Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 17:05:16 (2135)

1995-12-18 17:05:16# 120. lþ. 70.1 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur


[17:05]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er vissulega góðra gjalda vert að hér á Alþingi er verið að vinna að breytingum á lögum að því er varðar varnir gegn snjóflóðum og hefði fyrr mátt vera í ýmsum greinum en á síðasta þingi var gerð lagabreyting vegna þeirra atburða sem urðu í janúar sl. í Súðavík. Ég hefði talið að æskilegt hefði verið að þingið tæki sér meiri tíma til að athuga þau efni sem varða kerfisbreytingar varðandi viðvaranir gegn snjóflóðavá, þar á meðal um ákvörðun um rýmingu á hættusvæðum. En ég skil að það er ýtt mjög á um það vegna atburða haustsins að teknar verði ákvarðanir. Nefnd þingsins sem fjallar um þetta mál, hv. allshn., hefur fjallað um málið og leitað umsagna og er hér með tillögu sem nefndin stendur að í heild sinni. Ég ætla ekki að fara að ganga gegn því að hér verði lögfestar breytingar eins og hér eru tillögur um, þótt ég hafi vissulega efasemdir um nokkur atriði. Ég tel miður að ekki skuli hafa verið tekið tillit til samhljóða umsagna umhvn. varðandi samráð við skipulagsyfirvöld í 2. efnisgrein frv. sem hefði verið eðlileg og sjálfsögð breyting að mínu mati og eins lagfæring á orðalagi síðustu efnisgreinar 5. gr. frv. varðandi byggingar á óbyggðum hættusvæðum og þéttingu byggðar. Þetta voru atriði sem komu fram í umsögn hv. umhvn. um málið og hefði verið til bóta að taka tillit til þeirra ábendinga.

Ég vildi einnig vekja athygli á því, sem raunar kom fram í framsögu formanns hv. allshn., að ekki er með frv. þessu stefnt að breytingu á rannsóknum eða úttekt á skriðuföllum, enda hefur það mál ekki verið tengt umræðu um þessi efni. Hins vegar er mér kunnugt um að áform hafa verið uppi um það að gera þar einhverjar breytingar varðandi vinnulag. Ég held að það mál þyrfti að athuga betur og ég er ánægður með að formaður nefndarinnar hefur vikið að því efni í framsögu fyrir hönd nefndarinnar.

Ég ætla ekki að fara að vekja upp umræður um stór efni sem varða þessi mál. Til þess er ekki ráðrúm hér og ekki ástæða miðað við þau áform sem koma fram í frv. að lögin í heild verði endurskoðuð innan árs og lögð fyrir þingið. Ég vil þó inna eftir því við umræðuna hvort hægt sé að greina frá því hvernig háttar varðandi fjármuni til þessara mála, alveg sérstaklega til byggingar varnarvirkja. Ég hef haft áhyggjur af því frá því fjallað var um þessi efni á næstsíðasta þingi að of eindregin áhersla væri komin upp, ég segi ekki af stjórnvalda hálfu en í hugum margra sem á snjóflóðasvæðum búa, líklegum eða raunverulegum hættusvæðum, að horfa mest til þess að húseignir eða fasteignir verði keyptar með aðstoð hins opinbera en ekki lögð sama áhersla á að úttekt sé gerð varðandi varnarvirkin. Sérstaklega hef ég áhyggjur af því að ekki verði þegar á reynir eðlilegt fjármagn til ráðstöfunar í því skyni að reisa varnarvirki þar sem það er metið skynsamlegt að bestu manna yfirsýn. Ég væri þakklátur ef eitthvað kæmi fram um þau efni við þessa umræðu, hvort gera megi ráð fyrir því að ekki standi á fjármagni í því skyni, enda hafi þær athuganir farið fram sem skylt er áður en afstaða er tekin til snjóflóðavarna með mannvirkjum.

Að öðru leyti ætla ég að standa að þessari breytingu og flyt enga tillögu til breytinga þótt ég leyfi mér að koma fram með þessi sjónarmið við umræðuna.