Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:41:25 (2131)

1995-12-18 16:41:25# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:41]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég veit að hæstv. dómsmrh. getur ekki talað aftur í þessari umræðu svo ég vil ekki beina beinni spurningu til hans. En hér er svo sannarlega um mikilsvert málefni að ræða sem varðar okkur öll.

Ég bið hins vegar hæstv. ráðherra að huga sérstaklega að þjálfunarþætti og þá sérstaklega með hliðsjón af því, ef ekki er enn búið að ráða þá menn sem eiga að fara að taka til starfa, að vel verði hugað að því að öryggi okkar sé ekki sett í hættu á neinn hátt nú um áramótin. Ég er ekki fyrst og fremst að hugsa um áramótin þótt væntanlega eigi mikið eftir að ganga á þá eins og oft áður, heldur bið ég fyrst og fremst hæstv. ráðherra að huga vel að því hvort þær kröfur sem gerðar eru til þjálfunar hjá þeim fyrirtækjum og aðilum sem eru að taka þetta mál að sér séu fyllilega í samræmi við það sem nægjanlegt er. Ég tel þetta mikilsvert vegna þess að við vitum að þeir aðilar innan slökkviliðs og lögreglu sem hafa sinnt þessu máli eru svo sannarlega í fullri þjálfun og í mjög nánu sambandi hver við annan og hafa leyst þetta mál mjög vel af hendi hingað til.