Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:38:43 (2130)

1995-12-18 16:38:43# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:38]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Þegar að því er spurt hvers vegna einkafyrirtæki, sjálfstæð félög og opinberir aðilar séu fengnir að slíkum rekstri er nauðsynlegt að ítreka enn og aftur að það er vegna þess að lögin sem Alþingi samþykkti gera ráð fyrir því að slíkt sé gert. Það vekur nokkra furðu þegar fulltrúar þeirra flokka sem að því stóðu koma nú og þykjast aldrei hafa nærri komið. (Gripið fram í: Ertu að tala um hæstv. iðnrh.?) Hvers vegna eiga þessi fyrirtæki hlut að máli sem um getur? Þau voru valin á grundvelli útboðs sem fram fór hjá Ríkiskaupum hf. Þar að auki er gengið þannig frá þessum samningi að önnur fyrirtæki sem það kjósa geta komið þarna inn. Það er því ekki verið að skapa neinum fyrirtækjum neins konar forréttindastöðu á þessum markaði með þessum samningi. Hann er algerlega opinn gagnvart öðrum sem vilja koma þarna að máli.

Síðan vil ég minna á að til þessara starfa verða ráðnir lögum samkvæmt menn sem hafa reynslu og þekkingu á þessu sviði. Að þessu fyrirtæki koma einkaaðilar sem hafa rekið vaktstöðvar, Slökkvilið Reykjavíkur sem hefur mikla reynslu í þessum efnum og Slysavarnafélagið sem hefur langa reynslu í þessum efnum og Póstur og sími sem hefur yfir tækniþekkingunni að ráða. Hér hafa engin gild rök verið færð fram fyrir því að þessum aðilum sé ekki treystandi til að reka starfsemi af þessu tagi. En ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Þetta er mikilvægt öryggisatriði, það er mikilvægt að að því sé þannig staðið að það skapist öryggi og traust og ráðuneytið mun fyrir sitt leyti leggja sig fram við að svo verði.