Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 17:27:49 (2073)

1995-12-16 17:27:49# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[17:27]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Ég vil segja það almennt, virðulegur forseti, að ég met viðleitni hæstv. umhvrh. til að setja sig inn í samhengi mála og mér finnst það bera vott um að það er ákveðinn vilji til þess að reyna að taka á þessum málum. En sumpart er það svo að hæstv. ráðherra hefur ekki þær upplýsingar sem hann þyrfti í þessum efnum og síðan eru ákveðin prinsipp sem menn þurfa að geta virt. Þetta á við um loftslagssamninginn almennt séð. Þessi áform ríkisstjórnarinnar og málafylgja gengur ekki upp sem hæstv. ráðherra var að vitna til, að ætla að undanskilja stóran þátt í atvinnuáformum stjórnvalda og bara taka það út fyrir sviga eða setja það innan sviga. Mér finnst það ekki ganga upp.

Það er líka þetta sem ég vil eindregið vara við sem á almennt við um þessi mál. Við skulum hætta að réttlæta mengunariðnað með því að segja: Gamli þáttur fyrirtækisins er slæmur. Hann er ósköp slæmur. Við skulum því taka málin í heildarsamhengi eins og gert er í þessu starfsleyfi. Ég hvet til þess að við látum þetta gamla vera sér á parti. Gerum skilgreindar strangar kröfur til þess nýja. Menn eru ekki komnir á endastöð í Straumsvík ef marka má hæstv. iðnrh. Menn eiga eftir að bæta þar við ekki bara einum kerskála. Ætla menn þá virkilega að semja á þeim forsendum sem hér er verið að gera, að hafa allt undir sama hatti í sambandi við bindandi mengunarmörk. Það gengur ekki. Og ég hvet þingmenn sem eru þarna fulltrúar þessa kjördæmis aðeins að ýta á að menn standi í fæturna í sambandi við kröfur í umhverfismálum. Það varðar heildarhagsmuni.