Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:34:47 (2129)

1995-12-18 16:34:47# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:34]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svör þótt þau séu langt frá því að vera fullnægjandi. Reyndar vil ég ganga enn lengra og segja að þau séu ekki þinginu boðleg. Hann leyfir sér að koma upp, hæstv. dómsmrh., og fullyrða að um þessi mál ríki fullkomin sátt, að um þau sé sátt í þjóðfélaginu. Eins og hér hefur komið fram hefur Landssamband lögreglumanna, Landssamband slökkviliðsmanna og fleiri aðilar ályktað og mótmælt þessum breytingum. Við höfum ekki fengið nein svör við þeim spurningum sem hér voru bornar fram, t.d. um það grundvallaratriði hver eigi að axla ábyrgðina á nýársdag eða hvernig þessi mál standi. Þessi mál eru í fullkomnu uppnámi. Ég er hér með bréf undirritað af aðalvarðstjórunum og varðstjórum Slökkviliðsins í Reykjavík þar sem þeir lýsa undrun og setja stór spurningarmerki við þessa ráðagerð alla. Síðan segir hæstv. dómsmrh. máli sínu til stuðnings um að sátt ríki um málið að menn treysti Reykjavíkurborg, Slökkviliðinu í Reykjavík, jafnvel Slysavarnafélaginu. Spurningin snýst ekki um þetta. Spurningin snýst um það hvort eðlilegt sé að fyrirtækjum á samkeppnismarkaði, fyrirtækjum á borð við Vara, Sívaka og Securitas, sé afhent neyðarsímsvörun landsmanna. Ég hef borið fram ýmsar spurningar um trúnað. Síðan hafa komið fram mjög alvarlegar upplýsingar sem lúta að hringamyndun og þegar talað er um einkavinavæðingu, þá meina menn það. Þá eru menn í alvöru að spyrja um einkavinavæðingu.

Að lokum vil ég segja að mér er spurn: Hvers konar afskræmingu ætla menn eiginlega að búa til í kringum þetta? Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að byggja þessa þjónustu upp í kringum aðila sem óumdeilanlega njóta trúnaðar í þjóðfélaginu, aðila sem hafa þekkinguna, aðila sem hafa reynsluna? Þá er ég að sjálfsögðu að tala um lögreglu og slökkvilið. Þess má geta að í Finnlandi er verið að fella saman í eitt þjónustu þessara tveggja aðila til að sinna samsvarandi vakt og hér er um að ræða. Í Danmörku sinnir lögreglan þessu lykilhlutverki að undanskilinni Kaupmannahöfn, þar er það slökkviliðið. Varðandi eignaraðild má nefna að í Svíþjóð er það algert skilyrði að einkaaðilar eigi ekki hlut að máli og má nefna í því sambandi að sænski síminn, sem átti 50% hlut í neyðarlínunni sænsku, var umsvifalaust látinn afsala sér þessari eign sinni þegar stofnunin var gerð að hlutafélagi. Í Noregi fer einvörðungu lögregla og slökkvilið með þessa þjónustu en hér á landi, einu Norðurlandanna, eru það hins vegar einkaaðilar, félagasamtök og fyrirtæki í öryggisþjónustu sem fara með mikla meirihlutaeign í stofnun sem í eðli sínu getur aldrei búið við annað en einokunarskilyrði. Svona verður þetta ef hæstv. dómsmrh. forðar okkur ekki frá þessu slysi. Ég vil að lokum geta þess að ég hef orðið áþreifanlega var við það eftir að þessi umræða kviknaði sl. haust að þau sjónarmið sem ég hef verið að lýsa fá mjög mikinn hljómgrunn í samfélaginu. Og ég lýsi ábyrgð á hendur dómsmrh. ef hann tekur þessi mál ekki upp til gagngerðrar endurskoðunar.