Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 17:30:08 (2074)

1995-12-16 17:30:08# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[17:30]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég þakka hv. þm. fyrir. Ég met það svo að þetta hafi verið fremur hlý orð í minn garð fyrir að sýna viðleitni og reyna að setja mig inn í málaflokkinn. Ég hef sannarlega reynt að gera það. Ég viðurkenni fúslega að þegar ég kom að þessum málaflokki fyrr á árinu hafði ég ekki sinnt honum sérstaklega. Ég hafði sem þingmaður frekar verið með aðra efnisþætti á minni könnu. T.d. sat ég á síðasta kjörtímabili aðeins í einni þingnefnd, þ.e. fjárln. Alþingis, það voru því slík efnisatriði sem ég einbeitti mér frekar að. Hins vegar veit ég bæði og finn að hér er mikilvægur málaflokkur á ferðinni sem ber að sinna vel. Ég reyni því að gera mitt besta til að setja mig inn í þau mál. Tíminn einn leiðir í ljós hvernig til tekst í því efni og aðrir kannski dómbærari um verk mín. En þetta vil ég reyna að gera.

Örfá orð að lokum varðandi fyrirtækið eins og það mun líta út eftir stækkunina og hinn gamla og hinn nýja hluta þess. Staðreyndin er sú að til hins nýja hluta eru gerðar ákveðnar kröfur. Það er ætlast til að þar séu hlutirnir með þeim hætti sem ásættanlegt er og undir það er nú í fyrsta skipti allt fyrirtækið sett, þ.e. það er gefið út starfsleyfi fyrir allt fyrirtækið. Ég tel það mikilvægt þótt hv. þm. geri kannski minna úr þeim þættinum. Þau mörk sem við sjáum í heildarstarfseminni taka auðvitað mið af fyrirtækinu öllu, þ.e. bæði hinum gamla og hinum nýja hluta.