Þingstörf fram að jólahléi

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 14:42:40 (2152)

1995-12-19 14:42:40# 120. lþ. 72.91 fundur 150#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), JBH
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[14:42]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Forseti sagði áðan í svörum sínum við spurningum mínum að hann hefði gert sér vonir um að unnt væri að taka á dagskrá þings frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, með öðrum orðum bandorm. Nú er upplýst að í gærkvöldi gerðist það að fréttir bárust frá aðstoðarmanni hæstv. heilbrrh. um að heilbrrh. hefði uppi áform um að ganga enn lengra í skerðingum á bótagreiðslum lífeyrisþega, fella niður sumar skilgreindar bætur en skerða aðrar enn frekar. Jafnframt var upplýst að um þetta hefði engin efnisleg umræða farið fram í heilbrn. og í rauninni var til þess ætlast að afgreiða þetta bara ganske pent í efh.- og viðskn. án þess að málið hefði fengið nokkra eðlilega og sómasamlega þinglega umfjöllun. Að sjálfsögðu neituðum við því og a.m.k. var orðið við þeirri kröfu að við fengjum til samtala t.d. fulltrúa aldraðra, fulltrúa Félagsmálastofnunar Reykjavíkur og fleiri aðila í morgun, til þess að fá a.m.k. frumupplýsingar um þetta mál. Síðan er það að efh.- og viðskn. var á fundum í hádegi. Það er reyndar svo að tíðir fundir þar hafa orðið til þess að menn hafa orðið að skipta með sér verkum til sækja þá fundi. Ef forseti býst við að unnt sé að taka þessi mál á dagskrá þannig að fyrir liggi brtt. og nál. að því er varðar bandorminn sjálfan og skröltorminn, afkvæmi hans, tekju- og eignarskattsfrv., lánsfjárlög, tekjugrein fjárlaga o.s.frv. þá er það til of mikils mælst. Ég veit að jafnþingreyndur maður og hann veit, öfugt við það sem hv. formaður efh.- og viðskn. var að gefa í skyn áðan, að með þessum hætti ganga mál ekki. Fyrir utan að verið er að sniðganga starfsreglur þingsins um eðlileg vinnubrögð nefnda er verið að bjóða heim stórkostlegri slysahættu í löggjöf og það er ekkert smávegis sem er undir. Það eru nokkurn veginn meginþættirnir af gervallri velferðarríkislöggjöf Íslendinga sem eru undir þessa fáeinu daga. Niðurstaðan er því einfaldlega sú tillaga sem fram er komin um að menn staldri við, líti á þessi vinnubrögð, reyni að gera hvað þeir geta til þess að forða stórslysum í löggjöf og geri hlé. Meiri hlutinn sem að þessum málum stendur getur þá ráðið ráðum sínum og tekið almenna afstöðu til þess hvort hann ætlar að standa sómasamlega að vinnubrögðum við afgreiðslu mála.