Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 19:14:53 (2086)

1995-12-16 19:14:53# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[19:14]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til þess að ræða þessi mál við 3. umr. sem hér hafa verið nefnd varðandi viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við tillögum mínum. Ég tel að menn þurfi auðvitað að gera sér grein fyrir því að þessar tillögur sem hér er um að ræða eru spurning um ákveðna tilraun til þess að skapa hér víðtæka, pólitíska samstöðu eins og mögulegt er í þessari virðulegu stofnun. Ég tel að viðbrögðin við tillögunum hafi þess vegna pólitíska þýðingu og læt mig þá einu gilda hvort einhverjir aðrir eru að vinna að einhverjum svipuðum verkum eða ekki. Það skiptir máli hvernig máli af þessum toga er lent, hvernig stjórnvöld taka í hlutina.

Varðandi það hvort þessi samningur hefði verið gerður með Alþb. í ríkisstjórn eða ekki, verð ég að segja alveg eins og er að ég tel að það liggi í raun og veru ekkert fyrir um það að svo hefði ekki verið. Í fyrsta lagi tel ég fyrir mitt leyti að það liggi fyrir að Alþb. hefði sem flokkur getað sætt sig við meginatriði þessa orkusamnings, ég tel að málið liggi þannig. Ég tel aftur á móti að jafnljóst að við hefðum farið öðruvísi með umhverfismálin. Við erum mjög ósátt með hvernig á þeim er haldið. Ef hins vegar hefði tekist allt í senn að ná sæmilegri lendingu í orkumálum, skattamálum og að fara vel með umhverfismálin, útiloka ég ekki að okkur hefði tekist að ná þessum samningi, rétt eins og hverjum öðrum.