Þingstörf fram að jólahléi

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 14:29:00 (2146)

1995-12-19 14:29:00# 120. lþ. 72.91 fundur 150#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[14:29]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem eiga sæti í efh.- og viðskn. Við höfum reynt að starfa bæði í anda þingskapa og í anda þeirra orða sem forseti lét falla í upphafi þings. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að ríkisstjórnin er að koma með í sínum bandormi í tengslum við fjárlagafrv. meiri háttar breytingar til langs tíma. Þarna er verið að gera grundvallarbreytingar á mjög mörgum þáttum í okkar þjóðlífi sem á að afgreiða á einni viku. Við höfum gert athugasemdir við þetta form vegna þess að hér er ekki um að ræða hina þinglegu meðferð sem mál þurfa að fá. Við höfum ekki verið að gera athugasemd á þessu stigi varðandi þennan þátt um efnisatriðin þó að vitaskuld séum við ósammála þeim. En það hefur ekki tekist samkomulag eins og oft vill verða í anda þess að setja lög með réttum hætti. Í stað þess höfum við upplifað hvað eftir annað stórar breytingar. Þær síðustu komu fram í morgun og í gærkvöldi, sérstaklega í heilbrigðismálum.

Við fengum í morgun á fund nefndarinnar fulltrúa aldraðra og marga sem þekkja þar til mála. Hægt væri að hafa langt mál um þá skelfingu sem hefur gripið um sig meðal fullorðins fólks. Það hefur ekki náðst samkomulag um að breyta vinnubrögðum við afgreiðsluna. Okkur hafa verið borin þau skilaboð að það strandi á samningavilja flm. frv., sem er hæstv. forsrh.

Ég vil biðja hæstv. forseta um að leitast við að setja niður ágreininginn sem er uppi innan stjórnarliðsins um málsmeðferð á þeim dögum sem eftir eru til jóla. Það er orðið óbærilegt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni sem höfum verið öll af vilja gerð að hafa þingstörf með eðlilegum hætti að láta þetta ganga svona mikið lengur. Grípa þarf í taumana, setjast niður og finna einhverja þá sátt um meðferð þeirra mála sem eftir er að afgreiða því að svona vinnubrögð sem við gerum að umtalsefni eru, herra forseti, ekki í anda þess sem við vitum að hann óskar sér.

!DOCTYPE RA SYSTEM "/usr/local/lib/sgml/ra.dtd">