Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 17:32:13 (2075)

1995-12-16 17:32:13# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[17:32]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu eitt af viðkvæmari og stærri málum sem þetta þing fjallar um. Það er eðlilega viðkvæmt því það snertir stóriðju. Þótt Íslendingar hafi haft stóriðju nú um hríð, er hún lítill hluti af atvinnu- og efnahagslífi okkar. Stóriðjan hins vegar snertir menningarhefð okkar, atvinnuhefð og annað því um líkt. Stóriðja mun því ávallt verða mjög viðkvæmt mál hér á Íslandi.

Þetta er líka viðkvæmt mál og stórt mál vegna þess að þetta snertir orkuforða landsmanna. Þetta er viðkvæmt vegna þess að þetta snertir umhverfisþætti og mengunarmál, eins og hér hefur verið mjög ítarlega um fjallað. Þetta snertir hugsanlega röskun á jafnvægi í byggðum landsins og þannig má áfram telja. Ég tel þó meginatriðið það að niðurstaða er komin í málinu, ásættanleg eins og hæstv. umhvrh. orðaði það áðan, þótt vitaskuld mætti ávallt og vonandi verður það svo áfram að megi gera betur.

Hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, beindi einmitt þeirri spurningu til hv. formanns iðnn. Þótt ég sé ekki sá aðilinn, þá hygg ég að allir geti svarað þeirri spurningu játandi að ávallt er hægt að gera betur og það eiga menn ávallt að gera.

Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs er að ég vildi beina spurningum til hæstv. iðnrh. varðandi mál sem upp kom eftir að skrifað var undir starfsleyfi. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mun hafa borist bréf frá álverinu, frá Ísal, þar sem mælst er mjög sterklega til þess að bæjarstjórn Hafnarfjarðar endurskoði áform sín um stækkun byggðar í Hafnarfirði vestur að Hvaleyrarholtinu, milli Hvaleyrarholts og álversins. Þetta bréf mun hafa verið sent í ljósriti til iðnrn. og iðnrn. fyrir sitt leyti tekið undir þau sjónarmið sem þar voru kynnt.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar telur að þar hafi um sumt verið komið í bakið á sér og óeðlilega hafi verið að þessu staðið. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar var fyrir löngu búin að skipuleggja byggð á þessu svæði og samþykkja það skipulag, enda er mjög takmarkað rými til stækkunar byggðar í Hafnarfirði. Þetta bréf sem ég gat um áðan frá álverinu barst aðeins nokkrum dögum eftir að starfsleyfið var gefið út og setti dálítinn skugga á öll þau mál. Það hefur að vísu gengið á ýmsu í samskiptum Íslenska álfélagsins og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar en í það heila hafa þau samskipti verið ágæt. Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh. hver staða þessara mála er í samskiptum álfélagsins annars vegar við bæjarstjórn Hafnarfjarðar og hins vegar við iðnrn.