Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 15:31:29 (2105)

1995-12-18 15:31:29# 120. lþ. 69.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[15:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sá samningur um stækkun álbræðslu í Straumsvík sem leitað er staðfestingar á er slæmur samningur. Raforkusamningurinn felur í sér útsölu á orku a.m.k. til ársins 2004 og setur jafnframt í hættu sérsamninga við fjölmörg innlend fyrirtæki um sölu ótryggðrar orku en þessi fyrirtæki gefa þó í aðra hönd svipað verð og forgangsorka til álbræðslunar næstu átta árin. Að gerðum raforkusamningi vegna stækkunarinnar verða yfir 60% af raforkusölu Landsvirkjunar með beinum hætti tengd sveiflum sem fylgja heimsmarkaðsverði á áli. Skattar á Ísal eru lækkaðir stórlega með því að lágmarksframleiðslugjald er lækkað um helming, úr 20 Bandaríkjadölum á framleitt tonn í 10 dali. Viðurkennt er að ekki muni koma til greiðslu tekjuskatts á afskriftatíma fjárfestingarinnar, a.m.k. næstu átta ár. Jafnframt heldur gildi sínu það fráleita ákvæði aðalsamnings Ísal að fyrirtækið fær að draga frá fyrir skattgreiðslu á 3,7% tækni- og söluþóknun til eiganda síns, Alusuisse.

Við umhverfismál álbræðslunnar hef ég gert rökstuddar athugasemdir í 16 liðum, sem minni hluti umhvn., og vísa til þess. Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því að reisa hvert stóriðjufyrirtækið á fætur öðru á Faxaflóasvæðinu. Það er þjóðfélagslega stórhættuleg stefna. Ég ítreka, herra forseti, þetta er slæmur samningur á heildina litið. Því segi ég nei.