Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:27:44 (2126)

1995-12-18 16:27:44# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), ÓRG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:27]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Þeir sem aðallega hafa sinnt neyðarþjónustu á Íslandi undanfarna áratugi eru annars vegar lögreglumenn og hins vegar slökkviliðsmenn, þótt ýmsir aðrir aðilar hafi þar einnig komið við sögu. Það var athyglisvert að í svari sínu minntist hæstv. dómsmrh. ekki orði á að samtök þessara tveggja greina, lögreglumanna og slökkviliðsmanna, hafa mótmælt harðlega því sem hér er verið að gera. En hins vegar áréttaði ráðherra hvað eftir annað að samkeppnisráð væri nú sátt við skipan mála. Ég spyr hæstv. dómsmrh.: Síðan hvenær varð samkeppnisráð aðalaðilinn að neyðarþjónustu landsmanna? Ég er viss um, hæstv. dómsmrh., að ef landsmenn væru spurðir: Á að taka mark á eftirfarandi aðilum í umræðum um neyðarþjónustu:

a. slökkviliðsmönnum,

b. lögreglumönnum,

c. Samkeppnisráði?

þá fengi Samkeppnisráð ekki mörg atkvæði en slökkviliðsmenn og lögregluþjónusta í landinu fengju hins vegar allan þorra atkvæða.

Það er leitt að þurfa að segja það við hæstv. dómsmrh. að svör hans áðan voru engan veginn viðhlítandi. Í ljósi upplýsinga síðasta hv. ræðumanns þá er alveg ljóst að hæstv. dómsmrh. verður að gera miklu ítarlegri grein fyrir málinu. Annars stendur það eftir, eftir þessa umræðu, að hann í fyrsta lagi hunsi álit lögreglumanna og slökkviliðsmanna og í öðru lagi sé að skapa einhverjum einkaaðilum í landinu aðstöðu til að græða stórfé á neyðarþjónustunni og skýli sér þar á bak við Samkeppnisráð. Það er engin þjóðarsátt á Íslandi, hæstv. dómsmrh., um að fáeinir einstaklingar eigi að fá aðstöðu til þess að græða stórfé á neyðarþjónustu við landsmenn.