Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:30:15 (2127)

1995-12-18 16:30:15# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:30]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er um talsvert mikilvægt mál að ræða og það undrar mig hversu margir þingmenn hlupu héðan úr þingsal eins og um einhverja sérstaka neyð væri að ræða. Þeir hafa líklega ætlað að hringja í neyðarþjónustuna þegar þetta mál komst á dagskrá.

Ég þakka hv. 17. þm. Reykv. fyrir að taka þetta upp svo menn geti glöggvað sig á því hvað hér er um að ræða. En ég er ekki alveg sátt við svör hæstv. ráðherra. Mér fannst hann taka óstinnt upp þá gagnrýni sem færð hafa verið nokkuð sannfærandi rök fyrir. Það er fyllsta ástæða til að skoða þetta mál. Allir munu einhuga um ágæti og mikilvægi þess að koma á samræmdri neyðarsímsvörun og það er rétt að þau lög voru samþykkt samhljóða héðan frá Alþingi. Enda er það ekki álitaefni dagsins í dag, heldur með hvaða hætti framkvæmdin hefur verið. Hún hefur því miður ekki verið alveg hnökralaus og brýnt að laga það sem miður hefur farið.

Mér virðist málið fyrst og fremst snúast um tvennt. Í fyrsta lagi það hvort framkvæmd málsins samræmist í raun og veru ákvæðum 7. gr. laganna þar sem segir að starfsmenn vaktstöðva skuli hafa hlotið menntun, þjálfun og starfsreynslu á vegum þeirra aðila sem neyðarþjónustu sinna. En eins og fram hefur komið er framkvæmdin í höndum Neyðarlínunnar hf. og þar kemur t.d. lögreglan hvergi nærri. Ég á erfitt með að skilja þá afstöðu sem hefur komið fram, að vísu ekki hér en ég las það einhvers staðar í gögnum, að það sé kostur að aðskilja þjónustu af þessu tagi og þá þjónustu sem felst í viðbrögðum við neyð.

Í öðru lagi hefur Samkeppnisráð komist að þeirri niðurstöðu að náið samstarf Securitas, Vara og Sívaka í Neyðarlínunni geti haft skaðleg áhrif á samkeppni á öryggismarkaðnum og ég hlýt að taka undir með hv. 6. þm. Suðurl. að allt það samkrull er ekki sérlega góð latína.

Þá er umhugsunarvert að upplýsingar sem koma inn til Neyðarlínunnar við neyðarsímsvörun, svo sem við innbrot og fleira, geta komið sé vel fyrir suma þá aðila sem að Neyðarlínunni standa og það fer ekki vel á því. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að athuga þetta mál gaumgæfilega því að það varðar miklu að framkvæmdin verði sem best.