Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:05:52 (2119)

1995-12-18 16:05:52# 120. lþ. 69.2 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er hæstv. ríkisstjórn að fella úr gildi tæplega ársgamalt ákvæði um skattafslátt ellilífeyrisþega vegna iðgjalda eða tekna úr lífeyrissjóðum. Þetta var jólagjöf eða kosningagjöf fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar til aldraðra í aðdraganda kosninga 1994--1995. En nú er hins vegar ekki tilefni til að standa við slík gæði í garð þessa hóps heldur eru þau felld niður. Í stað þess að þrepast niður í áföngum og lækka um helming, eins og til stóð, þá er tillaga flutt um að fella þetta niður með öllu, strax um áramót. Var þó rökstuðningurinn á sínum tíma sá að þetta væri liður í afnámi tvísköttunar lífeyristekna. Þar af leiðandi er ekki rökrétt að þessi frádráttur skuli allur falla niður nú um áramótin þar sem skattfrelsi eingreiðslna kemur ekki að fullu til framkvæmda fyrr en um mitt þetta ár. Hér er hæstv. ríkisstjórn að svíkja þær forsendur sem gefnar voru um að það skuli haldast í hendur að afslátturinn á ellilífeyristekjunum verði þó ekki felldur niður fyrr en skattfrelsi eingreiðslna er komið til framkvæmda að fullu.

Hér er enn ein árásin á aldraða á ferðinni og óréttmætt hvernig að þessu er staðið. Ég mótmæli því. Við leggjum til að þetta verði fellt.