Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:18:58 (2124)

1995-12-18 16:18:58# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:18]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að rifja upp með örfáum orðum aðdraganda þessa máls en hann er sá að ég skipaði í aprílmánuði 1993 nefnd til þess að hafa frumkvæði að tillögugerð um samræmda neyðarsímsvörun. Hún skilaði síðan skýrslu og á grundvelli hennar var nefndinni falið að vinna lagafrv. sem fjallað var um á Alþingi og samþykkt á sl. vori.

Í þeim lögum segir skilmerkilega að dómsmrh. sé heimilað að semja við opinberar stofnanir, sveitarfélög og einstaklinga um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í slíkum rekstri. Það er einmitt það sem að hefur verið stefnt og unnið að. Tillögugerðin er í upphafi samin af nefnd. Að henni komu fjölmargir aðilar, fulltrúi frá Pósti og síma, fulltrúi frá Slysavarnafélagi Íslands, heilbrrn., Almannavörnum, frá sveitarfélagi úti á landsbyggðinni og frá Reykjavíkurborg.

Frv. sem byggt var á tillögum nefndarinnar fékk ítarlega umfjöllun á Alþingi og var samþykkt að tillögu og á grundvelli sameiginlegs nefndarálits frá hv. allshn. Allir flokkar sameinuðust um þann grundvöll sem unnið hefur verið að síðan, að leita eftir samstarfi opinberra stofnana, sveitarfélaga og einkaaðila um rekstur á þessu samræmda neyðarsímanúmeri. Við val á rekstraraðilum fór fram útboð á grundvelli samstarfsútboðs sem Ríkiskaup sáu um. Í framhaldi af því var gerður verksamningur við Póst og síma, Reykjavíkurborg, vegna Slökkviliðs Reykjavíkur, Securitas, Sívaka, Slysavarnafélagið og Vara. Ég ber fullt traust til þeirra einkafyrirtækja sem þarna eiga hlut að máli og opinberu fyrirtækjanna, bæði þess ríkisfyrirtækis sem um ræðir og borgarfyrirtækisins. Ég ber fullt traust til Slysavarnafélags Íslands til þess að eiga aðild að rekstri neyðarlínunnar.

Það hefur með öðrum orðum verið full sátt frá upphafi um þann grundvöll sem unnið hefur verið að. Ráðuneytið hefur unnið að framkvæmd málsins nákvæmlega eftir þeirri forskrift sem lögin kveða á um. Ráðuneytið hafði frá uppphafi fullt samstarf við Samkeppnisstofnun, lét hana fylgjast með hverju skrefi, í þeim tilgangi fyrst og fremst að tryggja að ekki kæmu upp efasemdir um að samningurinn væri með þeim hætti að hann gæti raskað samkeppnisstöðu. Samkeppnisstofnun gerði athugasemdir á lokastigi samningsins. Þegar í stað var farið í að leiðrétta eða gera þær breytingar á samningnum sem Samkeppnisstofnun taldi nauðsynlegar til þess að tryggja eðlilega samkeppnisstöðu þannig að öllum efasemdum í þeim efnum hefur verið eytt.

Bæði ríkið og þeir aðilar sem hér eiga hlut að máli telja sig vera að spara peninga með því að sameina krafta sína. Það er vissulega svo að sú upphæð sem þessir aðilar greiða lækkaði lítið eitt eftir meðferð Samkeppnisstofnunar. Ráðuneytið hafði ætlað sér að hafa upphæðina heldur hærri en eftir meðferð Samkeppnisstofnunar var hún lækkuð. En hér stendur ekkert út af að því er varðar samkeppnisskilyrði.

Auðvitað verður lögum samkvæmt fullur trúnaður um starfsemina og engin rök eru fyrir því að halda því fram að Íslendingar séu misjafnlega til þess fallnir að gæta trúnaðar eftir því í hvaða stéttarfélögum þeir eru. Það er ekki svo. Ákvæðin um trúnað eru skýr, sérhæft fólk verður fengið til starfa, til þess að sinna þessu mikilvæga verkefni, og um það er nauðsynlegt að skapa traust og festu. Því miður hafði það nokkra tímatöf í för með sér þegar endurskoða þurfti samningana á grundvelli álits Samkeppnisstofnunar þannig að undirbúningi varð ekki lokið á þeim tíma, herra forseti, sem hafði verið vænst. En þetta neyðarnúmer mun taka til starfa um áramótin þó að í bráðabirgðahúsnæði verði og ekki að fullu eins og lögin segja til um fyrr en síðar á árinu. Það mun taka til starfa og gegna þeim skyldum sem lög kveða á um.