagi um efnisatriði hvað varðar umhverfismál.

Mig langar að segja um pólitísku málsmeðferðina það sama og ég sagði reyndar áðan varðandi nefndarálit minni hluta iðnn., hv. þm. Svavars Gestssonar, að mér finnst að í máli hv. þm. og þeirra beggja hv. þm. gæti aðeins þess sjónarmiðs að einhver óeðlilegur þrýstingur hafi verið af hálfu umhvrh. um að knýja þessi mál áfram. Ég ítreka að ég hef lagt til að málsmeðferðinni verði hraðað en að öðru leyti geri ég þá kröfu til embættismannanna að þeir vinni verk sín af fullri samviskusemi og einurð og að sjálfsögðu samkvæmt bestu vitund.

Hv. þm. fjallaði aðeins um úrskurð stjórnar Hollustuverndar frá 2. nóvember 1995 og talaði þar m.a. um pantað lögfræðiálit. Hann útskýrði að vísu orðið ,,pantað``, nánar. Ég læt útskýringar hans duga hvað það varðar, ég fer ekki nánar út í það. Það kom fram í sambandi við lögfræðiálitið að um það væri beðið í samráði við umhvrn. Það samráð er aðeins á þann hátt að Hollustuvernd ríkisins eða stjórn Hollustuverndar eða forsvarsmenn, formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri Hollustuverndar svo að nákvæmlega sé skýrt frá, leita eftir því við umhvrn. að fá afstöðu til þess hverjir eigi aðild að máli. Og umhvrn. leggur til að eftir því sé leitað utan ráðuneytis. Það er það samráð sem haft er við umhvrn. um málið. Það er okkar tillaga að það sé leitað eftir slíku áliti utan ráðuneytis en ekki innan þar sem ráðuneytið þurfi að koma að málinu með öðrum hætti og þess vegna sé ekki eðlilegt að umhvrn. gefi álit eða hafi afstöðu til þess á þessu stigi, heldur sé þess álits leitað annars staðar. Það vil ég aðeins um þetta mál segja.

Hins vegar finnst mér kannski örlítið hafa bryddað á því í umræðunni, bæði nú og áður, hjá sumum hv. þingmönnum, ekki endilega hjá hv. 4. þm. Austurl., en það hefur komið fram í umræðu áður að það sé verið að vekja á því athygli sérstaklega og jafnvel talið tortryggilegt að sá maður sem er varaformaður stjórnarinnar og skrifar undir þetta umrædda bréf skuli vera aðstoðarmaður landbrh. Um það mál vil ég aðeins segja að umhvrh. skal skipa tvo menn í stjórn Hollustuverndar, formann og varaformann. Ég er ekki með lögin fyrir framan mig þannig að ég hef þetta kannski ekki orðrétt eftir, en efnislega er það svona.

Umhvrh. hefur valið tvo hæfa menn að hans áliti til að gegna þessu verkefni. Þar er annars vegar sem formaður sveitarstjóri norður í landi, norður á Kópaskeri, sem ég held að hafi góða burði til þess að gegna þessu mikilvæga starfi og það sé mikilvægt að það sé einmitt sveitarstjórnarmaður vegna þess að Hollustuvernd ríkisins þarf að hafa mikil afskipti af sveitarstjórnarmálum á vissan hátt í gegnum heilbrigðiseftirlitið. Það er því mjög góð tenging að sveitarstjórnarmaður skipi sæti í stjórninni. Hinn fulltrúi ráðherrans er líffræðingur, en það hlýtur líka að teljast mjög góð menntun fyrir mann í stjórn Hollustuverndar ríkisins. Ég tel því að það ágæta fólk sem situr í þessum embættum af hálfu umhvrh. sé vel í stakk búið til að skipa þær stöður og fjalla um þau mál sem þar kunna að koma upp á borðið. Ég vona að það sé engin tortryggni eða efasemd í því að öðru leyti að annar þessara einstaklinga skuli að aðalstarfi sínu nú um stundir vera aðstoðarmaður landbrh. Það er ekki óeðlilegt að til þessara starfa séu valdir menn sem umhvrh. þekkir af samskiptum og treystir til starfans. Læt ég lokið umfjöllun minni um þann þáttinn.

Þá vil ég aðeins víkja að þeim þáttum í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem varða efnisatriði. Hann talar í fyrsta lagi um reglugerðarákvæði um það að beita skuli fullkomnustu tækni sem völ er á en álítur að þessu sé ekki fullnægt. Nú hefur það margsinnis komið fram í umræðum og gerir það þá einu sinni enn að niðurstaða þeirra sem fjallað hafa um málið er sú að sætta sig við þá kertækni sem ríkir í þeim hluta fyrirtækisins sem þegar er risinn og hefur starfað lengi og það sé ekki gerð krafa um aðra kertækni. Þetta getur auðvitað verið álitamál hvort hér sé verið að brjóta þessi reglugerðarákvæði. En að áliti Hollustuverndar ríkisins og embættismanna þar telja þeir að hér sé um ásættanlegan hlut að ræða að metnum þessum aðstæðum og teknu tilliti til þessara sjónarmiða sem margsinnis hafa komið fram. Mig langar einnig að vitna í minnisblað frá umhvrn., Ingimar Sigurðssyni, sem sent var hv. iðnn. Alþingis þegar hún var að fjalla um þetta mál á dögunum. Minnisblaðið er dags. 28. nóvember. Þar segir m.a. um þennan þátt málsins, með leyfi forseta:

,,Ísal-tækni í kerskálum hefur verið endurbætt verulega þannig að hún innfelur í dag flesta þætti BAT.`` --- Ég þarf ekki að rekja það. Það hefur verið skýrt áður hvað í því felst, Best Available Technique eða besta fáanlega tækni. Síðan held ég áfram tilvitnuninni: ,,Það er helst ,,minimal opening of enclosures during operation`` sem þeir ná ekki alveg eins vel og tækni sem notar stærri ker og endurbætta útfærslu``, svo ég ljúki tilvitnun í þetta minnisblað. Þetta er sem sagt staðreyndin um kertæknina og það hefur verið viðurkennt og er vitað að það er til betri kertækni. En sú kertækni sem þarna er fallist á er ásættanleg og alls ekki úrelt. Hún hefur alls ekki verið talin úrelt og hefur verið endurbætt verulega að undanförnu þannig að talið er ásættanlegt.

Hv. þm. ræddi enn um losun flúors og PARCOM-ákvæðin. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta en get þó auðvitað einu sinni enn vitnað í úrskurð sem ég hef sent frá mér varðandi þetta mál. Í PARCOM-sáttmálanum er talað um 0,6 kg/tonn og sagt er að því ákvæði sé ekki fullnægt hér þar sem fallist er á 0,65 með hreinálsálagi. Í úrskurðinum segir m.a., með leyfi forseta: ,,Í PARCOM-recommendation 94/1`` --- og það mætti minna á að PARCOM eru tilmæli en ekki samningur --- ,,kemur fram að með bestu tækni í dag eigi við álframleiðslu að vera unnt að halda losun flúoríðs innan við 0,6 kg/tonn AL. Norðmenn telja að mörkin geti verið lægri en um það eru menn enn ósammála. Hollustuvernd ríkisins telur að unnt sé að ná lægri tölu þegar engin vandamál eru til staðar.``

Ég vil undirstrika að Hollustuvernd ríkisins telur að hægt sé að ná lægri tölum en 0,6 og Norðmenn hafa verið að tala um lægri mörk. Þau hafa þó ekki verið sett. Norska tilvitnunin í 0,4 kg/t, ef ég man rétt, er ekki reyndin hjá Norðmönnum. Það hefur enn ekki reynt á það. Þeir hafa ekki reist neitt slíkt álver þar sem þeir hafa sett fram þessa kröfu. Ég held þá áfram með tilvitnunina:

,,Í raunveruleikanum, þegar litið er til lengri tíma, koma hins vegar alltaf fyrir vandamál og því er ekki eðlilegt að gera kröfu um svo lág mörk að ekki sé möguleiki á nokkrum sveiflum.`` Það er það sem hér er sæst á og starfsleyfið byggir á 0,65.

Ég hef farið nokkuð yfir þann þátt úr ræðu hv. þm. sem fjallaði um loftslagssáttmálann frá Ríó og það að íslensk stjórnvöld reyni að smokra sér undan ákvæðum. Ég vil aðeins árétta það sem ég hef áður getið um og kemur auðvitað ítrekað fram í málsskjölum. Væri þessi verksmiðja reist annars staðar, þ.e. við aðra orkutækni en hér, væri mengunin eða útsleppingin og hættan fyrir andrúmsloftið auðvitað enn meiri. Auðvitað hefur þetta áhrif á markmið okkar í þessu sambandi og það er enginn að draga undan með það, enda sérstaklega um það talað í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. En svo að ég vitni aftur til úrskurðarins sem ég var að lesa upp úr áðan, má ég kannski, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð í viðbót. Þar segir m.a.:

,,Menn hafa ekki áhyggjur af koltvísýringi vegna svæðis- eða staðbundinnar mengunar heldur vegna alheimsmengunar. Sú raforka sem notuð verður í stækkuðu álveri í Straumsvík verður framleidd með vatnsorku. Það er því mun minni koltvísýringsmengun af völdum framleiðslu í Ísal en ef samsvarandi magn væri framleitt einhvers staðar annars staðar í veröldinni með rafmagni sem ætti uppruna sinn í kola- eða olíukyntum orkuverum.``

[17:15]

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara mikið fleiri orðum um það. Um þetta höfum við rætt áður og þarf ekki að fara öllu fleiri orðum um það en ég er þegar búinn að gera. Hv. þm. ræddi síðan um rykmengun og PARCOM-tilmælin í því sambandi og minnti á að við setjum okkur markmið 1,5 í stað PARCOM-tilmælanna sem eru upp á 1,0 en ég minni á það aftur að þá er verið að tala um ný álver. Tilmælin eða markið er samkvæmt PARCOM 3,0 fyrir gömul álver þannig að þegar við erum að tala um allt álverið, gamla og nýja hlutann og erum með 1,5, þá erum við í raun nær markmiðinu fyrir ný álver heldur en þau gömlu sem að sjálfsögðu er eðlilegt.

Ég var aðeins búinn að ræða um hávaðamengunina sem hv. þm. nefndi líka og síðan ræddi hann ofurlítið og beindi til mín meðal annars því sem hann taldi hina mestu óhæfu, að gera mismunandi kröfur eftir staðsetningu. Varðandi það vil ég fyrst og fremst segja og ítreka það sem ég hef sagt áður að ég tel þetta starfsleyfi, miðað við þær aðstæður sem það er gefið út fyrir, þ.e. stækkun á eldra álveri, ekki vera fordæmi. Þetta hef ég sagt áður og ítreka enn og lýsi yfir og það hygg ég að hafi líka komið fram m.a. við viðræður við t.d. mengunarvarnadeild Hollustuverndarinnar sem hefur auðvitað lagt mesta vinnu í undirbúning starfsleyfisins. Þess vegna kom fyllilega til álita og er í raun eðlilegt að gera aðrar kröfur til mengunarvarna ef verið er að reisa nýja verksmiðju á öðrum stað.

Ég er ekki heldur alveg sammála hv. þm. um að ekki sé mögulegt að gera aðra kröfu, þó við værum að tala um tvær nýjar verksmiðjur eftir því hvar verksmiðjan er staðsett í hvoru tilviki án þess að ég ætli að vera með einhverja sérstaka yfirlýsingu um það að einn staður þýði þetta en annar hitt. Ég tel að það verði að meta í hverju einstöku tilviki og meina þá aðeins það að ég tel að það þurfi og sé ekki óeðlilegt að tekið sé tillit til staðsetningar.

Það má auðvitað líka hugsa sér að ef vilji er hjá útlendum væntanlegum samstarfsaðila sem hefði áhuga á að reisa hér verksmiðju, að íslensk stjórnvöld hefðu fyrst og fremst hug á því að sú starfsemi væri reist á einhverjum ákveðnum stað. Þá segðu menn við það fyrirtæki: Þetta er það sem þú verður að sætta þig við og það gæti auðvitað ráðið úrslitum um það hvort slíkt fyrirtæki færi af stað yfir höfuð. Það gæti verið t.d. byggðasjónarmið, atvinnuleg sjónarmið og slíkir þættir sem hefðu áhrif á ákvarðanatöku af því tagi.

Hv. þm. spurði síðan um umhverfisáhrif og mat á umhverfisáhrifum vegna þeirra mannvirkja sem ráðast þarf í vegna fyrirhugaðrar stækkunar. Eftir því sem ég hef fengið upplýst munu heimildir fyrir svokallaðri Kvíslaveitu verið veittar fyrir lagasetninguna um mat á umhverfisáhrifum enda sú ákvörðun gömul. Þetta hef ég ekki skoðað sértaklega þannig að ég mun auðvitað líta á það mál nánar. Og með nýjar virkjanir sem ég tel t.d. að hugmyndir um virkjun í Bjarnarflagi séu, þá hlýtur að vera eðlilegt og nauðsynlegt að slík framkvæmd fari að öllu leyti eftir gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þetta segi ég þó með þeim fyrirvara við hv. þingheim, að þessi mál hef ég ekki skoðað sérstaklega og þau hafa ekki verið í umræðu af minni hálfu nú seinustu daga. En þetta er svona það sem mér sýnist að hljóti að liggja í augum uppi.

Ég veit ekki hversu mörgum orðum ég á að eyða í vangaveltur og þann þátt ræðu hv. þm. um markaðsskrifstofuna svokölluðu og hvernig hún standi að málum og hvort hún hafi frumkvæði að því að leita upplýsinga og búa í haginn fyrir ný fyrirtæki (HG: Lána.) Lána fátæklingum í Straumsvík eins og ég held að hv. þm. hafi nánast orðað það. Kannski var það ekki nákvæmlega svona orðað en efnislega. Ég tel auðvitað sjálfsagt og eðlilegt og reyndar nauðsynlegt að þegar íslensk stjórnvöld eru að bjóða fram kosti eða möguleika og við erum að leita eftir fjárfestingu, við erum að leita eftir erlendri fjárfestingu, ekki endilega í nýjum álverum heldur meina ég almennt, þá þurfi þeir sem sinna því markaðsstarfi að geta gefið upplýsingar sem byggja á ákveðnum þáttum sem er búið að kanna og rannsaka. Að því leytinu til getur þetta verið réttlætanlegt og eðlilegt. En ég þekki ekki til einstakra atriða og get þess vegna ekki haft á því aðra skoðun en þessa almennu og beini því þá til hæstv. iðnrh. og veit að hann mun auðvitað svara því nánar hvernig staðið hefur verið að þessari framkvæmd.

Hæstv. forseti. Þetta er orðin miklu lengri ræða en ég ætlaði og hélt ég þyrfti að flytja hér og hef ég þó sjálfsagt ekki svarað öllum atriðum sem til mín hefur verið beint. En ég hef reynt að gera það eftir bestu samvisku að fara yfir þau efnisatriði sem ég taldi að hefði sérstaklega verið til mín beint varðandi umhverfisþáttinn. Ég veit auðvitað að við erum ekki sammála, ég og hv. þingmenn sumir sem hér hafa talað um þessi efnisatriði þannig að ég á ekki von á því að með ræðu minni hafi ég breytt mikið skoðun þessara ágætu þingmanna.