Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:13:31 (2123)

1995-12-18 16:13:31# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:13]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Tilefni þess að ég hef óskað eftir að fram fari utandagskrárumræða um Neyðarlínuna hf. er margþætt. Í fyrsta lagi er ljóst að þrátt fyrir að lög kveði beinlínis á um að samræmdri neyðarsímsvörun verði komið á um þessi áramót bendir margt til að þessi mál séu enn í miklu uppnámi og ólestri. Þar að auki er margt svo alvarlegt við þessa framkvæmd að athuga að nauðsynlegt er að fá umræður um málið á Alþingi. Mun ég færa rök fyrir því að í framkvæmdinni hafi hæstv. dómsmrh. farið með málið, sem allir eru sammála um að er hið mesta þjóðþrifamál, inn í farveg sem er gersamlega óásættanlegur, reyndar svo mjög að ég tel nauðsynlegt að taka málið allt upp frá grunni og endurskoða það í heild sinni.

Varðandi fyrra atriðið má benda á að nú þrettán dögum fyrir áramót er verið að auglýsa eftir starfsmönnum og aðeins fimm daga umsóknarfrestur gefinn. Þá er á það að líta í þessu sambandi að fullkomin óvissa ríkir hjá starfsliði lögreglu og slökkviðliðs um hvað gerist. Hverjir verða þeir starfsmenn sem eiga að axla ábyrgð á neyðarsímsvörun landsmanna á nýársdag? Þetta er ekki vitað en það er ekki bara í þessu sem endar eru lausir. Samkeppnisstofnun hefur gert alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina og fullyrðingar um óeðlilega viðskiptahætti eða hringamyndun hjá eignaraðilum Neyðarlínunnar hf. hafa komið fram opinberlega.

Um eftirlitsþáttinn er það að segja að allt er á huldu hvernig honum verður háttað. Við skulum ekki gleyma því að eins og málin standa nú er ætlunin að láta hlutafélag sem félagasamtök og öryggisfyrirtæki á einkamarkaði, Securitas, Vari og Sívaki, eiga yfirgnæfandi meiri hluta í annast milligöngu trúnaðarsamtala við lögregluna í landinu, taka þau upp á segulband og varðveita.

[16:15]

Þetta hefur komið fram í skriflegu svari hæstv. dómsmrh. til undirritaðs um þetta efni. Í svari ráðherrans er fullyrt að trúnaðar verði gætt í meðferð persónuupplýsinga en ekkert er sagt um það hvernig. Hvernig ætti almannavaldið að tryggja borgaranum trúnað í hlutafélagi sem er í meirihlutaeign félagasamtaka og einkafyrirtækja á markaði? Hæstv. dómsmrh. verður að átta sig á því að fólk mun ekki sætta sig við annað en að fullkomið traust og fullkominn trúnaður ríki um þessi efni. Með öðrum orðum, hvernig sem á þessi mál er litið eru þau í fullkomnu uppnámi.

Það sem meira er, ef ekki verður gripið í taumana þegar í stað þá er ljóst að til verður fyrirkomulag sem engin sátt getur orðið um. Hvers vegna? Víkjum nú nánar að því.

Þegar lögin voru sett um neyðarsímsvörun var jafnan gengið út frá því að lögregla og slökkviðlið gegndu þar lykilhlutverki. Þetta var ítrekað staðfest af hálfu stjórnmálamanna, þar á meðal tveggja hæstv. ráðherra í núv. ríkisstjórn, þ.e. þeim Birni Bjarnasyni, hæstv. menntmrh., og Finni Ingólfssyni, hæstv. iðnrh., sem sagði á fundi hjá Landssambandi lögreglumanna í mars sl. að ekki kæmi til greina að einkavinavæða þessa þjónustu eins og hann orðaði það.

En skyldi reyndin hafa orðið önnur? Mér finnst rétt að hæstv. dómsmrh. svari því nú. Í skýrslu Samkeppnisstofnunar segir að það kosti öryggisþjónustufyrirtæki 8--10 millj. kr. á ári að manna vaktstöð með sólarhringsvöktum. Samkomulag hafi hins vegar orðið um að fyrirtækin greiddu aðeins 5 millj. kr. árlega þannig að sparnaður þeirra næmi 3--5 millj. kr. á ári. Nú mun vera rætt um að hafa þessa greiðslu enn lægri og hagnaður þessara aðila yrði eftir því meiri. En hver skyldi síðan borga brúsann? Gert er ráð fyrir því að allir eignaraðilar greiði grunnupphæð og einhver þjónustugjöld en ríki og sveitarfélög komi með það sem á vanti. Samkvæmt upplýsingum dómsmrn. er gert ráð fyrir 300 millj. kr. framlagi ríkis og sveitarfélaga á næstu átta árum en þegar allt er reiknað saman má ætla að heildarkostnaðurinn á tímabilinu nemi 0,5 milljörðum kr. Margt bendir til að þessi upphæð kunni að verða enn hærri. Þannig gætu menn komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að koma á svæðastöðvum í öðrum landshlutum til að fulltryggja öryggi á landsbyggðinni.

Hæstv. dómsmrh. Ég hef gert mjög alvarlegar athugasemdir við allan framgang þessa máls. Það er í fullkomnu uppnámi og mikilvægir þættir ófrágengnir og óljósir, en það sem verra er, ekki ríkir sátt um fyrirkomulagið sem hæstv. dómsmrh. ætlar að koma á varðandi samræmingu á neyðarsímsvörun landsmanna. Allir vilja samræma þessa þjónustu. Allir vilja að einstaklingar, hópar og fyrirtæki geti notið góðs af henni. Ég vil taka undir með hæstv. iðnrh. Finni Ingólfssyni að neyðarsímsvörun landsmanna eigi ekki að einkavinavæða. Nú spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort einmitt þetta hafi ekki verið gert.